fbpx
Laugardagur 18.janúar 2025
Fréttir

Kristinn segir sjókvíaeldi skaðlaust – „Höldum því áfram af fullum krafti“

Kristinn H. Guðnason
Mánudaginn 11. september 2023 14:00

Kristinn segir eldislaxinn hafa minni hæfni en villtur lax til að lifa af í ám.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kristinn H. Gunnarsson, fyrrverandi þingmaður og ritstjóri vestfirska miðilsins Bæjarins besta, skrifar grein í morgun þar sem hann segir engan skaða af slysasleppingum eldislaxa. Ávinningur af fiskeldi sé slíkur að laxinn sé orðinn verðmætari fyrir þjóðarbúið en þorskurinn.

 

„Höldum því áfram af fullum krafti,“ segir Kristinn um laxeldi í greininni. Ávinningurinn fyrir þjóðarbúið sé öllum ljós. Útflutningsverðmæti síðasta árs hafi verið nærri 50 milljarðar króna og gæti orðið 100 milljarðar þegar útgefin leyfi verði fullnýtt.

„Laxinn er verðmætari en sjálfur þorskurinn,“ segir Kristinn. „Við vitum hvað ríkið og sveitarfélögin fá í tekjur af laxeldinu, það eru milljarðar króna og störfin sem orðið hafa til eru talin í hundruðum. Þessi starfsemi verður sífellt mikilvægari til þess að bæta lífskjör landsmanna og vaxtarmöguleikarnir eru enn miklir.“

 

Náttúruvalið vinnur með villta laxinum

Náttúruverndarsinnar og stangveiðimenn hafa lengi barist gegn sjókvíaeldi og bent á hætturnar af því að eldislaxar sleppi í íslenskar ár. Í sumar hafa birst margar fréttir af því að veiðimenn fái eldislax á stöng en ekki villtan íslenskan lax.

Kristinn rekur það í greininni að Hafrannsóknarstofnun hefði staðfest að eldislaxar hefðu sloppið úr kví í Patreksfirði. 19 laxar hefðu veiðst á Vestfjörðum og 8 annars staðar á landinu, hið minnsta en sumir veiddir laxar eru enn í greiningu.

„Þegar eldislax sleppur úr kví er það alltaf slæmt,“ segir Kristinn. „Fyrirtækið sem elur laxinn tapar tekjum og sleppilax sem lifir af getur gengið í laxveiðiár og blandast stofni sem þar er fyrir. Það er svo umdeilt hver skaðinn er af blönduninni og á það er bent að ræktaður eldislax er síður hæfur í náttúrulegu umhverfi en villtur lax og því sjái náttúruvalið til þess að villti stofninn hafi að lokum betur.“

 

Áratuga sleppingar

Kristinn vísar í söguna og nefnir að á árum áður hafi verið stunduð umfangsmikil ræktun með lax í íslenskum ám. Meðal annars hafi 54 þúsund laxaseiðum úr Laxalóni og Kollafirði verið sleppt í Laugardalsá í Ísafjarðardjúpi árin 1965 til 1991.

„Sleppingarnar voru því um langt árabil mjög hátt hlutfall miðað við stofninn og því mikil blöndun milli stofnana að ræða,“ segir hann.

Sjókvíaeldi hefur verið afar umdeilt á undanförnum árum.

Árið 2017 hafi Sigurður Guðjónsson, forstjóri Hafrannsóknarstofnunar, hins vegar sagt í viðtali hjá RÚV að engin merki væru um þennan aðflutta stofn í Djúpinu. Ekki einu sinni í Laugardalsá.

„Þetta er í samræmi við niðurstöðu fræðimanna sem er á þann veg að til þess að um varanlega erfðablöndun verði milli stofna þurfi mikla innblöndun í langan tíma og þegar henni linni þá gangi erfðablöndunin til baka,“ segir Kristinn og nefnir að ástandið í norskum ám hafi batnað á síðustu árum. En Norðmenn eru meðal stærstu fiskeldisþjóða í heiminum.

 

Lærðum af Norðmönnum

„Á Íslandi hafa stjórnvöld nýtt sér lærdóm Norðmanna og tekist að forðast mistök sem þar voru gerð. Fyrir vikið hefur laxeldi síðustu ára ekki haft nein skaðleg áhrif á villta laxastofna í ám með nytjastofn,“ segir Kristinn.

Laxeldi sé bannað þar sem helstu laxastofnar séu og aðeins leyft þar sem óverulegir hagsmunir séu af laxveiði.

Aðeins hafi greinst 18 eldissleppilaxar í sjókvíum árin 2018 og 2019 og tilkynnt um 5 tilvik slysasleppinga. Hafrannsóknarstofnun meti fjölda laxa sem sloppið hafa svipaðan og í Noregi, 0,8 lax á hvert tonn.

 

Enginn skaði skeður

Í fyrra hafi því 36 þúsund laxar sloppið og 100 laxar gangi kynþroska upp í ár. Það er þessi seinni tala sem skipti máli, því þeir laxar geti haft áhrif á þá laxastofna sem eru fyrir.

Þegar sé töluvert um svokallað villuráf, erfðafræðilega blöndun stofna, um 5 prósent. Þá hafi Ragnar Jóhannsson, rannsóknastjóri fiskeldis hjá Hafrannsóknarstofnun sagt í viðtali við Bændablaðið árið 2022 að eldislax hafi margfalt minni æxlunarhæfni en villtur lax.

„Engin staðfest dæmi eru til um erfðablandaðan kynþroska lax í einhverjum nytjastofni, aðeins til fáein dæmi um blendingsseiði,“ segir Kristinn. „Þannig er staðan í dag. Engum laxastofni hefur verið útrýmt. Enginn stofn er í hættu vegna erfðablöndunar. Enginn stofn er erfðablandaður svo vitað sé um. Enginn skaði er skeður varðandi villta laxastofna.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Kristján fengið nóg: „Ónæðið held­ur áfram og byrjaði nú síðast klukk­an 7 í morg­un“

Kristján fengið nóg: „Ónæðið held­ur áfram og byrjaði nú síðast klukk­an 7 í morg­un“
Fréttir
Í gær

Kristinn gagnrýnir hvernig talað er um Palestínumenn – „Smekklegt“

Kristinn gagnrýnir hvernig talað er um Palestínumenn – „Smekklegt“
Fréttir
Í gær

Bryggjan brugghús komið á sölu

Bryggjan brugghús komið á sölu
Fréttir
Í gær

Sakaður um vanrækslu á syni sínum – Drengurinn vissi ekki eigin aldur

Sakaður um vanrækslu á syni sínum – Drengurinn vissi ekki eigin aldur