fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Fréttir

Bráðaaðgerð og tveggja mánaða dvöl á gjörgæslu eftir stórfellda líkamsárás og nauðgun af hálfu eiginmanns síns – „Djöfull í mannsmynd“ fékk átta ára dóm

Ragna Gestsdóttir
Fimmtudaginn 7. september 2023 09:30

Mynd úr safni og tengist fréttinni ekki beint Mynd: Shutterstock

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Á mánudag var tæplega fertugur karlmaður dæmdur í átta ára fangelsi fyrir stórfellda líkamsárás, nauðgun og stórfelld brot í nánu sambandi yfir fjögurra ára tímabil gegn eiginkonu sinni. Maðurinn var jafnframt dæmdur til að greiða eiginkonu sinni sjö milljónir króna í miskabætur og allan sakarkostnað í málinu, alls 19.471.748 krónur.

Maðurinn var ákærður 19. maí síðastliðinn og er ákæran í 13 liðum, var maðurinn sakfelldur í þeim öllum. Alvarlegasta atvikið átti sér stað 25. febrúar í ár en þá var maðurinn handtekinn á heimili hjónanna og hefur hann sætt gæsluvarðhaldi síðan. Brotaþoli gekkst undir aðgerð þann dag eftir  líkamsárás og nauðgun sem maðurinn beitti hana og báru sérfræðingar fyrir dómi að hún hefði ellegar ekki lifað af.

Maðurinn neitaði að stærstum hluta sök í skýrslutöku hjá lögreglu og fyrir dómi og sagði að um hefði verið að ræða sjálfsvörn þann 25. febrúar.

Sjá einnig: Fjögurra ára hryllingur heimilisofbeldis – Réðst á eiginkonuna á brúðkaupsnóttina

Brot yfir fjögurra ára tímabil

Brotin framdi maðurinn á árunum 2019 til 2023 á sameiginlegu heimili hans og eiginkonu hans, brotaþola, eins og segir í ákæru: 

„með því að hafa endurtekið og á sérstaklega sársaukafullan, meiðandi og alvarlegan hátt ógnað lífi, heilsu og velferð hennar með andlegu, líkamlegu og kynferðislegu ofbeldi, hótunum og nauðung svo sem hér greinir.“

Við vörum við lýsingum hér að neðan.

Eins og áður segir er ákæran í 13 liðum og í síðasta lið er ekki um tímasett atvik að ræða heldur er maðurinn ákærður fyrir að hafa á fyrrgreindu fjögurra ára tímabili „beitt konuna andlegu ofbeldi með því að hafa ítrekað og margsinnis talað niður til hennar, hótað henni lífláti, hótað henni að setja bjórflösku og vatnsflösku inn í leggöng hennar og endaþarm, svívirt hana og smánað, með því að kalla hana hóru og aumingja og saka hana um lauslæti og framhjáhald.“

Ofbeldi sem stigmagnast

Fyrsta tilvikið sem er tímasett er í 12. lið ákærunnar þar sem maðurinn er ákærður og dæmdur fyrir að hafa mánudaginn 12. júlí 2019 „veist að konunni með ofbeldi, er hún vakti hann inni í svefnherbergi og svo inni í stofu slegið hana í andlitið með flötum lófa og krepptum hnefa þannig að hún hlaut marbletti og glóðaraugu.“

Við lestur dómsins má sjá að ofbeldið stigmagnast með tímanum með líkamsárásum, nauðgunum, andlegu ofbeldi, hótunum og ásökunum um framhjáhald konunnar, meðal annars á brúðkaupsnótt þeirra 24. júní 2021, þar til laugardaginn 25. febrúar þegar hann gengur í skrokk á brotaþola með þeim afleiðingum að hún þurfti á bráðaaðgerð að halda. Var maðurinn handtekinn þann dag eins og áður sagði og hefur setið í gæsluvarðhaldi síðan. Í 1. lið ákærunnar segir: 

