fbpx
Miðvikudagur 14.ágúst 2024
Fréttir

„Á þeim um 20 árum sem ég hef starfað sem lögreglumaður hef ég misst allt of marga félaga vegna sjálfsvíga“

Ragna Gestsdóttir
Fimmtudaginn 14. september 2023 18:00

Birgir Örn Guðjónsson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Samkvæmt rannsóknum eru sjálfsvíg innan lögreglustétta um 54% algengari en hjá öðrum starfsstéttum. Það er galið. Á þeim um 20 árum sem ég hef starfað sem lögreglumaður hef ég misst allt of marga félaga vegna sjálfsvíga. Sú staðreynd er sorglegri en tárum tekur,“

segir Birgir Örn Guðjónsson lögreglumaður, eða Biggi lögga, eins og hann er best þekktur.

Biggi segir það vel við hæfi í gulum september, sem er mánuður vitundarvakningar um geðheilbrigði og sjálfsvígsforvarnir, að hann satí síðustu viku ráðstefnu í Vilnius. Á ráðsetefnunni voru fulltrúar frá hátt í tuttugu löndum víðsvegar af úr heiminum þar sem umfjöllunarefnið var geðheilsa lögreglumanna. Var Biggi beðinn um að halda þar tvo fyrirlestra og málstofur um umfjöllunarefnið með áherslu á hvernig fordómar, samfélagslegir og okkar eigin, gegn geðsjúkdómum og fíkn geta hindrað það að við leitum okkur aðstoðar þegar við þurfum.

„Lögreglumenn eru nefnilega bara venjulegir einstaklingar eins og hver annar. Einstaklingar sem ólust upp í misjöfnu umhverfi, við misjafnar aðstæður og hafa upplifað allskonar hluti áður en þeir velja þetta fjölbreytta og kerfjandi starf. Starf sem samt mjög eðlilega getur haft mjög mikil áhrif á geðheilbrigði þessa einstaklinga.“

Einn af hverjum fjórum þarf að takast á við geðræn vandamál

Biggi segir að um það bil einn af hverjum fjórum einstaklingum þurfi að takast á við einhvers konar geðræn vandamál einhvern tímann á lífsleiðinni. 

„Þær áskoranir og verkefni sem lögreglumenn þurfa að fást við auka líkurnar á að slíkt komi upp hjá þeim. Að reyna að horfa fram hjá því er beinlínis hættulegt. Það eykur meðal annars hættuna á mistökum, langtíma veikindum, kulnun, félagslegri einangrun, fíkn, fjölskylduvandamálum og sjálfsvígum.“

Birgi segir verkefni lögreglumanna fjölbreytt og í mörgum þeirra þurfi lögreglan að fást við einstaklinga sem kljást við geðræna sjúkdóma eða fíkn. 

„Eðlilega þarf aldrei að kalla lögreglu til þegar aðilar með geðræn vandamál eru í góðum gír eða einhver notar lyf eða hugbreytandi efni án vandkvæða. Samt er það algengara en hitt. Við bara sjáum þá hlið ekki í starfinu. Þess vegna er mjög auðvelt að hafa svolítið brenglaða mynd af þessum eðlilegu þáttum mannlegs eðlis. Við það aukast einnig líkur á fordómum út í okkur sjálf þegar við stöndum frammi fyrir persónulegum vandamálum. Lögreglumenn verða jú að vera fullkomnir og flekklausir en ekki í sama hópi og hinn breyski almenningur sem þeir eiga að hjálpa eða jafnvel handtaka. En slíkt er ógerlegt á meðan starfinu er sinnt af fólki af holdi og blóði. Sú krafa er ómannleg. Þegar vandamálunum er ítrekað stungið ofan í skúffu þá þyngist hún að lokum svo mikið að hún gefur sig. Brotnar.“

Eigin fordómar 90% bandarískra lögreglumanna hamla því að þeir leiti sér aðstoðar

Biggi vísar til bandarískrar rannsókn þar sem kom í ljós að um 90% lögreglumanna töldu eigin fordóma megin ástæðu þess að þeir leituðu sér ekki aðstoðar vegna geðrænna vandamála. Segir hann það hugarfar þurfa að breytast. 

