fbpx
Þriðjudagur 21.janúar 2025
Fréttir

Segir kynlíf og kynferðislegar tilvísanir allt í kring – „Ekki koma börnum í þá stöðu að þau brenni af skömm“

Ragna Gestsdóttir
Miðvikudaginn 20. september 2023 15:30

Birgir Örn Guðjónsson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ég held að öll okkar sem erum með ágætis meðvitund vitum að kynlíf og kynferðislegar tilvísanir eru allt í kringum okkur. Það er í öllum fjölmiðlum, sjónvarpsþáttum, kvikmyndum, YouTube, samfélagsmiðlum, fréttamiðlum, tónlist og já líka í teiknimyndum og allskonar barnaefni. Mis mikið og mis gróft að sjálfsögðu, en það er úti um allt í allskonar formi. Margt af þessu efni er að sjálfsögðu á engan hátt við hæfi þessa barna en líkurnar á að það verði á vegi þeirra eru yfirgnæfandi og auknar með hverjum degi. Því miður,“ segir Birgir Örn Guðjónsson, Biggi lögga, í færslu sinni á Facebook.

„Kynlíf og kyntjáning er líka inni á heimilunum. Vonandi. Vonandi hafa flest börn í kringum sig einhverja fullorðna sem sýna hvort öðru ást með kossum og snertingu og heyra jafnvel í þeim inni í herbergi einstaka sinnum. Slíkt er eðlilegt og heilbrigt á allan hátt. En einmitt út af því að við lifum í svona misvísandi samfélagi þarf að fræða börnin okkar. Nei ekki að gera þau að kynverum langt fyrir aldur fram, heldur fræða þau. Skref fyrir skref. Og trúið mér, þessi skref eru orðin miklu styttri og hraðari en þau voru þegar við flestir foreldrarnir vorum á þeirra aldri.“

Segir Biggi það bæði eðlilegt, gott og heilbrigt að foreldrum sé umhugað um velferð barna sinna og það virðast sérstaklega margir vera það þessa dagana. 

„Börnin okkar eru jú það dýrmætasta sem við eigum. Okkur er samt mjög tamt að líkja okkar bernsku við bernskuna þeirra. Eðlilega. Það er eina persónulega reynslan sem við getum haft. Síðan leggjum við okkar hugsjónir, skoðanir og reynslu í púkk og reynum okkar besta sem foreldrar. Það getur samt verið drullu strembið. Sérstaklega þegar við sem erum foreldrar í dag höfum frá bernsku upplifað eina stærstu og hröðustu byltingu mannkynssögunnar með tilkomu tölvu og netheima,“ segir Biggi. 

Eðlilegt að foreldrar vilji vernda börn sín

Hann segir það líka fullkomlega eðlilegt að við viljum vernda börnin okkar frá því að eldast of hratt og verða fyrir áföllum, en samt erum við eitthvað svo týnd í þeirri vegferð. „Við erum smá eins og markmaður í stígvélum með bundið fyrir augun sem vonar að hann verji einhver skot með því að hoppa nógu mikið. Ekki endilega líklegt til árangurs.“

Biggi segir að eitt það versta sem foreldrar geti kennt börnunum sínum er að það sem viðkemur ást, snertingu og kynferðislegum hugsunum sé eitthvað slæmt eða óhreint. 

„Það kemur því ekkert við þegar einhver gengur yfir þeirra mörk. Slíkt er alvarlegt og algjörlega óviðunandi, enda er það gífurlega mikilvægur partur af slíkri fræðslu. Spáum til dæmis aðeins í það af hverju kynferðislegt ofbeldi hafi viðgengist svona lengi innan hinna ýmsu kirkjudeilda. Stór ástæða þess er einmitt skömmin og hræðslan. Óttinn við að koma fram með slíkt ofbeldi og afneitun foreldra um að þann veruleika. Þessi endalausu lífshættulegu leyndarmál og ótti við höfnun,“ segir Biggi og bætir við:

„Við vildum örugglega stundum óska þess að við lifðum bara í heimi þar sem við gætum sett börnin okkar í einhverskonar verndarhjúp sem verndaði þau frá öllu svona fram til tvítugs. En það eru að sjálfsögðu draumórar. Veröldin sem þau lifa í er með endalausu áreiti og allskonar áskorunum. Það er hellings vinna að elta skottið á þessu áreiti og hröðu þróun og því miður höfum við yfirleitt verið skrefinu á eftir og reynt að kynna okkur hlutina of seint og leiðbeina börnunum okkar hvað þau hefðu átt að gera.“

Getum ekki breytt samfélaginu

Biggi rekur að hann hafi í gegnum tíðina hitt svo ótrúlega marga foreldra og börn í alls konar stöðu og haldið fyrirlestra um alls konar mál og segir hann rauða þráðinn í gegnum flesta þá vinnu vera að við erum nánast alltaf að elta einhverjar samfélagslegu breytingar. 

„Við erum að bregðast við í stað þess að beita forvörn. Með þessari fræðslu sem um er rætt þessa dagana er einungis verið að reyna að halda dampi. Það er erfiður sannleikur fyrir suma en sannleikur engu að síður. Það hjálpar engum að standa núna upp og öskra stopp hingað og ekki lengra. Það hjálpar miklu frekar að horfa á stöðuna með raunsæjum augum og fræða um virðingu, mörk og margþætt samfélag. Kenna að sama hvað þá þurfa börn ekki að grafa sig í holu vegna þess að þeim finnst þau óhrein eða slæm.

Við getum svo líklega rökrætt út í eitt hvað börn eiga að vera nákvæmlega gömul þegar þau fá fræðslu um einhver tiltekin atriði. Sama hvaða afstöðu fólk hefur tekið þá verður það að átta sig á að þessi fræðsla er að sjálfsögðu ekki af einhverri illsku eða annarlegum hvötum til að gera börn að kynverum, eins og sumir virðast halda. Þessi fræðsla er af nauðsyn vegna þess nútímasamfélags sem við búum í. Og því miður fyrir suma, þá er ekki hægt að bakka samfélögum.“

Biggi sem er lögregluvarðstjori hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu auk þess að vera með BA í nútímafræði frá Háskólanum á Akureyri segist ótrúlega þakklátur fyrir það að menntakerfið sé tilbúið að fræða börnin okkar um þessi mikilvægu mál.

„Skref fyrir skref að sjálfsögðu. Bara eins og með stærðfræði (sem mér finnst persónulega skipta mun minna máli). Ég sé enga stökkva upp brjálaðir út í stærðfræðikennslu vegna þess að sjö ára börn ráða ekki við algebru.

Ég vænti þess að þeir sem eru hræddastir þessa dagana taki þessa umræðu við sín börn. Þeir hljóta allavega að telja sig besta til þess fallnir. Vel gert. En mætti ég þá biðja um eitt. Plís ekki koma börnum í þá stöðu að þau brenni af skömm þegar þau hafa til dæmis fróað sér, eru skotin í aðila af hvaða kyni sem er, segjast ekki vera það kyn sem þú kýst að þau séu eða þau þori ekki að segja frá þegar einhver hefur mögulega brotið á þeim. Þetta snýst nefnilega ekki um okkar trú eða hugsjón heldur þeirra öryggi, hamingju og velferð. Við getum verið til staðar fyrir börnin okkar en við getum aldrei orðið þau.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 18 klukkutímum

Samfylkingin fær á baukinn: Segir að kjósendur séu hafðir að fíflum

Samfylkingin fær á baukinn: Segir að kjósendur séu hafðir að fíflum
Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Verður Áslaug Arna næsti formaður Sjálfstæðisflokksins?

Verður Áslaug Arna næsti formaður Sjálfstæðisflokksins?
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Móðir keypti pennaveski fyrir dætur sínar á Shein – Dauðbrá þegar hún sá hvað var í því

Móðir keypti pennaveski fyrir dætur sínar á Shein – Dauðbrá þegar hún sá hvað var í því
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Tálbeituhópurinn: Maður á Akranesi þungt haldinn eftir misþyrmingar með járnkylfum og hnífi

Tálbeituhópurinn: Maður á Akranesi þungt haldinn eftir misþyrmingar með járnkylfum og hnífi