„Að morgni laugardagsins 25. febrúar 2023 veist með ofbeldi að A og haft við hana kynferðismök önnur en samræði án hennar samþykkis, með því að hafa slegið hana ítrekað í andlit og höfuð, kastað innanstokksmun í höfuð hennar, hrint henni í gólfið og þar ítrekað og víðsvegar sparkað í og traðkað á líkama hennar þar sem hún lá, skyrpt á hana og haldið henni fastri í gólfinu, m.a. með því að setja hné sitt á bringu hennar, þrengt að hálsi hennar þannig að hún átti erfitt með að anda, lamið og klipið hana á nára og kynfærasvæði, á rass og á innanverð læri, rifið utan af henni buxur og nærbuxur og stungið hönd sinni eða öðrum hlut ítrekað djúpt inn í leggöng hennar og endaþarm, allt með þeim afleiðingum að A hlaut grunnt gapandi sár á hnakka, sprungna neðri vör, mar á vinstra augnloki, kúlu á vinstri augabrún, mar og kúlur í hársverði, rispur vinstra megin á enni, mar 2 á hægra eyra og húðblæðingu aftan eyrans, mar á hægri og vinstri kinn og húðblæðingu bakvið vinstra eyra, mar við kjálkabarð vinstra megin frá höku að eyra og hægra megin á höku, mar á hálsi hægra megin og nokkuð fram á miðju hálsins, mar yfir neðsta hluta höfuðvendi vöðvans sem gekk niður yfir viðbeinssvæðið hægra megin og yfir á efsta hluta hægri brjóstkassans, mar á vinstri hlið hálsins, mar á hægra brjósti og efst á brjóstinu út að öxl, mar á vinstra og hægra nárasvæði og efst á vinstri hluta klyftarhæðarinnar, mar á innanverðum lærum, sár miðlægt á hægri innri skapabarmi, í botni sársins, sem gapir, sást rauður og rakur vefur, mar á vinstri og hægri rasskinn, tvær til þrjár húðsprungur við endaþarmsopið, mar á hægra handarbaki, vinstri úlnlið, vinstri framhandlegg og á vinstri upphandlegg, mar á hægri og vinstri fótlegg, þrjú rifbeinsbrot, auk þessa missti hún hægðir við atlöguna og hlaut lífshættulegan áverka þegar smágirni rofnaði, mældist rofið um 2 sentimetrar, og í kviðnum sást frír vökvi og þarmainnihald ofan lifrar og í grindarholi, þá voru víða merki um lífhimnubólgur.“

Dómurinn er langur, alls 60 blaðsíður og er farið ítarlega yfir hvern lið ákærunnar, en um einn þriðji hluti dómsins tekur fyrir ákærulið 1. 

Sérfræðingar segja ofbeldið hafa haft og muni hafa víðtæk áhrif á brotaþola

Sérfræðingar báru vitni fyrir dómi og sagði sálfræðingur sem brotaþoli hefur gengið til atburðinn [þann 25. febrúar] sem og „fleiri meint ofbeldisatvik af hendi meints geranda í sambandinu hafa haft víðtæk áhrif á líðan brotaþola og ekki hægt að segja til með vissu hver áhrif meints brots verða þegar til lengri tíma er litið.“ 

Geðlæknir greindi frá að í heimsókn til hans í byrjun nóvember 2022 hafi brotaþoli sagst búa við stöðugt andlegt ofbeldi af hálfu ákærða og hún þurfi að sitja og standa eins og hann vilji en annars verði hann reiður, skammi hana og geri lítið úr henni. Þá lýsti brotaþoli því fyrir geðlækninum að hún væri mjög mótfallin endaþarmsmökum því þau yllu henni óþægindum og ómældum sársauka en ákærði segði allt kynlíf þeirra ónýtt ef hann fengi ekki að stunda endaþarmsmök með brotaþola.

