fbpx
Sunnudagur 26.janúar 2025
Fréttir

Kristján óvænt í tveimur löngum viðtölum og fór mikinn – Hvalveiðimenn eins og fórnarlömb Stalíns

Kristinn H. Guðnason
Miðvikudaginn 20. september 2023 18:00

Kristján Loftsson beindi gagnrýni sinni meðal annars að MAST, Svandísi Svavarsdóttur og VG.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kristján Loftsson, forstjóri Hvals hf, var mjög óvænt í löngum viðtölum hjá RÚV og Vísi í gær og í dag. Annars vegar var um að ræða viðtal í Kastljósi í gær og hins vegar rúmlega hálftíma langt viðtal hjá Vísi í dag.

Þó að hvalveiðar séu mikið í deiglu fjölmiðlanna heyrist sjaldnast í Kristjáni sjálfum. Það er ekki af því að blaðamenn reyna ekki að ná sambandi við hann, heldur vegna þess að hann svarar hvorki símtölum né skeytum nema einstaka sinnum frá blaðamönnum Morgunblaðsins.

Hvort að Kristján hafi skipt um almannatengil eða hvort að hann telji ekki lengur nóg að ná til lesenda Morgunblaðsins skal ósagt látið en að minnsta kosti fór hann mikinn í báðum viðtölum og beindi gagnrýni meðal annars að Matvælastofnun, Svandísi Svavarsdóttur, Vinstri grænum, mótmælendum og blaðamönnum.

Matvælastofnun vilji sverta sjómenn

Matvælastofnun stöðvaði nýlega veiðar Hvals hf vegna alvarlegra brota við veiðar á langreyði. Eftir að mistókst að drepa langreyði með einu skoti á bátnum Hval 8 var ekki farið strax í að skjóta öðru skoti heldur dróst það í meira en hálftíma. Telst þessi töf vera brotum á lögum um velferð dýra.

Í Kastljósviðtalinu fullyrti Kristján að enginn starfsmaður Matvælastofnunar hefði vit á sjósókn. „Þau vilja ekki skilja það,“ sagði hann þegar hann lýsti aðförum við veiðar á áðurnefndri langreyði.

Hefur stofnunin krafið hann um svör við spurningum, sem hann segir vera hundrað talsins og hafi lítinn tíma til að svara. Síðdegis í dag tilkynnti Matvælastofnun að veiðar yrðu leyfðar á ný, eftir að veiðimenn hefðu æft skutlanir á hafi úti og að Hvalur myndi semja verklagsreglur sem Matvælastofnun og Fiskistofa þurfa að samþykkja.

Svandís Svavarsdóttir stöðvaði hvalveiðar í sumar en heimilaði þær aftur með strangari skilyrðum um mánaðamótin.

„Ég þori ekki að lesa í heilabúið á þessu fólki,“ sagði hann aðspurður um hvort hann byggist við því að hinu tímabundna banni verði hnekkt. Stofnunin væri „stimplaelíta“ sem væri að beita sér gagnvart Hvali hf. „Þeir gangast alveg upp í því, í þessari Matvælastofnun, að sverta sjómenn.“

Indverjar að drepast úr hungri

Um alþjóðleg viðhorf til hvalveiða sagði hann að mótmælin kæmu aðallega frá háværum hópum í Bandaríkjunum. Minntist hann þess ekki að hafa heyrt af skoðunum fólks í Indlandi og Bangladess á hvalveiðum. „Ég er nú hissa á Indverjunum, þeir eru nú að drepast úr hungri mikið, þarna er mikill matur,“ sagði Kristján.

Í viðtalinu við Vísi gerði hann lítið úr nýliðnum mótmælum.

„Þessi mótmæli, það er nú bara part of the game. Þetta eru einhverjir Bandarískir flækingar sem eru hér á ferð en það er enginn sem hlustar á þau í Bandaríkjunum. Þetta er algjörlega dauð umræða þar. Þess vegna eru þeir að koma hingað og sjarma fyrir ykkur,“ sagði hann.

Hafa ber í huga að mótmælendurnir sem komu og hlekkjuðu sig við mastur Hvals 8 og 9, og fólkið sem fylgdi þeim, komu frá Bretlandi og Frakklandi.

Fórnarlömb Stalíns

Um ákvarðanir Svandísar Svavarsdóttur, matvælaráðherra, um hvalveiðar í sumar sagði Kristján stjórnsýsluna vera fyrir neðan allar hellur og líkti henni við Jósef Stalín, hinn sovéska einræðisherra sem stundaði víðtækar pólitískar og þjóðernishreinsanir á tugmilljónum manna.

Jósef Stalín, hinn sovéski einræðisherra.

„Þetta er svona stalínista stjórnsýsla, eins og var hjá Stalín í gamla daga. Hann hélt einhver réttarhöld og ákvað eitthvað og svo voru menn bara teknir af lífi. Við erum reyndar ekki skotnir en okkur er haldið í landi í tvo mánuði til að gera þessa vertíð alveg ómögulega, eða það verður ekkert úr henni,“ sagði Kristján. „Þetta er svona svipað stjórnarfar sýnist mér, sem er verið að reyna að innleiða hérna af þessum Vinstri grænum.“

Fréttamenn séu hrifnir af terroristum

Þá sagði hann að slökkt væri á staðsetningarbúnaði hvalveiðiskipanna til þess að hægt væri að fela sig fyrir skipum sem væru að elta þau. Í fyrra hafi til dæmis hollenskt skip elt hvalveiðibátana.

Annar mótmælandinn sem hlekkjaði sig við mastur hvalveiðiskips í upphafi mánaðar. Mynd/KSJ

„Þetta meðal annars gerum við til þess að reyna að varna því að við séum með einhverja svona gangstera og terrorista sem eru að elta okkur og gera okkur mein. Þú veist ekkert hvað þessu fólki dettur í hug. Þetta eru terroristar af fyrstu gráðu og þeir valsa hér um og þið fréttamenn margir hverjir eru mjög hrifnir af þessu fólki,“ sagði hann.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Margir furða sig á hinum væga dómi eftir dauðsfallið á Lúx – „Mannslíf er metið lítils í réttarkerfinu“

Margir furða sig á hinum væga dómi eftir dauðsfallið á Lúx – „Mannslíf er metið lítils í réttarkerfinu“
Fréttir
Í gær

Enn slá Rússar met hvað varðar mannfall á vígvellinum

Enn slá Rússar met hvað varðar mannfall á vígvellinum