fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Fréttir

Hlaut sex mánuði fyrir brot í nánu sambandi – Kom upp njósnaforriti í síma barnsmóður sinnar og sagði sambýlismann hennar barnaníðing

Ragna Gestsdóttir
Föstudaginn 29. september 2023 11:30

Mynd: Pexels

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Karlmaður hlaut nýlega sex mánaða skilorðsbundinn dóm fyrir brot í nánu sambandi á þriggja mánaða tímabili árið 2022 með því að hafa endurtekið og á alvarlegan hátt ógnað lífi, heilsu og velferð fyrrverandi maka síns og barnsmóður, með andlegu og líkamlegu ofbeldi, hótunum, húsbroti, broti gegn friðhelgi hennar og broti gegn nálgunarbanni.

Konan krafðist jafnframt 2.500.000 króna í skaða- og miskabætur. Ákærði játaði sök að hluta við þingfestingu málsins.

Bauð konunni að kaupa sig út með kynlífi

Brotaþoli kvað ákærða vera búinn að beita sig andlegu ofbeldi og hann hafi tvisvar áður lagt hendur á hana en þá hafi hún ekki hringt á lögregluna. Brotaþoli kvað ákærða eiga helminginn í íbúðinni, sem hún bjó áfram í ásamt þremur börnum þeirra eftir skilnað hennar og ákærða, og hann væri að ryðjast inn á heimilið og reyna að stjórna. Fyrir dómi viðurkenndi ákærði meðal annars húsbrotið en hann sagðist hafa gert samkomulag við brotaþola um að hún fengi að búa í íbúðinni meðan hún væri ekki með öðrum karlmönnum þar.

Sagði brotaþoli ákærða  hafa boðist til að kaupa hana út fyrir átta milljónir króna eða að brotaþoli borgaði sjö milljónir króna og ákærði fengi að sofa hjá henni af og til. Brotaþoli kvað ákærða með þessu vera að misnota aðstæður hennar þar sem hún væri þunglynd, einstæð þriggja barna móðir á atvinnuleysisbótum. 

Í málinu lá fyrir fyrir útprentun af samskiptum ákærða og brotaþola á Instagram þann 27. maí 2022. Þar segir brotaþoli meðal annars: „Vinsamlegast láttu mig í friði. Ég er búin að biðja þig um það nokkrum sinnum og ég vil ekki þurfa að biðja aftur eða kalla til lögguna“. Ákærði sendi þá eftirgreind skilaboð: „Ef þú villt ekki skemmdan cylinder skildu þá lyklana eftir“, „Og sendir mér bara skilaboð þegar þið eruð farin“, „7 miljónir 3 lokdrætti og éh smá þegar þú selur deal?“ Brotaþoli sendi ákærða þá skilaboð varðandi sölu íbúðarinnar sem ákærði svaraði með: „Ég vill 3 lokadrætti og eina Helgi í íbúðinni“. Brotaþoli svaraði því með: „Þú getur ekki fengið allt. Ég er ekki til sölu og ég hef ekki áhuga á að stunda kynlíf með þér aftur eða gera þér kynlífsgreiða.“

Sagði áreitið aðallega rafrænt

Brotaþoli kvað ákærða ekki láta sig í friði, áreita sig og senda sér skilaboð en ákærði væri í stöðugri neyslu. Áreitið felist aðallega í rafrænu áreiti og að ákærði vilji alltaf vita hvar hún hafi verið og hvað hún hafi verið að gera. Brotaþoli kvaðst ekki hafa leitað til læknis vegna framkomu ákærða en hún þjáist af þungly ndi og kvíða vegna andlegs ofbeldis hans.

Við skýrslutöku hjá lögreglu viðurkenndi ákærði að hafa þráhyggju gagnvart brotaþola og vera ósáttur við að missa hana.

Kom njósnabúnaði fyrir í síma konunnar

Í dómnum kemur fram að karlmaðurinn kom hugbúnaði fyrir í farsíma konunnar, „KidsGuard“, sem gerði honum kleift að fylgjast náið um þriggja mánaða tímabil með allri farsímanotkun konunnar, þar á meðal samskiptum hennar og einkasamtölum við þriðju aðila á samskipta- og samfélagsmiðlum, en lögregla fjarlægði hugbúnaðinn að ósk konunnar í ágúst 2022. Á umræddu tímabili höfðu 5036 skjáskot af síma konunnar orðið til í gegnum umræddan hugbúnað.

Glímdi við mikla vanlíðan og sagðist ekki treysta neinum

Brotaþoli bar fyrir dómi að sér hafi liðið illa árið 2022, hún hafi sofið lítið og verið hrædd, ekki liðið vel heima hjá sér og sífellt hugsað um börnin sín. Ákærði hafi einnig hótað fjölskyldu sinni. Ákærði hafi neytt fíkniefna og ekki haft hug á að hætta því og hafa hótað fólki úti í bæ sem brotaþoli hafi talað við. Brotaþoli kvaðst aldrei eiga eftir að jafna sig og aldrei geta treyst neinum. Nágrannar sendi henni skilaboð þegar ákærði sjáist í nágrenni við íbúðina og af því að hún hafi getað keypt íbúðina hafi hún orðið að gera það þó hún vildi helst vera annars staðar. Brotaþoli kvaðst hafa gengið til sálfræðings og leitað til Bjarkahlíðar en ekki hafa byrjað að vinna í öllu. Þetta ástand hafi ekki verið bara þetta eina ár heldur hafi allt sambandið verið litað atvikum sem hafi átt að fara lengra en þetta hafi fyllt mælinn. Brotaþoli kvað aðspurð þá aðstoð sem hún hafi leitað sér vera eingöngu vegna sambandsins við ákærða, hegðunar hans og stanslausrar neyslu sem hafi varað allt sambandið. 

