fbpx
Sunnudagur 19.janúar 2025
Fréttir

Alexander Máni játar að hafa stungið tvo af þremur – „Ég var hrædd­ur við að deyja“

Ragna Gestsdóttir
Fimmtudaginn 28. september 2023 17:10

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Alexander Máni Björnsson, tvítugur karlmaður, játaði fyrir dómi að hafa stungið tvo karlmenn á skemmtistaðnum Bankastræti Club 17. nóvember 2022, en ekki ætlað að ráða þeim bana. Vísir greinir frá. 

Sjá einnig: Söguleg réttarhöld hafin í Bankastræti Club málinu – Fjölmiðlabann fram á fimmtudag

Alexander Máni er einn sakborninga í Bankastræti Club málinu, og er hann ákærður fyrir þrjár tilraunir til manndráps. Í skýrslu hans fyrir dómi á mánudag sagðist hann ekki hafa gert sér grein fyrir því að hann væri að játa þrjár hnífstungur við þingfestingu málsins.

Málflutningur í málinu hefur farið fram alla vikuna í Gullhömrum í Grafarvogi eins og miðlar hafa greint frá, en dómari í málinu setti fjölmiðlabann á fréttaflutning vegna málsins þar til skýrslutökum sakborninga væri lokið. Þeim lauk í dag og er fjölmiðlabanni þannig aflétt. Fjórum dögum af sjö er lokið af aðalmeðferð málsins.

Málið er gríðarlega umfangsmikið vegna fjölda sakborninga, verjenda, réttargæslumanna og vitna. Alexander Máni er eins og áður sagði einn af 25 sakborningum í málinu og jafnframt sá sem sætir þyngstu ákærunni. Hann er ákærður fyrir þrjár tilraunir til manndráps, tíu sakborningar eru ákærðir fyrir sérlega hættulegar líkamsárásir og fjórtán sakborningar fyrir hlutdeild þeirra í brotunum.

Ákærður fyrir þrjár tilraunir til manndráps

Í ákæru er Alexander Máni ákærður fyrir að hafa veist að þremur mönnum vopnaður hnífi í kjallara skemmtistaðarins Bankastræti Club í Bankastræti fimmtudagskvöldið 17. nóvember  2022, eða eins og segir í ákæru: 

„veist að þeim öllum með hnífi, og stungið A tvisvar sinnum í hægri axlarvöðva, tvisvar sinnum í hægri brjóstkassa, tvisvar sinnum í hægra læri og einu sinni í hægri framhandlegg, stungið B einu sinni í vinstri síðu, og stungið C einu sinni í hægri framhandlegg og einu sinni í hægra læri.“

Af árásinni hlutust eftirfarandi afleiðingar eins og segir í ákæru: 

  1. A hlaut tvö sár yfir hægri axlarvöðva, tvö stungusár á hægri brjóstkassa, tvö djúp sár á hægra aftanverðu læri, eitt sár á hægri framhandlegg, áverkablóðloftbrjóst, áverkaloftbrjóst, rifbeinsbrot og mar á nefi.
  2. B hlaut sár aftanvert vinstra megin milli rifs 10 og 11, um 15 mm langa rifu neðst í milta og lítilsháttar staðbundna blæðingu þar í kring, áverka á vísifingur vinstri handar, þar sem húðflipi lá laus frá hnúa út fingur, mar á enni og skrámur í andliti.
  3. C hlaut 4-5 sm skurð á framhandlegg með áverka á sinum tveggja réttivöðva, djúpan skurð á hægra læri með stöðugri slagæðablæðingu, þrjá skurði í andliti og sár og mar vinstra megin á höfði.

Fórnarlömbin dvöldu á spítala í 4-5 daga eftir árásina, en tveir þeirra, Lúkas Geir Ingvarsson og John Sebastian, lýstu árásinni tveimur dögum eftir að hún var framin í viðtali við útvarpsmanninn Gústa B. á FM957. 

Við skýrslutöku hjá lögreglu játaði Alexander Máni að hafa stungið alla þrjá mennina, við þingfestingu málsins breytti hann framburði sínum og sagðist hafa stungið John Sebastian og þriðja manninn, sem ekki hefur verið nafngreindur opinberlega. Sagði hann fyrir dómi að myndavélar á skemmtistaðnum sýndu að hann gæti ekki hafa stungið Lúkas Geir. 

„Ég get ekki verið á tveimur stöðum í einu.“ 

Upptaka af árásinni var birt í fjölmiðlum eftir að starfsmaður Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu lak henni áfram, var honum vikið úr starfi vegna málsins. 

Við vörum við efni myndbandanna þar sem um alvarlega árás var að ræða.

Sjá einnig: Myndband af árásinni á Bankastræti Club vekur óhug

Stóð einungis til að hræða mennina sem fæstir þekktu

Flestir sakborninga bera fyrir dómi að þeir hafi einungis ætlað að hræða árásarþolana þrjá. Enginn kannast við að hafa borið vopn, nema Alexander Máni sem eins og áður sagði hefur játað að hafa stungið tvö fórnarlömd af þremur.

Mbl.is greinir frá því að hinir ákærðu hafi ekki þekkt alla innan hópsins sem sameinaðist í árásinni. Einnig að flestir hinna ákærðu hafi greint frá því að þeir þekki ekki fórnarlömbin. Einhverjir segj­ast hafa átt í ára­löng­um deil­um við „latínógengið„ eins og þeir kalla það, klíku sem þeir segja þekkta fyrir að bera hnífa, hafa beitt ofbeldi og hótað fjöl­skyldumeðlim­um nokk­urra sak­born­inga.

Fórnarlömbin þrjú báru einnig vitni í dag, segjast þeir aðeins hafa verið að skemmta sér þetta kvöld og kannast ekki við að vera meðlimir ofangreinds „latínógengis.“

„Ég var hrædd­ur við að deyja,“ sagði einn þeirra aðspurður um líðan hans eftir árásina.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Jón Þór svarar ákæru um manndrápstilraun og fleiri brot

Jón Þór svarar ákæru um manndrápstilraun og fleiri brot
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Vörubílstjóri þóttist vera annar maður – Var líka fullur og próflaus

Vörubílstjóri þóttist vera annar maður – Var líka fullur og próflaus
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Greindist með brjóstakrabbamein eftir fyrirbyggjandi brjóstnám og fær engar bætur

Greindist með brjóstakrabbamein eftir fyrirbyggjandi brjóstnám og fær engar bætur
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Ragnheiður skoðaði íbúð á föstudegi en á mánudegi var búið að selja hana – „Og hverjum haldið þið?“

Ragnheiður skoðaði íbúð á föstudegi en á mánudegi var búið að selja hana – „Og hverjum haldið þið?“