Margir sérfræðingar telja það aðeins tímaspursmál hvenær Úkraínumenn fá þunga skriðdreka frá Vesturlöndum og telja að það geti skipt miklu varðandi gang stríðsins.
Áhuga Úkraínumanna á Leopard skriðdrekunum má rekja til að þeir þykja mjög traustir, eru með góða brynvörn og öflug vopn. Þá er auðvelt að sinna viðhaldi á þeim því svo margir evrópskir herir eru með slíka skriðdreka.
Sky News segir að bretar séu að íhuga að senda Úkraínumönnum Challenger 2 skriðdreka sem eru einnig nútímalegir, þungir skriðdrekar.
Andrezj Duda, forseti Póllands, heimsótti Volodymyr Zelenskyy, forseta Úkraínu, í borginni Lviv í gær. Þá sagði Duda að Pólverjar vilji senda Leopard skriðdreka til Úkraínu „innan ramma alþjóðabandalagsins“. Þetta þýðir í raun að þýsk stjórnvöld verða að gefa grænt ljós á að Úkraína fái Leopard skriðdreka.
Palle Ydstebø, yfirlautinant við norska varnarmálaskólann, sagði í samtali við Norska ríkisútvarpið, að það sé mjög mikilvægt fyrir Úkraínu að geta stofnað fleiri herdeildir sem eru með vestræna skriðdreka og önnur nútímavopn. „Þetta gæti orðið vendipunkturinn í getu Úkraínumanna til að sækja fram,“ sagði hann og benti á að þetta myndi styrkja slagkraft úkraínska hersins mikið og verði miklu meiri en það sem Rússar geta teflt fram.