fbpx
Fimmtudagur 21.nóvember 2024
Fréttir

Stílabókin í Lágafellsskóla – „Dónalegur“, „lúmskur“ og „lyginn“ á meðal þess sem kennari kallaði nemendur

Ágúst Borgþór Sverrisson
Sunnudaginn 10. september 2023 10:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Mikið uppnám er á meðal foreldra nemenda í Lágafellsskóla í Mosfellsbæ í kjölfar þess að afar viðkvæmar persónupplýsingar um stóran hóp nemenda í 8. bekk fóru í dreifingu á samfélagsmiðlum.

Foreldrar nemenda við skólann sem DV hefur rætt við eru annars vegar hneykslaðir á þeirri vinnslu og meðferð persónupplýsinga sem virðist viðhöfð í skólanum og hins vegar, en ekki síður, á innihaldi þeirra sérstæðu minnispunkta sem kennari skráði hjá sér um nemendur í stílabók sem fór á flakk.

Sjá einnig: Alvarlegur upplýsingaleki úr Lágafellsskóla – Viðkvæmar upplýsingar um nemendur rötuðu á Snapchat

„Umræddar upplýsingar hafði kennari skráð í minnisbók í kjölfar skilafundar í ágúst þegar árgangurinn var að flytjast milli stiga innan skóla, af miðstigi yfir á unglingastig,“ segir í tilkynningu frá Lágafellsskóla um málið þar sem atvikið er harmað mjög.

Atvikið bar til með þeim hætti að nemandi í 8. bekk fékk lánaða stílabók hjá kennara til að skrifa í en fyrir slysni var það stílabók sem innihélt umrædda minnispunkta um nemendur 8. bekkjar. Í kjölfarið fóru upplýsingarnar í dreifingu á Snapchat. Í bréfi til foreldra þeirra nemenda sem voru á athugasemdalistanum í stílabókinni er því lýst hvernig skólayfirvöld telja sig hafa stöðvað dreifingu efnisins en foreldrar sem DV hefur verið í sambandið við draga það mjög í efa. Ein móðir segir:

„Ég vil bara segja að skólinn hefur ekki brugðist við. Ég er foreldri barns í 9. bekk og sonur minn kom þessum upplýsingum á mig kvöldið sem myndirnar fóru af stað. Skólinn vissi vel að þetta væri ekki bara í dreifingu í 8. bekk þar sem það var nemandi í 10. bekk sem komst í þessa stílabók. Skólinn fylgdist ekki með nemendum eyða myndunum almennilega þar sem margir geymdu það í „recently deleted“ og fór þetta strax aftur í dreifingu. Skólinn sendi foreldrum barna sem voru að dreifa myndum engin skilaboð til að foreldrar gætu rætt við börnin sín heima um alvarleika málsins og svo foreldrar gætu verið vissir um að börnin væru ekki að dreifa slíkum upplýsingum. Enda er þessi skóli þekktur fyrir það að fría sig af allri ábyrgð.

Ég hef staðið í stanslausu stríði við skólann í lengri tíma. Það eru allskonar hlutir verulega ófaglegir í skólastarfi og þegar ég var í stöðugu sambandi við skólann vegna kennara sem var gríðarlega óviðeigandi við nemendur þá var ég beðin um það að vera ekki að skrifa inn á bekkjarsíður á facebook til að láta aðra foreldra vita. Eftir tuga símtala við skólann fékk barnið mitt bara að vera á bókasafni á meðan tímum stóð og kennarinn fékk áfram að vera í starfi. Í dag (föstudag) var ekkert rætt við börnin og eins og ekkert hafi í skorist. Enda fóru myndir strax aftur í dreifingu. Foreldrar nemenda í öðrum bekkjum fengu að vita af þessu þegar það kom í fjölmiðlum, skólinn sagði ekkert. Skólastjórnendur gera aldrei neitt, ég veit um mörg fáránleg mál sem skólinn sópar undir teppið.“ 

Fullkomnunarárátta, lygi og „þeytispjald“

DV hefur undir höndum skjáskot af öllum athugasemdum kennarans í stílabókinni. Um er að ræða 5-6 þéttskrifaðar blaðsíður. Athugasemdirnar eru mjög stuttaralegar og stikkorðakenndar. Þær tilgreina greiningar á borð við ADHD, einhverfu og kvíða, en einnig er að finna í þeim mjög huglægar lyndiseinkunnir. Sum börnin eru sökuð um hroka og finna má lýsingar á borð við „dónalegur“, „lúmskur“ og „lyginn“. Sumir nemendur eru sagðir ekki félagslega sterkir eða sagðir búa við erfiðar heimilisaðstæður. Fullkomnunarárátta og „hægur“ eru einnig á meðal þeirra lýsinga sem kennarinn hefur skrifað í umrædda stílabók. Þá er einn sagður vera „slakur námsmaður“ en annar haldinn fullkomnunaráráttu. Einn er sagður vera „þeytispjald“.

Sjá einnig: Upplýsingalekinn í Lágafellsskóla – Foreldrar í sjokki – „Þetta er skelfilegt mál“

Allflestar umsagnirnar á þessum blöðum eru neikvæðar, lýsa annaðhvort erfiðum vandamálum eða löstum.

Ljóst er að málinu er hvergi nærri lokið og er það nú komið inn á borð Persónuverndar. Foreldrafélag Lágafellsskóla hefur lýst yfir þungum áhyggjum af vinnnslu og varðveislu persónupplýsinga í skólanum. Félagið hefur kallað eftir frekari upplýsingum frá skólayfirvöldum um tildrög málsins.

Uppfært: Samkvæmt heimildum er það misskilningur að nemandi í 10. bekki hafi fengið stílabókina í hendur, það var nemandi í 8. bekk.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 10 klukkutímum

Björn Valur líkir ferð Sigmundar Davíðs í VMA við æluferð Ásmundar Einars

Björn Valur líkir ferð Sigmundar Davíðs í VMA við æluferð Ásmundar Einars
Fréttir
Fyrir 11 klukkutímum

Hraun hefur runnið yfir Njarðvíkuræð

Hraun hefur runnið yfir Njarðvíkuræð
Fréttir
Fyrir 16 klukkutímum

Segir að Kim Jong-un hafi Pútín að fífli

Segir að Kim Jong-un hafi Pútín að fífli
Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Fyrstu myndir af gosinu úr þyrlu Landhelgisgæslunnar

Fyrstu myndir af gosinu úr þyrlu Landhelgisgæslunnar