„Sú staðreynd verður að skrúfast í hausinn á okkur að það er ekki veikleikamerki að leita sér aðstoðar. Það er merki um styrk.“

Fordómabál sem þarf að slökkva

Biggi segir að sem betur fer hafi margt mjög jákvætt gerst í þessum málum á síðustu árum innan lögreglunnar á Íslandi. Það megi samt gera mun betur á svo margan hátt. 

„Líkt og með ákveðin líkamleg vandamál þá geta ákveðin geðræn vandamál að sjálfsögðu staðið í vegi fyrir því að einstaklingur geti sinnt lögreglustarfi. En ákvörðun um slíkt verður alltaf að vera tekin á faglegum grunni og má aldrei á nokkurn hátt litast af fordómum eða ótta. Við eigum að vera komin lengra en það í upplýstum heimi. 

Að sjálfsögðu eru til lögreglumenn með ADHD, kvíðaröskun, fíkn, þunglyndi, geðhvarfasýki, áfallastreituröskun og allskonar annað sem til er í heimi geðrænna sjúkdóma og raskana. Að neita því gerir lögreglustéttina ekki að heilbrigðustu starfsstétt í heimi, heldur einungis starfsstétt sem hefur innanborðs einstaklinga sem kljást við allskonar ómeðhöndluð vandamál. Það er það sem við viljum ekki. Það á enginn að þurfa að óttast það að koma fram með sín veikindi eða vanlíðan,“ segir Biggi og bætir við: 

„Og ef einhver ætlar að gerast svo lítilmannlegur að nota þessa umræðu fyrir útrás sína á hatri á lögreglunni og segja að lögreglumenn séu allir klikkaðir eða eitthvað álíka þá má sá hinn sami vita að slíkt tal er ekkert nema olía á fordómabálið sem við verðum einmitt að slökkva. Þótt lögreglumenn séu mannlegir þá gerir það lögregluna ekki verri eða gefur í skyn að ekki sé hægt að treysta henni. Einmitt öfugt. Með því að horfast í augu við mannlegt eðli og takast á við geðrænar hindranir fordómalaust er lögreglan bæði betri og traustari. Það sama á við um allar starfsstéttir. Það er engin skömm af því að vera með geðræn vandamál en fordómarnir fyrir þeim er skömm okkar allra.“

Ef ein­stak­ling­ar glíma við sjálfs­vígs­hugs­an­ir er bent á Hjálp­arsíma Rauða kross­ins 1717 og netspjall Rauða krossins 1717.is. Opið allan sólarhringinn. Einnig má hafa sam­band við Píeta-sam­tök­in sem veita ókeyp­is ráðgjöf í síma 552-2218, allan sólarhringinn. Netspjall Heilsuveru þar sem svarar hjúkrunarfræðingur er líka opið frá kl.8-22 alla daga. Fyrir þau sem misst hafa ástvin í sjálfsvígi má fá stuðning í sorg hjá Sorgarmiðstöð og hjá Pieta samtökunum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Dóttir Musk tætir í sig heimsþekktan ævisöguritara hans – „Það er andskotans brandari“

Dóttir Musk tætir í sig heimsþekktan ævisöguritara hans – „Það er andskotans brandari“
Fréttir
Í gær

Lögregla kölluð til eftir skírn í Hallgrímskirkju – „Ég er mjög hrædd því ég veit ekki hvað hann gerir næst“

Lögregla kölluð til eftir skírn í Hallgrímskirkju – „Ég er mjög hrædd því ég veit ekki hvað hann gerir næst“
Fréttir
Í gær

Sóley segir orðatiltækið „svolítið OCD“ grafa undan skilningi á þráhyggju og áráttu

Sóley segir orðatiltækið „svolítið OCD“ grafa undan skilningi á þráhyggju og áráttu
Fréttir
Í gær

Sparaði 12 milljónir á tveimur árum en íbúðin hafði á sama tíma hækkað um 18 milljónir

Sparaði 12 milljónir á tveimur árum en íbúðin hafði á sama tíma hækkað um 18 milljónir
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Þingfesting í stóra fíkniefnamálinu – Nístandi kvíði sakborninga sem óttast afhjúpun og smánun

Þingfesting í stóra fíkniefnamálinu – Nístandi kvíði sakborninga sem óttast afhjúpun og smánun
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Kom starfsmanni Keflavíkurflugvallar í opna skjöldu – Sjáðu myndina

Kom starfsmanni Keflavíkurflugvallar í opna skjöldu – Sjáðu myndina