Mat geðlæknis um ákærða

Geðlæknir var dómkvaddur til að framkvæma geðrannsókn á ákærða, var hann metinn sakhæfur en geðlæknirinn tiltók að ákærði hafi verið ölvaður á verknaðarstundu [þann 25. febrúar] og hafi borið við minnisleysi um hluta atburðarrásarinnar. Sagði geðlæknirinn að ákærði glími við ákveðinn áfengisvanda og vanda vegna notkunar örvandi efna samhliða því að rökstuddur grunur sé um að hvatastjórn sé ekki í lagi og erfiðleikar með skap sé til staðar. 

Geðlæknirinn sagði engin merki um það að ákærði hafi verið ófær um að stjórna gerðum sínum á verknaðarstundu 25. febrúar 2023. Ákærði hafi borið við minnisleysi um hluta atburðarins en ekki sé ljóst hvort það hafi verið vegna minnisbælingar eða áfengisáhrifa. Ákærði hafi neytt áfengis og örvandi efna þennan dag.

Aðalmeðferð í málinu stóð yfir í fjóra daga og báru margir einstaklingar nátengdir ákærða og brotaþola vitni fyrir dómi: afi ákærða, fyrrum sambýliskona og barnsmóðir ákærða, faðir og sonur brotaþola, nágranni ákærða og brotaþola, auk fleiri vitna, þar á meðal lækna.

Fyrrum sambýliskona og barnsmóðir ákærða sagði skilnað þeirra hafa verið ljótan og ákærða hata hana. Sagði hún ákærða hafa beitt hana miklu andlegu ofbeldi í sambúð þeirra.

Sjá einnig: Hryllingur á brúðkaupsnótt – Réttað verður í óvenjulega óhugnanlegu heimilisofbeldismáli í ágúst

Ákærði hringdi í Neyðarlínuna og bar við heimilisofbeldi

Í dómnum kemur fram að ákærði hringdi í Neyðarlínuna um kl. 06:30 laugardaginn 25. febrúar 2023 og sagði erindið vera heimilisofbeldi milli hans og konu hans og að þau hefðu ráðist á hvort annað. 

Á vettvangi mætti lögreglan ákærða í annarlegu ástandi, undir áfengisáhrifum og berum að ofan. Hann var með áverka það er klórför og blóðblettir voru á gallabuxum hans sem hann gat ekki gefið skýringu á. Ákærði skýrði lögreglumönnum frá því að hann hafi verið að slást við eiginkonu sína, hún hafi rokið út hálfnakin og hann hefði áhyggjur af henni. Þau hafi verið að stunda kynlíf en eiginkonan þá farið að spyrja ákærða út í fortíð hans og hún þá ,,snappað“ og ráðist á ákærða. Eftir að brotaþoli fannst var ákærði handtekinn.

Brotaþoli fannst  í annarlegu ástandi aðeins klædd í náttkjól, með mikla áverka meðal annars í andliti og búin að missa hægðir. Hún var í miklu uppnámi, mjög hrædd og vildi í fyrstu ekki ræða við lögreglu. Á sjúkrastofu greindi brotaþoli lögreglu frá því að hún hafi búið með ákærða í fjögur ár og hann hafi allt þeirra samband beitt hana andlegu, líkamlegu og kynferðislegu ofbeldi. Hann hafi fyrst beitt hana ofbeldi í júní 2019 og reglulega eftir það. Ákærði hafi hótað að drepa brotaþola og svo sjálfan sig ef hún myndi skýra frá ofbeldinu. 

Við húsleit fundust blóðblettir á nokkrum stöðum á heimili ákærða og brotaþola, og var lagt hald á blóðugan fatnað og blóðugt armbandsúr, fartölvur, Apple ipad og Apple tv.

