T-14 er oft nefndur Armata og hefur hann verið í þróun síðan 2010. Langt er síðan fyrstu nokkur hundruð skriðdrekarnir áttu að rúlla út úr Uralvagonzavod skriðdrekaverksmiðjunni í borginni Jekaterinburg. En þannig hefur það ekki farið. Jótlandspósturinn segir að líklega sé aðeins búið að framleiða nokkur eintök, frumgerðir.
Skriðdrekarnir hafa ekki verið notaðir á vígvelli, hvorki í Sýrlandi né Úkraínu og verða væntanlega ekki notaðir í Úkraínu. En ekki eru allir á einu máli um af hverju þeir verða væntanlega ekki notaðir í Úkraínu. Bent hefur verið á að hugsanlega séu skriðdrekarnir einfaldlega ekki tilbúnir eða þá að Rússar hafi komist að þeirri niðurstöðu að þeir séu of dýrir. Aðrir hafa sagt að yfirstjórn hersins vilji ekki nota svona fullkomið vopn, sem er aðeins til í litlu magni, af ótta við að það verði eyðilagt eða falli í hendur óvinarins.
Rússneski miðillinn Vojennoje Obozrenije benti að sögn Jótlandspóstsins á að stór vandamál hafi verið í framleiðslu rússneskra vopnaframleiðenda vegna skorts á íhlutum og það hafi stöðvað T-14 verkefnið. Staðan sé svo slæm að það sé fljótlegra að telja upp hvaða íhlutir eru til en hvaða hluti vantar.