Fjölmiðlamaðurinn Egill Helgason segir hugmyndina að flytja Hæstarétt yfir í Safnahúsið á Hverfisgötu fráleita. Lítið líf sé í kringum dómshús.
„Það er rætt um að færa dómstóla landsins milli húsa. Ein hugmyndin er að flytja Hæstarétt yfir í Safnahúsið við Hverfisgötu. Þetta er í stuttu máli sagt alveg gaggalagú,“ segir Egill í færslu á Facebook.
Bendir hann á að við Hæstarétt sitji sjö dómarar. Þeir hafi ekki mikið að gera eftir að Landsréttur varð að millidómsstigi milli héraðsdómstóla og Hæstarétts.
„Þess vegna er hið glæsilega hús sem var sérstaklega byggt fyrir Hæstarétt orðið of stórt fyrir réttinn og dómssalurinn vannýttur- eða svo er sagt,“ segir Egill.
Við hliðina á stendur Safnahúsið sem byggt var á fyrsta áratug síðustu aldar og tekið í notkun árið 1909. Það sé talsvert stærra hús en Hæstaréttarhúsið og er friðað bæði að utan og innan, „ein glæsilegasta bygging á Íslandi.“
Um tíma voru þar fjögur söfn en nú hefur hluti Listasafns Íslands þar aðsetur. Þar eru einnig haldnir tónleikar og fundir.
„Þetta er hús fyrir almenning að njóta, upplifa, tengjast því besta sem hefur verið gert í okkar byggingarsögu,“ segir Egill. „Þetta er sannkallað menningarhús.“
Þá sé Hverfisgatan að verða ein flottasta og skemmtilegasta gata Reykjavíkur að mati Egils. Telur að að gatan eigi einungis eftir að batna. „Lundinn tók yfir Laugaveg en Hverfisgatan er menningarleg,“ segir hann.
En í kringum dómshús sé lítið líf, „and-líf“ eins og Egill orðar það. Fæstir vilji láta sjá sig fara þar inn, ljós séu slökkt snemma og lokað er um helgar.
„Vilji menn tryggja að sama og ekkert lífsmark verði merkjanlegt í hinu stórkostlega Safnahúsi, setja þeir dómstól þangað inn – hina örfáu og fremur verkefnalitlu hæstaréttardómara. Nei, þetta er arfavond hugmynd. Þetta er bygging fyrir fólk og menningu en ekki lagabálka,“ segir hann.
Rithöfundurinn og blaðamaðurinn Illugi Jökulsson eru á meðal þeirra sem taka undir með Agli. Illugi bendir á að mikil mistök hafi verið gerð þegar Héraðsdómur Reykjavíkur var fluttur á Lækjartorg. Það hafi sogað allt líf og birtu úr torginu og gert það að dapurlegu svartholi.
„Þessi ömurleg hugmynd er bersýnilega runnin frá þeirri snobbhugsun að hinir ofurfínu dómarar þurfi voða fínt hús undir sig,“ segir Illugi.