Bar við sjálfsvörn

Í skýrslutöku hjá lögreglu sama dag og atvikið varð sagði ákærði að um sjálfsvörn hafi verið að ræða af hans hálfu þar sem brotaþoli hafi ráðist á hann. Þau hafi farið út að borða, komið heim um nóttina, bæði búin að neyta áfengis og brotaþoli hafi ráðist á hann á heimili þeirra. Hann hafi ýtt henni frá sér og þegar hann hafi snúið sér við hafi hún verið farin út og hann hringt á lögreglu. Gat hann engar skýringar gefið á áverkum brotaþola eða hvernig hún hefði fengið þá. 

Ákærði neitaði því að hafa beitt brotaþola andlegu ofbeldi og hann hafi ekki heldur beitt hana líkamlegu ofbeldi meðan á sambandi þeirra hafi staðið.

Læknar sögðu brotaþola heppna að lifa af

Brotaþoli var flutt á bráðamóttöku Landspítalans morguninn 25. febrúar. Í ítarlegri skýrslu LSH er lýst meðferð og framvindu hjá brotaþola frá þeim degi til 6. mars 2023. Þar kemur fram að þörf hafi verið á bráðri aðgerð og í henni hafi komið í ljós vökvi og þarmainnihald í kvið og það var einnig fyrir ofan lifur. Um hafi verið að ræða grafalvarlega og lífshótandi áverka. Í raun hafi brotaþoli verið heppin að lifa þetta af.

Í réttarlæknisfræðilegri matsgerð dagsettri 13. mars 2023 mat réttarmeinafræðingur áverka brotaþola það alvarlega að ef brotaþoli hefði ekki komist undir læknishendur sé næsta víst að hún hefði látið lífið innan dags frá árásinni vegna yfirvofandi lífhimnubólgu og blóðeitrunar sem hafi hlotist af áverkanum á þarminn. Ef tak annars manns um háls brotaþola hafi leitt til meðvitundarskorts megi segja að brotaþoli hafi verið sett í lífshættulegt ástand.

Í samantekt tveggja lækna, kvensjúkdómalæknis og skurðlæknis, sem framkvæmdu bráðaaðgerð á brotaþola segir: 

„við komu á LSH hafi brotaþoli verið í bráðri lífshættu. Hún hafi verið með alvarlega áverka víða á líkamanum sem hafi passað vel viðsögu hennar. Tölvusneiðmynd hafi sýnt rifbrot og innvortis áverka með rof á görn. Brotaþoli hafi þurft að fara í lífsbjargandi skurðaðgerð. Rof á smágirni eins og hjá brotaþola geti eingöngu komið við mikinn sljóan (e. blunt) áverka á kvið svo sem við högg/spörk/slæmt fall. Þessi áverki einn og sér sé lífhættulegur en þá sé ekki tekið tillit til annarra áverka á brotaþola svo sem hálsáverka/kyrkingu. Þá segir að um hafi verið að ræða grófa og lífshættulega líkamsárás þar sem brotaþoli hefði látist án skurðaðgerðar. Frekari líkamlegar afleiðingar af rofi á þarmi muni geta birst hvenær sem er á lífsleið brotaþola.“

Að aðgerð lokinni var brotaþoli flutt á gjörgæslu þar sem hún dvaldi í um tvo mánuði, meðal annars vegna verkja.

Neitaði sök

Ákærði neitaði sök hvað varðaði ákærulið 1, fyrir utan það að hafa hrint brotaþola með þeim afleiðingum að hún hafi dottið á skáp og í gólfið. Hann kvaðst ekki hafa valdið þeim áverkum á brotaþola sem hún var með. Fyrir dómi sagði brotaþoli að ákærði hafi verið stjórnlaus og djöfull í mannsmynd.

