fbpx
Mánudagur 20.janúar 2025
Fréttir

Nífaldi brotamaðurinn Daniel dæmdur – Dómari taldi hann þurfa meðferð en viðeigandi stofnun ekki til á Íslandi

Jakob Snævar Ólafsson
Föstudaginn 22. september 2023 16:00

Héraðsdómur Reykjavíkur. Mynd: DV

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þann 11. september síðastliðinn var kveðinn upp dómur í Héraðsdómi Reykjavíkur yfir Daniel Vareika. Vareika var alls ákærður fyrir níu brot, meðal annars líkamsárásir, hótanir og þjófnaði. Dómarinn í málinu virðist telja hann fremur eiga heima í langtíma vímuefnameðferð en fangelsi. Hins vegar er viðeigandi meðferðarstofnun sögð ekki vera til staðar hér á landi.

Daniel Vareika var ákærður fyrir eftirfarandi brot:

Fyrir líkamsárás og blygðunarsemisbrot með því að hafa í apríl 2021 veist með ofbeldi að konu og slegið hana nokkrum hnefahöggum í
vinstri öxl og stuttu síðar berað kynfæri sín í viðurvist hennar og annarrar ónefndrar manneskju og þannig sýnt af sér lostugt athæfi sem hafi verið til þess fallið að særa blygðunarsemi þeirra.

Fyrir líkamsárás með því að hafa í  apríl 2021 í verslun Krónunnar veist með ofbeldi að konu og slegið hana hnefahöggi í vinstri upphandlegg hennar, með þeim afleiðingum að hún bólgnaði á upphandlegg vinstra megin.

Fyrir hótanir með því að hafa í júní 2021 í ónefndu húsnæði hótað tveimur manneskjum líkamsmeiðingum og lífláti, en ummælin voru sögð til þess fallin að vekja hjá þeim ótta um líf, heilbrigði og velferð þeirra.

Fyrir þjófnað með því að hafa í september 2021, fyrir utan verslun Bónus, stolið rafmagnshlaupahjóli að verðmæti kr. 32.995.

Fyrir líkamsárás með því að hafa í júní 2021, á ónefndum gatnamótum, veist með ofbeldi að konu og tekið hana hálstaki, með þeim afleiðingum að hún missti andann í stutta stund.

Fyrir fíkniefnalagabrot með því að hafa í desember 2021, haft í vörslum sínum 0,87 g af amfetamíni, sem lögregla fann við öryggisleit á honum.

Fyrir nytjastuld með því að hafa í janúar 2022 heimildarlaust tekið bifreið og ekið henni að ótilgreindum stað, þar sem hún fannst síðar sama dag.

Fyrir þjófnað með því að hafa í janúar 2022, í verslun Bónus, stolið matvöru að óþekktu verðmæti.

Fyrir líkamsárás með því að hafa, í apríl 2022, í versluninni Corner Market, veist með ofbeldi að konu og slegið hana þremur hnefahöggum vinstra megin í höfuð og síðan hrint henni, með þeim afleiðingum að hún datt aftur fyrir sig og lenti á borðkanti.

Þar að auki gerði konan í fyrstnefnda ákæruatriðinu miskabótakröfu á hendur Vareika að fjárhæð 700.000 krónur auk vaxta.

Játaði – Á langan sakaferil að baki

Í dómnum segir að Daniel Vareika hafi játað brot sín skýlaust.

Ekki er tekið fram í hvaða landi hann er fæddur en hann á að baki sakaferil sem nær aftur til ársins 2012. Það sem kom til skoðunar við ákvörðun refsingar í málinu er dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá 3. febrúar 2021 þar sem Vareika var gert að sæta fangelsi í 30 daga, skilorðsbundið til tveggja ára, fyrir líkamsárás. Þá var honum með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá 2. júní 2021 gert að sæta fangelsi í 60 daga, skilorðsbundið til tveggja ára, fyrir brot gegn valdstjórninni. Refsing þess dóms var tekin upp með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá 16. febrúar 2022 og var Vareika þá dæmdur í fjögurra mánaða fangelsi, enn fyrir brot gegn valdstjórninni.

Þar sem hann framdi þrjú af brotunum níu, sem hann var dæmdur fyrir í þetta sinn, fyrir uppkvaðningu eldri dómanna var það metið honum til refsiauka, Einnig var það metið Vareika til refsiauka að hann hafi framið ítrekuð ofbeldisbrot sem voru með öllu tilefnislaus.

Í dómnum segir um aðstæður Daniel Vareika:

„Brot ákærða, sem hefur verið á vergangi, eru öll neyslutengd. Hann hefur nú um langt skeið verið í virkri neyslu sem að því er virðist framkallar ákveðin geðræn einkenni. Það er mat dómsins að hann sé í mikilli þörf fyrir vímuefnameðferð“.

Í dómnum er vísað til ákvæða 65. greinar almennra hegningarlaga þar sem gert ráð fyrir að dómari geti við tilteknar aðstæður dæmt sakborning sem framið hefur brot undir áhrifum áfengis til dvalar á meðferðarstofnun (hæli) til lækningar í allt að 18 mánuði eða, ef ítrekun á sér stað, allt að þremur árum. Ætla megi að þessu ákvæði verði beitt á sakborninga sem glíma við vímuefnafíkn. Úrræðið sé hins vegar ekki nothæft þar sem fyrir liggi að viðeigandi stofnun sé ekki að finna hér á landi og hefur ekki verið að finna allt frá lögfestingu ákvæðisins árið 1961.

Þar af leiðandi var Daniel Vareika dæmdur í átta mánaða fangelsi, sem þótti hæfilegt í ljósi sakaferils og sakarefna, og til að greiða konunni sem fór fram á miskabætur 400.000 krónur auk vaxta.

Dóminn má nálgast hér.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 14 klukkutímum

Samfylkingin fær á baukinn: Segir að kjósendur séu hafðir að fíflum

Samfylkingin fær á baukinn: Segir að kjósendur séu hafðir að fíflum
Fréttir
Fyrir 15 klukkutímum

Verður Áslaug Arna næsti formaður Sjálfstæðisflokksins?

Verður Áslaug Arna næsti formaður Sjálfstæðisflokksins?
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Móðir keypti pennaveski fyrir dætur sínar á Shein – Dauðbrá þegar hún sá hvað var í því

Móðir keypti pennaveski fyrir dætur sínar á Shein – Dauðbrá þegar hún sá hvað var í því
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Tálbeituhópurinn: Maður á Akranesi þungt haldinn eftir misþyrmingar með járnkylfum og hnífi

Tálbeituhópurinn: Maður á Akranesi þungt haldinn eftir misþyrmingar með járnkylfum og hnífi