Morgunblaðið skýrir frá þessu í dag og hefur eftir Dóru Guðrúnu Guðmundsdóttur, sviðsstjóra lýðheilsusviðs hjá embætti landlæknis, að ansi mikið þurfi til að sjá breytingu í hamingjumælingu þjóða.
„Þegar ég fór fyrst að skoða þetta voru 85% fullorðinna 18 ára og eldri sem svöruðu á skalanum 8-10 og töldu sig mjög hamingjusöm,“ sagði hún. Eins og áður sagði er hlutfallið nú komið niður í 55%, svo breytingin er umtalsverð.
Dóra sagði að hamingjustuðullinn hafi ekki lækkað mikið í efnahagshruninu og hafi ungmenni komið betur út þá og hafi það verið talið tengjast betra sambandi þeirra við foreldra sína.
„Það gerðist hins vegar ekki í covid-faraldrinum, og það má segja að undanfarin ár hafi þessar tölur verið að lækka og í fyrra fór talan niður í 60% í fyrsta skipti og núna sjáum við að aðeins 55% fullorðinna telja sig mjög hamingjusöm,“ sagði hún.
Hún sagði að bresk yfirvöld hafi reiknað út að eitt stig í hamingju jafngildi 13.000 pundum á mann, en það eru um tvær milljónir króna. Hún sagði þetta háar tölur og það verði að skoða málin betur.