Konan sem situr í gæsluvarðhaldi vegna láts manns á sextugsaldri síðastliðið laugardagskvöld er fædd árið 1981. Hún hefur í það minnsta fjóra refsidóma á bakinu, er sá elsti frá árinu 2006 og sá nýjasti frá árinu 2021. Allir dómarnir varða fíkniefnabrot.
Samkvæmt óstaðfestum heimildum DV er talið ólíklegt að konan hafi orðið manninum að bana og meiri líkur eru taldar á því að andlátið hafi borið að með ósaknæmum hætti. Þó voru einhverjir áverkar á manninum og á krufning að leiða í ljós hvort þeir tengist láti hans. Athygli vekur hins vegar að konan er úrskurðuð í gæsluvarðhald í stuttan tíma eða til 27. september.
Bæði konan og maðurinn hafa strítt við fíkn. Konan var borin út af heimili sínu fyrir nokkrum misserum í kjölfar nágrannadeilna. Hefur hún nokkuð fjallað um það á samfélagsmiðlum og talið sig hafa verið beitta órétti.
Maðurinn fannst látinn í íbúð í fjölbýlishúsi í austurborginni. Konan var handtekin á vettvangi. Tilkynning um málið barst lögreglu á laugardagskvöld og hélt hún þegar á staðinn og hóf þar endurlífgunartilraunir á manninum. Hann var í framhaldinu fluttur á Landspítalann, en var úrskurðaður þar látinn.