„Hann hefur glímt við andleg veikindi, glímdi við það fyrir nokkrum árum, hann hefur dálítið fjarlægst okkur í sumar og við óttumst svolítið að hann sé kannski kominn á einhvern óþægilegan stað núna og þess vegna hafi hann tekið þessa hvatvísu ákvörðun, að skella sér til Spánar og síðan fengið þá hugmynd að fara til Dóminíska lýðveldisisins,“ segir Rannveig Karlsdóttir, systir Magnúsar Kristins Magnússonar, en hann hvarf sporlaust í Dómíníska lýðveldinu fyrir um viku síðan. Átti hann pantað flug þaðan til Frankfurt og þaðan heim til Íslands en fór aldrei í flugið.
Rannveig ræddi við Bylgjuna í morgun.
Rannveig segir að fjölskyldan sé örmagna af áhyggjum og svefnleysi en þau hafi líka styrk hvert af öðru. Magnús á stóra fjölskyldu og stóran vinahóp á Íslandi. Rannveig greinir frá því að Magnús hafi verið íþróttamaður hér áður fyrir og verið mjög hraustur. Hann hafi verið vanur að standa sig og hafi því átt erfitt með að horfast í augu við andleg veikindi sín.
„Við fáu óljósar og óstaðfestar fréttir um að hann hafi komið þarna upp á flugvöll, hugsanlega missta fluginu og skilið farangurinn eftir. Við fengum í gær óstaðfestar fréttir um að hugsanlega séu til myndir af honum að fara af flugvellinum en við vitum ekki hvort þetta er rétt,“ segir Rannveig.
Fjölskyldan er að reyna að komast í samband við aðila ytra sem geta gert leitina að Magnúsi markvissari. Reynt er að komast að því hvort hreyfingar hafa orðið bankareikningum hans og hvort hann hafi notað farsíma sinn eftir þarsíðasta sunnudag, þegar hann átti flugið heim. Staðfest er að Magnús fór ekki úr landi, hann hefur ekki yfirgefið Dómíníska lýðveldið.
Magnús á lítinn son hér heima og fósturson á unglingsaldri. Meðal verkefna hennar og annarra ættingja er að halda vel utan um þá. Fjölskyldan á í samskiptum við lögreglu, fjölmiðla og aðra aðila ytra til að afla frekari gagna og reyna að komast að því hvar Magnús er niðurkominn.