Í niðurstöðu dómara hvað varðar ákærulið 1 segir að ekki sé hægt að byggja á framburði ákærða við úrlausn málsins. „Ákærði hefur í raun ekki gert annað með framburði sínum en að reyna að fegra sinn hlut og í raun verra en það með fullyrðingum um ofbeldi af hálfu brotaþola gagnvart ákærða og um geðveiki h ennar sem eigi að skýra það hvers vegna hún sé að bera ákærða röngum sökum. Ekkert bendir til annars en að þessar fullyrðingar ákærða séu tilhæfulausar og þar með rangar. Framburður ákærða er því ótrúverðugur og fær enga stoð í rannsóknargögnum málsins né framburðum vitna. Er því ekki á framburði ákærða byggjandi við úrlausn málsins.“

Taldi dómari hafið yfir skynsamlegan vafa og sannað að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem lýst er í 1. tölulið ákæru og með þeim afleiðingum sem þar er lýst. Ákærði var því fundinn sekur um nauðgun, alvarlega líkamsárás og stórfellt brot í nánu sambandi.

Bar því við að þau stunduðu „röff“ kynlíf

Undir ákærulið 2 þar sem ákærði beitti brotaþola líkamlegu ofbeldi og nauðgun nóttina eftir afmæli brotaþola bar ákærði því við að þau hefðu stundað „röff“ kynlíf með samþykki beggja eins og þau hafi oft gert. Hugmyndina að ,,röff“ kynlífi hafi brotaþoli átt og það hafi stundum séð á þeim báðum eftir að þau hafi stundað slíkt kynlíf.

Ákærði kvaðst einnig hafa notað kodda á brotaþola og sett kodda yfir höfuðið á henni og haldið honum við andlit brotaþola í 20 – 30 sekúndur. Þetta hafi allt verið hluti af leiknum en síðan hafi hann haft samfarir við brotaþola aftan frá í leggöng með hennar samþykki þó ákærði hafi ekki verið í stuði til þess.

Ákærði kannaðist ekki við að hafa beitt brotaþola ofbeldi þessa nótt, ekki sparkað í hana, slegið hana, kýlt hana né hellt yfir hana bjór, ekki að hafa sagt brotaþola að fara til einhvers manns eða að hafa kallað hana 15.000 króna hóru. Hann hafi ekki rifið hana úr fötunum né troðið höfðinu á henni ofan í klósettskálina eða hent henni inn í sturtu. Þá hafi ákærði ekki látið brotaþola standa hálfnakta við opna útidyrahurð. Ákærði kannaðist við að hafa sagt brotaþola að vera glennt og hann hafi hugsanlega einnig sagst ætla að taka mynd en þetta ásamt fleiri ummælum hafi allt verið hluti af leiknum. Ákærði kvaðst ekki vita hvers vegna brotaþoli væri að bera þessar sakir á sig  nema vegna þess að hún væri geðveik. 

Þrjár upptökur úr Apple úri brotaþola sem hún bar á sér þetta kvöld studdu frásögn hennar sem metinn var trúverðug um að samræði og önnur kynferðismök hefðu verið án hennar samþykkis. Var ákærði fundinn sekur um nauðgun og stórfellt brot í nánu sambandi.

Dómari tiltekur að orð standi gegn orði 

Í niðurstöðu hvað varðar ákærulið 3 tiltekur dómari sérstaklega að um það tilvik standi orð gegn orði líkt og oft er í kynferðisbrotamálum:

„Hér eins og í svo mörgum málum af sambærilegum toga standa orð brotaþola gegn orðum ákærða þar sem ekki er til að dreifa vitnum og að litlu eða engu leyti öðrum sönnunargögnum meðal annars vegna þess að brotaþoli hefur ekki leitað sér aðstoðar strax í kjölfar brots.“

Heldur dómari áfram og segir að í málinu sé „ákært vegna tilvika þar sem brotaþoli man sérstaklega eftir atvikum af tilgreindum ástæðum svo sem vegna alvarleika brotsins, vegna tímasetningar brotsins til dæmis vegna afmælis eða nýársdags, í aðdraganda brotsins hafi ákveðinn eða ákveðnir einstaklingar verið staddir á heimili ákærða og brotaþola eða brotið er sterkt í huga brotaþola af öðrum ástæðum.“ Brotaþoli muni eftir atvikinu þar sem það hafi verið í síðasta sinn sem ákærði beitti hana líkamlegu ofbeldi fyrir afmæli hennar, eða það ofbeldi sem greint er frá í ákærulið 2.

