fbpx
Föstudagur 27.desember 2024
Fréttir

Guðrún Ágústa gagnrýnir kynfræðslubók harðlega – „Mikið markaleysi og margt óviðeigandi sem á ekki erindi við ung börn”

Ágúst Borgþór Sverrisson
Þriðjudaginn 12. september 2023 09:45

Til vinstri: Þórdís Jóna Sigurðardóttir, forstjóri Menntamálastofnunar. Til hægri: Guðrún Ágústa Ágústsdóttir, ráðgjafi.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Fyrst var ég að vona að þetta væri eitthvert grín en því miður er þetta alvara. Ég verð að segja að sumt af því sem stendur í þessari bók gengur gjörsamlega fram af mér, sérstaklega af því þetta er efni fyrir börn á aldrinum 7-10 ára,“ segir Guðrún Ágústa Ágústsdóttir, uppeldis-, fíkni- og fjölskyldufræðingur, um námsbókina Kyn, kynlíf og allt hitt, sem töluverður styrr hefur staðið um undanfarið.

Guðrún telur að sumir textar í bókinni séu allt of kynferðislegir og óviðeigandi fyrir börn á aldrinum 7-10 ára, en það er sá aldurshópur sem bókin er skrifuð fyrir.

„Ég skal alveg viðurkenna að það er margt gott í bókinni en annað alls ekki. Þarna er mikið markaleysi og margt óviðeigandi sem á ekki erindi við ung börn,“ segir Guðrún og bendir blaðamanni á kafla sem hafa farið sérstaklega fyrir brjóstið á henni.

Rétt er þó áður en lengra er haldið að leiðrétta ýmsan misskilning og rugling sem hefur verið í umræðu um bókina. Í ádeilu undanfarið hefur ýmsu ægt saman. Fólk sem er andsnúið hinseginfræðslu í skólum, sérstaklega fræðslu um transmálefni, hefur t.d. látið í sér heyra á þeim forsendum að hér sé slík fræðsla á ferðinni. Hæstar hafa verið raddir sem telja að hún innihaldi upplýsingar um BDSM-lífsstíl. Þar er hins vegar verið að rugla bókinni saman við plaköt sem hafa verið hengd upp á veggjum grunnskóla undanfarið í tilefni sérstakrar kynfræðsluviku. Því efni er ekki beint að börnum í þessum aldursflokki heldur eldri börnum. Ekkert er fjallað um transmálefni eða BDSM í þessari bók.

Aðspurð segist Guðrún einmitt ekkert hafa á móti því að börn séu frædd um samkynhneigð og önnur fjölskylduform en hin hefðbundnustu. „Sum börn eiga tvo pabba eða tvær mömmur, minn sonur var til dæmis alinn upp af einstæðri móður. Það er sjálfsagt að fræða börn um slíkt,“ segir hún og telur einnig sjálfsagt að fræða börn um transmálefni.

Það er allt annað sem er að angra hana, t.d. eftirfarandi textar um sjálfsfróun, stinningu kynfæra og snertingu við endaþarm:

„Svona tal um örvun endaþarms, þetta er eitthvað sem ég vil kalla „organicׅ“, eitthvað sem við uppgötvum á eigin spýtur og gerum svo kannski okkar tilraunir þegar við verðum eldri. Að ýta slíku framan í svona unga krakka finnst mér hins vegar vera fyrir neðan allar hellur og algjörlega óviðeigandi.“

Guðrún er líka mjög ósátt við texta sem einhverjir gætu skilið sem hvatningu til að gera kynlífstengdar tilraunir með vinum eða ættingjum, þó að líka megi skilja þetta sem líkingamál:

Ennfremur finnst henni sérkennilegt og óviðkunnannlegt að ota að börnunum upplýsingum um lífsstíl nektarsinna. „Það er talað um að vera nakinn heima hjá sér. Hver er tilgangurinn með slíku tali?“ segi hún.

Síðast en ekki síst þykir henni vera neðan allar hellur að útskýra með eftirfarandi hætti hugtakið „sexý“ fyrir ungum börnum:

„Þarna er verið að gefa til kynna að börn séu sexý. Börn eiga ekki að vera sexý, börn eru börn. Er verið að fara rólega í normalíserinu á barnagind?“ spyr hún og er nokkuð heitt í hamsi. Hún segir að kynfræðsla fyrir skólabörn eigi vissulega rétt á sér en það versta sem finna megi í þessari bók sé beinlínis kynferðislegt í framsetningu, nokkuð sem sé algjörlega óviðeigandi fyrir börn á þessum aldri. „Þegar verið er að ota kynferðislegum undirtónum að börnum þá finnst mér vera farið yfir eðlileg mörk og börn hafa ekki nægilega sterka sjálfsmynd til að veita slíku viðnám.“

Segir vaðið yfir mörk barnanna

Guðrún er mjög hneyksluð á framtakinu og telur að með sumu efninu sé verið að vaða yfir mörk barna. „Hvar er Barnaheill, hvar er barnavernd og hvar er barnamálaráðherra? Hvers vegna rennur þetta algjörlega gagnrýnislaust í gegn? Það var ekki fyrr en einhverjir foreldrar ráku augun í þetta að boltinn fór að rúlla. Ég hef reyndar þá kenningu að einhver þröngur hópur hafi barið málið í gegn og engin þorað að gagnrýna. Vegna þess að fólk er oft svo hrætt við að gagnrýna, það óttast slaufun. En ég ætla ekki að standa á hliðarlínunni í þessu, ég segi: Slaufið mér þá bara. Ég tel mér skylt að vera málsvari barnanna og bendi á að undanfarin ár hefur fagfólk kappkostað að innræta börnum það að þekkja mörk og láta ekki vaða yfir sín mörk. En það er nákvæmlega það sem verið er að gera þarna.“

Blaðamaður bendir á algeng rök í þessari umræðu, að börn hafi aðgang að ýmisskonar efni á netinu og að betra sé að þau fái viðkvæmar upplýsingar um kynlíf í öruggu umhverfi skólastofunnar.