Ofbeldið talið sannað yfir þriggja mánaða tímabil

Dómari taldi ákærða sekan um andlegt og fjárhagslegt ofbeldi gagnvart brotaþola og taldi dómari framburð brotaþola um að slíkt ofbeldi hafi átt sér stað um langt skeið og lengur en frá 1. janúar 2022 vera trúverðugan. Þar sem ekkert lá fyrir í gögnum málsins um brot fyrir miðjan maí 2022 var ákærði aðeins dæmdur fyrir brot á þriggja mánaða tímabili, maí til ágúst 2022.

Á þeim tíma var um endurtekin brot að ræða gegn brotaþola þar sem, eins og segir í dómnum, ákærði endurtekið með ofbeldi, hótunum og broti á friðhelgi einkalífs brotaþola ógnaði heilsu hennar og velferð, eins og lýst er í ákæru, en brotaþoli er barnsmóðir og fyrrverandi sambúðaraðili ákærða. Var brotavilji ákærða einbeittur eins og sést af grófu broti hans gegn friðhelgi brotaþola í þrjá mánuði og síðan broti gegn nálgunarbanni.

Karlmaðurinn var þannig dæmdur í sex mánaða skilorðsbundið fangelsi, til að greiða konunni 600.000 krónur í miskabætur og allan kostnað vegna málsins, 1.064.963 krónur.

Taldi nýjan sambýlismann konunnar vera barnaníðing

Karlmaðurinn var jafnframt ákærður fyrir að hafa tvisvar hótað nýjum sambýlismanni konunnar lífláti. Við skýrslutöku hjá lögreglu hafði maðurinn eftirfarandi ummæli um sambýlismanninn: „Ef ég sé hann þá drep ég hann. Bara svo það sé alveg á hreinu, ef hann deyr.“ Nokkrum klukkustundum síðar hringdi maðurinn á neyðarlínuna og óskaði eftir að lögregla vísaði sambýlismanninum af heimili hans og konunnar, annars myndi maðurinn fara sjálfur þangað og drepa sambýlismanninn. 

Ákærði bar því við að brotaþoli væri í samskiptum við mann sem væri kynferðislega brenglaður. Síðan hafi komið í ljós að hann væri að óska eftir kynferðislegum myndböndum af börnum ákærða og því hafi ákærði  hringt í lögregluna og játað að hafa sett framangreint njósnaforrit í síma konunnar.

Ákærði sagði að sambýlismaðurinn væri barnaníðingur og hann vildi frekar fara í fangelsi fyrir morð en að láta börnin sín vera nálægt honum. Ákærði kvaðst vita að maðurinn væri með barnagirnd og hafa verið sturlaður að vita af þessum manni nálægt börnunum. Ákærði sagðist hafa hitt sambýlismanninn  í fyrsta skipti vegna sakamáls þar sem sambýlismaðurinn var ákærður fyrir tilraun til misnotkunar á börnum ákærða.

Í málinu lá fyrir að ákærði hafði séð samskipti milli brotaþola og sambýlismannsins um börnin, sem leiddu til ákæru á hendur sambýlismanninum vegna tilraunar til kynferðisbrots, sem hann var sýknaður af meðal annars vegna þess að rannsókn málsins var ábótavant.  Dómari taldi ákærða hafa haft fulla ástæðu til að hafa áhyggjur af börnum sínum og gera það sem í hans valdi stóð til að koma börnum sínum í skjól. Taldi dómarinn ekki hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi ætlað að fylgja hótununum gegn sambýlismanninum eftir og sýknaði hann því af líflátshótunum gegn sambýlismanninum.

Lesa má dóminn í heild sinni hér.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

Erna segir skilið við Miðflokkinn en hafði sóst eftir oddvitasæti – „Miðflokkurinn gekk úr mér“

Erna segir skilið við Miðflokkinn en hafði sóst eftir oddvitasæti – „Miðflokkurinn gekk úr mér“
Fréttir
Fyrir 15 klukkutímum

Össur tætir Pírata í sig: „Málefnalega skipta þau ekki lengur máli“

Össur tætir Pírata í sig: „Málefnalega skipta þau ekki lengur máli“
Fréttir
Í gær

Alexandra lætur Sigmund Davíð fá það óþvegið: „Er maðurinn fimm ára?“

Alexandra lætur Sigmund Davíð fá það óþvegið: „Er maðurinn fimm ára?“
Fréttir
Í gær

Sigurður Ingi skýtur hugmynd Miðflokksins í kaf: „Já, þetta er vitlaus hugmynd“

Sigurður Ingi skýtur hugmynd Miðflokksins í kaf: „Já, þetta er vitlaus hugmynd“