Taldi dómari framburð brotaþola trúverðugan, „en andspænis honum stendur neitun ákærða sem virðist tilkomin vegna þess að hann sé að reyna að fegra sinn hlut. Þykir framburður ákærða ekki trúverðugur.“

Fjöldi rannsóknargagna studdi trúverðugan framburð brotaþola

Meðal rannsóknargagna málsins var að finna gögn sem bentu til þess að ákærði hafi beitt brotaþola andlegu, líkamlegu og kynferðislegu ofbeldi meðan á sambandi þeirra stóð. Í farsíma brotaþola fundust skilaboð sem hún hafði sent til móður ákærða og annarra einstaklinga nátengdum honum, bæði með sms og Messenger á Facebook, þar sem brotaþoli greindi frá ofbeldi ákærða með myndum af áverkum af hans hálfu. Brotaþoli bjó einnig til minnismiða í síma sínum. Í farsíma brotaþola fundust einnig skilaboð til ákærða sem bentu til ofbeldishegðunar af hans hálfu og þá helst andlegs ofbeldis.

Á iPhone síma brotaþola mátti sjá að 6. nóvember 2022 setti hún nafnlausa færslu á Facebook í hópnum ,,Baráttuhópur gegn ofbeldismenningu“. Þar segist brotaþoli vera föst í hjónabandi þar sem hún verði fyrir andlegu ofbeldi á hverjum degi og einnig hafi verið um líkamlegt ofbeldi að ræða. Hún lifi í kvíða og hræðslu ,,um að hann klári dæmið“ og hún sé búin að þróa með sér ofsakvíða. Hann geri lítið úr henni alla daga og hún eigi ekkert bakland og viti ekki hvert hún eigi að snúa sér. Hún þurfi að setja nafnlausa færslu inn á Facebook til að fá ráð eitthvað sem hana hafi aldrei órað fyrir en hún hafi haldið að hún hafi fundið draumaprinsinn. Hún geti ekki meir og langi að hverfa. Fyrstu ráðleggingarnar séu líklega að skilja við hann en það sé meira en að segja það. Hún sé orðin 40 ára og það segi eflaust margt um hana að hún sé hrædd heima hjá sér en það sé ekki eðlilegt. Hann sé vondur við hana og hún spyr hvort hann muni leggja hendur á hana í dag eða fái hún hitt ,,trítið“. Þá segir hún að hann skoði símann hennar.

Fljótlega eftir að samband ákærða og brotaþola hófst fundust skilaboð í síma hennar sem bentu til andlegs ofbeldis af hálfu ákærða. Brotaþoli virðist byrja í júní 2019 að setja út á hegðun hans og í nóvember sama ár nefnir hún að ákærði sé með andlegt ofbeldi gagnvart henni. Í maí 2020 segir hún ákærða að hætta að segja svona ógeðslega hluti við sig og hann sé að reyna að brjóta hana niður. Í mars 2022 segir brotaþoli að andlega ofbeldi ákærða gagnvart henni sé orðið ágætt og í ágúst sama ár segir hún að hún eigi ekki að þurfa að eiginmaður hennar noti svona viðbjóðslegan orðaforða.

Í fartölvu brotaþola fundust ljósmyndir sem voru teknar frá janúar 2020 til júlí 2021 og sýna áverka á henni meðal annars á andliti, hálsi, brjósti, handleggjum, fingrum, fótleggjum, baki, lend og afturenda (rassi). Aðallega er um að ræða marbletti og litabreytingar á húð. Allt bendir til þess að þessar myndir sýni áverka af völdum ákærða og taldi dómari það í samræmi við trúverðugan framburð brotaþola.

