En það er einnig önnur hindrun í veginum ef marka má það sem Volodymyr Zelenskyy, forseti Úkraínu, segir. Hann ávarpaði World Economic Forum í Davos í Sviss í gær í gegnum fjarfundabúnað. Þar var hann spurður um hvernig útlitið væri fyrir friðarviðræður. Hann sagði að hann viti ekki hvern hann eigi að ræða við í Rússlandi um frið því hann „sé ekki viss um“ að Pútín sé enn á lífi.
„Ég veit ekki alveg hvern ég á að tala við og um hvað. Ég er ekki viss um að rússneski forsetin, sem birtist stundum fyrir framan grænan skjá, sé í raun sá rétti,“ sagði Zelenskyy og gaf þannig í skyn að Rússar notist við tvífara Pútíns.
„Ég veit ekki hvort hann er á lífi og hvort það er hann sem tekur ákvarðanirnar eða hvaða hópur tekur ákvarðanirnar núna. Þær upplýsingar hef ég ekki,“ sagði hann.
En það er ekkert sem bendir til að Pútín sé ekki lengur á meðal vor. Margir orðrómar hafa verið á kreiki um það frá upphafi stríðsins en ekkert hefur komið fram sem sannar það og hann skýtur upp kollinum öðru hverju. Því hefur verið haldið fram að notast sé við tvífara hans og þá fleiri en einn en það hefur ekki verið staðfest.