Þetta kemur fram í umfjöllun Morgunblaðsins í dag. „Þetta er alveg skýrt, við sjáum þetta merki mjög vel núna,“ er haft eftir Benedikt Gunnari Ófeigssyni, sérfræðingi í jarðskorpuhreyfingum hjá Veðurstofunni, um landrisið.
Hann sagði að GPS-stöðin á Festarfjalli hafi færst um rúmlega sentimetra til suðurs frá goslokum í ágúst og sömu sögu er að segja í Krýsuvík, þar rís land einnig. „Þetta er bara tímaspursmál,“ sagði hann.
Hann sagði að kvikan sé á sextán kílómetra dýpi og telur líklegt að þetta endi með gosi á næsta ári en engin leið sé að vita hvenær ekki verður lengur pláss fyrir kvikuna og eitthvað annað fari að gerast.
Tveir til þrír mánuðir liðu síðast frá því að landris tók að mælast þar til gos hófst. Nú byrjaði land að rísa strax eftir gos, fyrir miðjan ágúst. Út frá þeim mælikvarða má hugsa sér að gosið geti í nóvember en Benedikt sagðist ekki viss um að málið sé svo einfalt. „Tíminn er bara mjög óviss. Og annað gos ekki heldur sjálfgefið. En við þurfum að vera búin undir næsta gos fljótlega, miðað við þróunina fyrir síðasta gos,“ sagði hann.