fbpx
Laugardagur 14.desember 2024
Fréttir

Eitrað andrúmsloft – UMFN leggur niður glímudeild félagsins í skugga heiftarlegra deilna

Ágúst Borgþór Sverrisson
Mánudaginn 2. október 2023 15:00

Mynd: Facebooksíða Glímudeildar Njarðvíkur.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Stjórn Ungmennafélags Njarðvíkur (UMFN) hefur ákveðið að leggja niður glímudeild félagsins í kjölfar áralangra deilna innan félagsins um starfsemi deildarinnar. Í tilkynningu um þetta á vef UMFN segir að deildin hafi verið óstarfhæf vegna ágreinings. Ennfremur segir að deildin hafi ekki virt reglur UMFN né lög Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands:

„Aðalstjórn Ungmennafélags Njarðvíkur tilkynnir hér með að ákvörðun hefur verið tekin að leggja niður Glímudeild Ungmannafélags Njarðvíkur. Styr hefur staðið um deildina um langt skeið með tilheyrandi trúnaðarbrestum. Aðalstjórn Ungmennafélags Njarðvíkur sem starfar m.a. á lagagrundvelli Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, ber ábyrgð og skylda að hlutast til þegar deild félagsins verður óstarfhæf vegna ágreinings um það starf sem þar fer fram og þegar hún virðir ei lengur reglur UMFN né lög Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands.

Ítrekaðar tilraunir aðalstjórnar til að ná samkomulagi við forsvarsmenn glímudeildarnar í því skyni til að viðhalda starfsemi glímu hér á svæðinu hafa reynst árangurslausar.

Glímudeild Ungmannafélags Njarðvíkur var því lögð niður frá og með 28. september 2023.“

Ásakanir um yfirgang og falsaða undirskrift

Glímudeildin (sem kallar sig Glímudeild Njarðvíkur en ekki Glímudeild UMFN) hefur svarað tilkynningu UMFN í löngu máli og segir hana vera villandi. Formaður deildarinnar er Gunnar Örn Guðmundsson, faðir Guðmundar Stefáns Gunnarssonar, stofnanda deildarinnar. Mikill styrr stóð um störf Guðmundar á sínum tíma en hann hefur sagt sig úr stjórn deildarinnar. DV fjallaði töluvert um þessar deilur, sjá meðal annars eftirfarandi:

Stríð í UMFN – Stofnandi glímudeildar rekinn en neitar að fara – „Á meðan þeir skipta ekki um sílinder á hurðinni þá verða æfingar“

Í yfirlýsingu glímudeildarinnar, sem Gunnar Örn formaður undirritar, segir meðal annars að framkvæmdastjóri UMFN hafi falsað undirskrift glímudeildarinnar til að koma í veg fyrir að félagsmenn gætu mætt aðalfund deildarinnar:

„Í óðagoti sínu reyndi framkvæmdastjóri UMFN að falsa undirskrift formanns glímudeildarinnar á tilkynningu til að beina fundarmönnum aðalfundar Glímudeildar UMFN á annan fundarstað, og koma þannig í veg fyrir að fólk mætti á löglega boðaðan aðalfund. Glímufólkið lét þó ekki blekkjast og 60 félagsmenn mættu á aðalfundinn á réttum stað. Á aðalfundinum var ný stjórn kjörin. Framkvæmdastjóri og formaður UMFN gerðu nýkjörnum formanni glímudeildarinnar mjög erfitt fyrir að starfa sem og að lokum gafst hann upp og varaformaður leysti hann undan skyldum sínum í stjórn.“

Þá segir ennfremur að eitrað andrúmsloft hafi verið í félaginu:

„Síðustu ár hafa verið mjög erfið fyrir stjórnendur og iðkendur glímudeildar vegna eitraðs andrúmslofts. Deildin var m.a. útilokuð frá sameiginlegum fjáröflunum og viðburðum á vegum UMFN. Svo virðist sem þetta mál sé fyrir löngu orðið persónulegt og byggi hvorki á faglegum rökum né að hagur iðkenda glímu sé hafður í fyrirrúmi.“

Þá segir ennfremur að stjórn félagsins hafi ekki umboð til að leggja niður glímudeildina. Deilur undanfarinna ára eru jafnframt raktar:

„Glímudeild UMFN hefur frá upphafi haft að markmiði sínu að gefa öllum kost á að stunda íþróttir og um leið að ýta undir þekkingu og áhuga á þjóðaríþróttinni, íslenskri glímu. Þrátt fyrir afar erfið samskipti upp á síðkastið við framkvæmdastjóra og stjórn UMFN, covid faraldur og skerðingu tímum í æfingahúsnæði deildarinnar við Iðavelli, hefur deildin þrátt fyrir allt blómstrað og telur nú hundrað iðkendur á öllum aldri. Glímudeild UMFN er nú stærsta glímudeild landsins.

