Lögreglan í Baltimore-borg í Bandaríkjunum leitar nú hættulegs manns, Jason Dean Billingsley, sem grunaður er um að hafa myrt tæknifrumkvöðulinn Pövu LaPere síðastliðinn mánudag. Málið hefur vakið mikla athygli í Bandaríkjunum og stendur umfangsmikil leit lögreglu yfir að hinum meinta morðingja.
LaPere var aðeins 26 ára gömul en hún var annar af stofnendum tæknifyrirtækisins EcoMap Technologies og starfaði sem forstjóri þess. Fyrirtækið stofnaði hún í háskóla ásamt viðskiptafélaga sínum en það er hluti af gervigreindarbyltingunni sem nú stendur yfir. Smíðar fyrirtækið ýmis tól, til að mynda sjallmenni fyrir vefsíður fyrirtækja, sem að nota gervigreind til að finna til upplýsingar.
LaPere var farin að vekja mikla athygli í tæknigeiranum og var meðal annars nýlega á lista Forbes yfir unga frumkvöðla sem vert væri að fylgjast með í framtíðinni.
Á mánudag var tilkynnt um að LaPere væri saknað en nokkrum klukkustundum síðar var lögreglan var kölluð til vegna alvarlegrar líkamsárásar í íbúð í miðborg Baltimore. Þegar viðbragðsaðilar komu á vettvang lá LaPere í blóði sínu með með alvarlega höfuðáverka sem drógu hana til dauða. Ekki er talið að LaPere og sá sem grunaður er um árásina hafi þekkst.
Billingsley, sem er 32 ára gamall, er með fjölmarga dóma á bakinu, aðallega fyrir líkamsárásir, en þyngsta dóminn fékk hann árið 2015 fyrir nauðgun, þrjátíu ára dóm. Hann hafði aðeins afplánað lítinn hluta þess dóms en var þó sleppt úr haldi í fyrra. Hefur lögreglan í Baltimore greint frá því að hann sé talinn „afar hættulegur“ og hefur fjölmennt lið lögreglu verið kallað út til að hafa hendur í hári hans.
“Þessi einstaklingur mun drepa og hann mun nauðga,” sagði Richard Worley, lögreglustjóri Baltimoreborgar, á blaðamannafundi vegna málsins í dag. „Hann mun gera allt til að valda skaða,“ sagði lögreglustjórinn ennfremur.