Þetta sagði hann í þættinum „Meet the Press“ hjá NBC að sögn The Hill.
Gates sagði að Pútín telji það „örlög sín“ að endurreisa rússneska heimsveldið.
„Pútín trúir að það séu örlög hans að endurreisa rússneska heimsveldið. Eins og minn gamli lærifaðir, Zbig Brzezinski, var vanur að segja: „Án Úkraínu getur ekki verið rússneskt heimsveldi“. Svo hann er heltekinn af að endurheimta Úkraínu.“
Þarna vísaði hann til skoðunar Zbigniew Brzezinski, sem er nú látinn en hann var prófessor í alþjóðastjórnmálum og frá 1977 til 1981 var hann þjóðaröryggisráðgjafi Jimmy Carter, Bandaríkjaforseta.
Gates var varnarmálaráðherra frá 2006 til 2011 í valdatíð George W. Bush og Barack Obama.
Hann telur að Pútín muni halda stríðsrekstrinum áfram. „Hann heldur að tíminn vinni með honum að stuðningurinn í Bandaríkjunum og Evrópu muni smám saman fjara út. Hann gerir það sem rússneskir herir hafa alltaf gert og það er að senda mikinn fjölda illa útbúinna og illa þjálfaðra manna, sem gegna herskyldu, í fremstu víglínu í þeirri trú að fjöldinn muni tryggja sigur,“ sagði hann.