Réttarhöld eru hafin í Héraðsdómi Reykjavíkur í máli sem varðar stærsta kókaínsmygl Íslandssögunnar.
Þeir Páll Jónsson, Daði Björnsson, Jóhannes Páll Durr og Birgir Halldórsson eru ákærðir fyrir að hafa staðið að innflutningi á rétt tæplega 100 kílóum af kókaíni til landsins. Þetta eru þeir sagðir hafa gert í samstarfi við óþekktan aðila sem lagði háar fjárhæðir inn á reikninga þeirra.
Söluverðmæti efnanna hér á landi er talið nema um tveimur milljörðum króna.
Kókaínið átti að koma hingað til lands frá Brasilíu með viðkomu í Rotterdam í Hollandi. Efnin voru falin í trjátrumbum sem komið var fyrir í gámi. Efnin voru hins vegar haldlögð af hollenskum yfirvöldum sem komu fyrir gerviefnum í trjátdrumbunum. Það var því siglt með gerviefni hingað til lands síðasta sumar og gámurinn var tollafgreiddur hér á landi þann 2. ágúst. Trjádrumbarnir voru fjarlægðir úr gámnum og fluttir að Gjáhellu 13 í Hafnarfirði, þar sem hin ætluðu fíkniefni voru fjarlægð úr drumbunum. Þar var efnunum pakkað og hluti þeirra var fluttur með bíl til ótilgreinds aðila hér á landi. Lögregla lagði hald á þann hluta efnanna í bílnum í Mosfellsbæ.
Sporin inn í réttarsal eru þung fyrir mennina fjóra sem hafa ágæta stöðu í samfélaginu, sérstaklega Páll Jónsson, sem rekur timburinnflutningsfyrirtækið Hús og Harðviður en í ákæru segir að fyrirtækið hafi verið notað í peningaþvætti í tengslum við kókaínsmyglið. Mennirnir eru allir ákærðir fyrir peningaþvætti auk skipulagðrar brotastarfsemi og tilraun til stófellds fíkniefnabrot sem þeir eru sagðir hafa sammælst um að fremja í samvinnu við hinn óþekkta aðila.
Ljósmyndari Fréttablaðsins og DV tók meðfylgjandi myndir í aðdraganda aðalmeðferðar fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Þær sýna er sakborningar voru leiddir inn í dómsal.