„Ég sé eiginlega ekki fyrir mér nokkurn kennara bera þetta efni á borð í skólastofu. Hver er að fara að gera það? En það er fyrst og fremst hlutverk foreldra að taka samtalið við börnin sín um svona málefni. Þó að mörgum þyki það óþægilegt þá þarf að taka það samtal á einhverjum tímapunkti.“

Aðspurð segir Guðrún að hún telji eðlilegt að hefja kynfræðslu í skólum frá sirka 12 ára aldri en slíkt efni eigi aldrei að setja fram með kynferðislegum undirtónum eins og henni finnst gert í þessari bók.

Höfundur bókarinnar umdeildu er Kanadamaður að nafni Cory Silverberg. Hann er kynfræðingur og hefur sinnt kynlífsráðgjöf fyrir pör og einstaklinga. „Hann er ekki menntaður uppeldisfræðingur eða neitt slíkt. Þetta er maður sem hefur haft fullorðið fólk í kynlífsþerapíum. Ég skil ekki af hverju Menntamálastofnun stekkur á þetta. Þetta er bara eitthvert rit sem kanadískur kynfræðingur hefur sett saman, einhver bók sem er engan veginn relevant. Þetta er bara út í hött.“

Bókin lofuð víða

Katrín Friðriksdóttir, sviðsstjóri hjá Menntamálstofnun, segir í svari við fyrirspurn DV, að bókin hafi verið metin af hópi kennnara sem hafi mikla reynslu af kynfræðslu:

„Höfundur þessarar bókar hefur áratugareynslu af því að vinna að kynfræðslu og við gerð námsefnis fyrir málaflokkinn. Þessi bók var valin þar sem hún tekur á fræðslu um tilfinningar, að líkamar okkar séu ólíkir og það sé í boði að vera eins og þú ert. Bókin var metin af hópi kennara sem hafa mikla reynslu í málefnum kynfræðslunnar og þau mæltu með að þetta efni yrði tekið til þýðingar. Kennsluleiðbeiningar eru væntanlegar og við hvetjum kennara til að kynna sér efnið vel áður en það er notað í kennslu.“

Katrín bendir jafnframt á að bókin hafi víða fengið mikið lof fyrir tök höfundar á efninu. Meðal annars hafi hún fengið 4,7 af 5 mögulegum í einkunn á Amazon-vefnum.

Þórdís Jóna Sigurðardóttir, forstjóri Menntamálastofnunar, ræddi málið í Kastljósi í gærkvöld. Hún sagði að sá veruleiki sem börn og ungmenni standa frammi fyrir í dag, þar sem kynferðisleg áreitni af hálfu fullorðinna sé  mjög algeng, kalli á þau hispurslausu efnistök sem beitt er í bókinni. Hún segir að hverjum kennara sé í sjálfsvald sett hvernig bókin er notuð, hvort þeir yfirleitt kenni hana og hvaða kaflar séu lesnir. Sumir kaflarnir séu kannski fremur miðaðir að elstu nemendunum í aldurshópnum, þ.e. tíu ára, á meðan eðlilegt sé að miðla öðru efni hennar að yngri nemendum, þ.e. niður í sjö ára.

 

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 3 dögum

Inga segir eiganda Lumex ljúga – Ítrekað hindrað aðgengi fatlaðra og rifið kjaft

Inga segir eiganda Lumex ljúga – Ítrekað hindrað aðgengi fatlaðra og rifið kjaft
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Listinn lengist – Þessir háttsettu Rússar hafa verið myrtir í Rússlandi

Listinn lengist – Þessir háttsettu Rússar hafa verið myrtir í Rússlandi
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Boða leiðindaveður yfir jólahátíðina – Gul jól í ár

Boða leiðindaveður yfir jólahátíðina – Gul jól í ár
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Lektor bendir á yfirgengilega framkomu fyrirtækjaeiganda í Skipholti – „Hún er því miður að gera þetta af einhvers konar illgirni“

Lektor bendir á yfirgengilega framkomu fyrirtækjaeiganda í Skipholti – „Hún er því miður að gera þetta af einhvers konar illgirni“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Pútín gæti staðið frammi fyrir alvarlegum vanda á næsta ári

Pútín gæti staðið frammi fyrir alvarlegum vanda á næsta ári
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Allt brjálaðist hjá dularfullri rússneskri útvarpsstöð

Allt brjálaðist hjá dularfullri rússneskri útvarpsstöð
Fréttir
Fyrir 4 dögum

Sakamál ársins I: Æði rann á fjölskylduföður, Interpol lýsti eftir Pétri, stórþjófar í Hamraborg og barnaníðingur í Dalslaug

Sakamál ársins I: Æði rann á fjölskylduföður, Interpol lýsti eftir Pétri, stórþjófar í Hamraborg og barnaníðingur í Dalslaug
Fréttir
Fyrir 5 dögum

Ófögnuðurinn blasir við ferðamönnum við komuna til Íslands

Ófögnuðurinn blasir við ferðamönnum við komuna til Íslands