„Við höfum beðið mikið tjón og þetta hefur verið hræðilegt. Við höfum þörf fyrir vestræna skriðdreka til að stöðva árásir Rússa. Með fótgönguliði okkar og stuðningi þessara skriðdreka sigrum við örugglega,“ sagði skriðdrekaforinginn Danylo í samtali við BBC.
Úkraínsku hermennirnir notast við úr sér gengna sovéska T-72 skriðdreka frá áttunda áratugnum og hafa brýna þörf fyrir nútímalegri og fullkomnari vestræna skriðdreka til að geta bundið á þá kyrrstöðu sem ríkir við víglínurnar.
„Leopard, Challenger eða Abraham, allir útlendir skriðdrekar myndu koma að gagni. Við þurfum minnst 300 skriðdreka og við höfum þörf fyrir þá núna,“ sagði Bogdan, liðsmaður skriðdrekadeildar Danylo.
Fréttamenn BBC heimsóttu 24. skriðdrekadeild úkraínska herinn við austurvígstöðvarnar í Donets og þar eru hermennirnir sammála um að Rússar hafi yfirhöndina eins og er vegna betri og nútímalegri skriðdreka.
„Rússnesku skriðdrekarnir eru betri en okkar því þeir eru nútímalegri. En árangur Rússa byggist einna helst á því að þeir sækja hart fram með miklum fjölda hermanna sem æða yfir látna félaga sína,“ sagði Bogdan.
Bretar hafa tilkynnt að þeir ætli að senda Challenger skriðdreka til Úkraínu og bæði Pólverjar og Finnar vilja senda þýska Leopard 2 skriðdreka þangað en verða að fá heimild þýskra stjórnvalda til þess þar sem skriðdrekarnir eru framleiddir í Þýskalandi.