Núverandi framkvæmdastjóri UMFN hefur unnið markvisst að því sl. misseri að leggja glímudeildina niður. Yfirstandandi atlaga hófst fyrir þremur árum þegar þá nýráðinn framkvæmdastjóri bað þáverandi stjórn UMFN að leggja niður Júdódeild UMFN.

Á aðalfundi glímudeildarinnar 2021 var samþykkt úrsögn úr Judósambandi Íslands vegna ófaglegra vinnubragða sambandsins. Deildi breytti þá nafni deildarinnar (úr Júdódeild UMFN í Glímudeild UMFN) og gekk í Glímusamband Íslands. Áherslur deildarinnar breyttust við þetta og færðust yfir í íslenska glímu, gólfglímu og hryggspennu.

Árið 2021 kölluðu framkvæmdastjóri og formaður UMFN stjórnarmeðlimi glímudeildarinnar á fund. Á þeim fundi hótuðu framkvæmdastjóri og formaður stjórn glímudeildar að ef þau reki ekki stofnanda glímudeildarinnar þá verði deildin kærð fyrir þjófnað á keppnisvelli. Stjórn glímudeildar og Íþrótta- og tómstundaráð Reykjanesbæjar hafði haft ólíkar skoðanir á eignarhaldi keppnisvallarins, en stjórn glímudeildarinnar hafði leyst þann ágreining í góðri samvinnu við bæjarstjóra og ÍT ráð. Eftir þennan fund sagði stjórn glímudeildarinnar af sér, nema formaður.

Í framhaldinu undirbjuggu formaður og framkvæmdastjóri UMFN niðurlagningu glímudeildarinnar. Þeir ætluðu að boða aðalfund sem þeir myndu stjórna og leggja þá niður glímudeildina. Markmið þeirra náðist þó ekki þar sem þáverandi formaður glímudeildarinnar var enn starfandi. Formaðurinn boðaði þá til löglegs aðalfundar.“

Þá segir ennfremur að deildin hafi lengi unnið að því að slíta sig frá UMFN ov hún hafi á undanförnum árum byggt upp glæsilegan iðkendahóp:

„Deildin hefur unnið að því í lengri tíma að slíta sig frá UMFN en það var á dagskrá síðasta aðalfundar deildarinnar sem var frestað og verður verður framhaldið innan skamms. Nauðsynlegt er að árétta að glímudeildin er sjálfstæður lögaðili með eigin samþykktir. Þessar samþykktir höfðu verið samþykktar af UMFN á sínum tíma og voru birtar á vefsvæði UMFN þar til nýlega að stjórn UMFN ákvað að taka þær niður og vilja nú meina að þær séu ekki til Þessu er alfarið hafnað af stjórn glímudeildarinnar. Samkvæmt samþykktum glímudeildarinnar er það aðalfundur deildarinnar sem fer með fullt forræði á deildinni og er það eini vettvangurinn sem gæti tekið ákvörðun um að loka deildinni.

Í dag eru yfir hundrað iðkendur hjá deildinni. Deildin býður upp á gjaldfrjálsar æfingar og það er mikil eftirspurn eftir þeim. Glímudeild UMFN er nú orðin 12 ára og hefur því á rúmum áratug byggt upp glæsilegan iðkendahóp sem unnið hefur til fjölmargra verðlauna bæði á innlendum og erlendum vettvangi. Það er synd að ófagleg vinnubrögð stjórnenda UMFN og persónulegur ágreiningur, verði til þess að Glímudeildin gangi úr UMFN. En stjórn Glímudeildarinnar mun gert allt sem hægt er til að tryggja áframhaldandi vöxt og velsæld glímuíþróttarinnar í Reykjanesbæ. Boðað verður til aðalfundar mjög fljótlega til að fara vel yfir stöðu málsins og framhaldið. Fram að því halda æfingar áfram að öllu óbreyttu.“

Hvaða reglur voru brotnar?

Glímudeild Njarðvíkur neitar því jafnframt að hafa brotið reglur UMFN og lög Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands. DV hafði samband við Ólaf Þór Eyjólfsson, formann UMFN, og óskaði eftir nánari upplýsingum um þetta atriði. Ólafur bað um skriflega fyrirspurn. Var hún send og er beðið svara.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

Sakar Viðskiptaráð um þráhyggju og áróður – „Því er eðlilegt að spyrja hvað vaki fyrir Viðskiptaráði með jafn villandi framsetningu?“

Sakar Viðskiptaráð um þráhyggju og áróður – „Því er eðlilegt að spyrja hvað vaki fyrir Viðskiptaráði með jafn villandi framsetningu?“
Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Ari Hermóður sakfelldur fyrir fjárdrátt

Ari Hermóður sakfelldur fyrir fjárdrátt
Fréttir
Í gær

Rannsókn mun fara fram á andláti Lúðvíks

Rannsókn mun fara fram á andláti Lúðvíks
Fréttir
Í gær

Lögreglan á Vestfjörðum lýsir eftir Áslaugu

Lögreglan á Vestfjörðum lýsir eftir Áslaugu