fbpx
Þriðjudagur 05.nóvember 2024
Fréttir

Upplýsingalekinn í Lágafellsskóla – Foreldrar í sjokki – „Þetta er skelfilegt mál“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Föstudaginn 8. september 2023 15:30

Lágafellsskóli. Mynd: Facebook.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Eins og DV greindi frá fyrr í dag átti sér stað í gærmorgun alvarlegur leki á mjög viðkvæmum persónuupplýsingum um nemendur í 8. bekk Lágafellsskóla.

Upphaf málsins er að kennari afhenti nemanda stílabók til að nota við nám í tíma. Í stílabókinni voru nokkrar þéttskrifaðar blaðsíður þar sem fjallað er með mjög opinskáum hætti um einkalíf og vandamál nokkurra nemenda við skólann. Upplýsingarnar rötuðu á Snapchat en skólayfirvöld reyndu að hefta útbreiðslu þeirra.

Sjá einnig: Alvarlegur upplýsingaleki úr Lágafellsskóla – Viðkvæmar upplýsingar um nemendur rötuðu á Snapchat

Í fyrri frétt DV um málið er vísað í bréf sem skólastjóri sendi á foreldra þeirra nemenda sem voru þolendur upplýsingalekans. Rétt eftir að fréttin birtist barst foreldrum annað bréf frá skólastjóra þar sem beðið er afsökunar á atvikinu með eindregnari hætti og óviðunandi vinnubrögð játuð. Bréfið er eftirfarandi:

Kæru foreldrar

Því miður átti sér stað sá atburður í Lágafellsskóla í gær að persónuupplýsingar um ákveðinn hóp nemenda rötuðu á samfélagsmiðla.

Umræddar upplýsingar hafði kennari skráð í minnisbók í kjölfar skilafundar í ágúst þegar árgangurinn var að flytjast milli stiga innan skóla, af miðstigi yfir á unglingastig.

Ljóst þykir að skráning, innihald og orðlag minnispunktanna sem ritaðir voru í minnisbókina voru því miður settir fram á ófaglegan hátt og voru þannig óásættanlegir og óviðeigandi.

Jafnframt var meðferð þessara minnispunkta ekki í samræmi við verklagsreglur skólans um skráningu og meðhöndlun persónugreinanlegra gagna.

Fyrstu viðbrögð skólans voru að tilkynna atvikið til Persónuverndar á sama tíma og haft var sambandi við foreldra umræddra nemenda og þeir upplýstir um atvikið. Þá var rætt við nemendurna sjálfa og þeir beðnir afsökunar.

Skólinn og skólayfirvöld í Mosfellsbæ líta atvikið mjög alvarlegum augum og munu gera allt til að lágmarka skaðann sem af því hlýst. Börnum verður boðinn sálrænn stuðningur og verið er að setja saman áætlun um hvernig þeim stuðningi verður nákvæmlega háttað.

Atvikið er harmað og skólinn og skólayfirvöld biðjast auðmjúklega afsökunar á því. Nú í framhaldinu munu skólayfirvöld leggjast á eitt um að bæta fyrir skaðann og fyrirbyggja að viðlíka atvik komi aftur upp innan skóla sveitarfélagsins.

Lísa Greipsson,
Skólastjóri Lágafellsskóla

Segir upplýsingarnar í dreifingu í öðrum skólum

Móðir eins nemanda sem fyrir þessu varð segir í samtali við DV að hún viti til þess að hinar viðkvæmu upplýsingar séu í dreifingu í öðrum skólum í Mosfellsbæ sem og í öðrum árgöngum Lágafellsskóla. Hún segir málið skelfilegt og jafnframt að skólastjóri sé ekki að fara að öllu leyti rétt með í bréfum sem send hafa verið á foreldra:

„Þetta er skelfilegt mál. Skólinn sendi okkur annað bréf núna líklega vegna þess að þetta er komið í fjölmiðla, og þetta bréf virðist bara vera að reyna að fegra skólann og þeirra viðbrögð. Sonur minn var ekki beðinn afsökunar í gær eins og bréfið hljómar, hann var það í dag, en hefði allan daginn átt að gerast í gær.“

Önnur móðir segir: „Mér finnst afar sorglegt að börnin manns séu persónugreind á þennan hátt. Því það er ekkert jákvætt sagt um börnin á þessum lista. Mér finnst líka að skólinn eigi ekki að hafa neinn rétt á því að hafa börnin í þvingandi stöðu og láta eyða efni úr símanum því þetta eru börn á 13. ári.“

Lísa Greipsson, skólastjóri Lágafellsskóla, brást vinsamlega við fyrirspurn DV um málið og segist geta svarað síðar í dag. Má DV eiga von á yfirlýsingu frá skólastjóranum.

Uppfært kl. 18:20: DV hefur borist tölvupóstur frá Lísu Greipsson, skólastjóra Lágafellsskóla. Þar er vísað til tilkynningar sem birt hefur verið á heimasíðu skólans og segir Lísa að hún muni ekki tjá sig frekar um málið en það sem fram kemur í þeirri tilkynningu. Um er að ræða sama texta og sendur var til foreldra í dag. Sá texti er ofar í þessari frétt.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 17 klukkutímum

Viðbragð Veðurstofunnar virkjað í nótt: Töldu að kvikuhlaup gæti verið að hefjast

Viðbragð Veðurstofunnar virkjað í nótt: Töldu að kvikuhlaup gæti verið að hefjast
Fréttir
Fyrir 17 klukkutímum

Gat ekki tjáð sig öðruvísi en með öskrum og svívirðingum

Gat ekki tjáð sig öðruvísi en með öskrum og svívirðingum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Netárás tók endurritun internetsins úr sambandi

Netárás tók endurritun internetsins úr sambandi
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Þessi töluðu minnst á Alþingi á kjörtímabilinu

Þessi töluðu minnst á Alþingi á kjörtímabilinu
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Flýja til Íslands á meðan forsetakosningarnar standa yfir – „Það verður svo mikill hávaði og svo mikil ringulreið“

Flýja til Íslands á meðan forsetakosningarnar standa yfir – „Það verður svo mikill hávaði og svo mikil ringulreið“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Ný könnun: Viðreisn nartar í hælana á Samfylkingunni – Píratar og VG í klandri

Ný könnun: Viðreisn nartar í hælana á Samfylkingunni – Píratar og VG í klandri