En „Kokkur Pútíns“ er ekkert ljúfmenni miðað við það sem hefur komið fram í fjölmiðlum eftir að Rússar réðust inn í Úkraínu. Hann stýrir Wagner Group harðri hendi en málaliðar fyrirtækisins hafi látið að sér kveða víða um heim í gegnum árin. Hafa rússnesk stjórnvöld notað þá erlendis til að reyna að villa um fyrir fólki og geta hafnað því að þau eigi nokkurn hlut að máli. Hafa málaliðarnir verið sakaðir um mikla grimmd og mannréttindabrot þar sem þeir hafa látið að sér kveða. Það á einnig við í Úkraínu þar sem þeir berjast við hlið rússneska hersins.
Nú hefur enn ein sagan um grimmd Prigozhin ratað í fjölmiðla. The Telegraph segir að hann sé sagður hafa látið ganga svo hrottalega í skrokk á kokki á einum þeirra veitingastaða, sem hann á, að kokkurinn þurfti að liggja á sjúkrahúsi í tvo mánuði. Ástæðan fyrir ofbeldinu? Jú, hún var að sögn sú að viðskiptavinur veitingastaðarins kvartaði yfir gæðum tómata sem voru voru bornir á borð fyrir hann.
Fyrrum starfsmaður Concord Catering sagði Society tímaritinu að þegar gesturinn hafi sent matinn aftur í eldhúsið vegna óánægju með tómatana hafi „kokkurinn verið færður niður í kjallara og barinn svo hrottalega að hann þurfti að liggja á sjúkrahúsi í tvo mánuði“.
Ekki er vitað hvenær þetta á að hafa gerst.
Heimildarmaðurinn sagðist einnig hafa séð starfsfólk, sem var sakað um þjófnað, tekið og flutt út í skóg þar sem það var barið.