Ákærði neitaði að hafa beitt eiginkonuna ofbeldi og sagði hana athyglissjúka

Fyrir dómi sagði ákærði það ekki rétt að hann hafi beitt brotaþola andlegu ofbeldi á því tímabili sem ákæran tekur til. Samband ákærða og brotaþola hafi verið gott en upp og niður og ,,allur pakkinn“. Hann sagðist örugglega hafa einhvern tímann sagt eitthvað ljótt við brotaþola en hann hafi ekki smánað hana né sakað hana um lauslæti. Brotaþoli hafi hins vegar beitt ákærða ofbeldi og þá vegna þess að hann hafi sofnað en ekki mátt það. Hún hafi einnig slegið ákærða með tösku og brotið á honum tána. Sagði ákærði að brotaþoli hafi verið í mikilli áfengis- og vímuefnaneyslu og hún þurfi alltaf að vera númer eitt og sé með athyglissýki. Ákærði kannaðist við að hafa fengið neikvæð skilaboð frá brotaþola en þau hafi ekki átt rétt á sér.

Heimilisofbeldi ekki einkamál fjölskyldna heldur varði samfélagið allt

Í niðurstöðu dómsins rekur dómari ákvæði 218. greinar b í almennum hegningarlögum, sem bætt var við lögin árið 2016. Í greinargerð með frumvarpinu er rakið hvernig afstaða löggjafans til sérrefsiákvæðis um ofbeldi í nánum samböndum og heimilisofbeldi hafi breyst og sterkrefsipólitísk og samfélagsleg rök standi nú til þess að setja sérstakt ákvæði um efnið.

„Mikilvægt sé að löggjafinn viðurkenni sérstöðu slíkra brota og að heimilisofbeldi sé ekki einkamál fjölskyldna heldur varði samfélagið allt. Tryggja þurfi þeim sem búa við alvarlegt eða endurtekið ofbeldi af hálfu nákominna meiri og beinskeyttari réttarvernd.

Líta þurfi til tengsla þolanda og geranda og þess rofs á trúnaðarsambandi og trausti þeirra á milli sem í háttseminni felist. Þá kemur fram að það sé meginmarkmið ákvæðisins að leggja áherslu á það ógnarástand sem þessi tegund ofbeldis geti skapað og þá langvarandi andlegu þjáningu sem því geti fylgt. Því sé þannig fyrst og fremst ætlað að ná yfir háttsemi sem staðið hafi yfir í lengri eða skemmri tíma þótt því yrði jafnframt beitt um einstök alvarleg tilvik.“

Taldi ákærða ekki eiga neinar málsbætur

Í dómnum kemur fram að ákærði hefur ekki áður hlotið refsidóm sem skiptir máli við ákvörðun refsingar. 

„Fyrir utan það á ákærði sér engar málsbætur og hann hefur unnið sér til refsingar. Ákærði misnotaði freklega yfirburðastöðu sína gagnvart brotaþola og hún bjó við ógnarástand í langan tíma. Ákærði hefur verið sakfelldur fyrir fjórar nauðganir… Brot ákærða eru alvarleg og beindust að lífi brotaþola, andlegri sem líkamlegri heilsu hennar og kynfrelsi. Brotin stóðu yfir í langan tíma og ákærði skeytti engu um afleiðingar brota sinna. Hann lét sér í léttu rúmi liggja hvaða áhrif þau hefðu á heilsu brotaþola en fullyrða má að þau munu hafa langvarandi neikvæð áhrif á heilsu hennar bæði andlega og líkamlega,“ 

segir í dóminum  og taldi dómari þannig hæfilega refsingu ákærða átta ára fangelsi, en til frádráttar henni kemur með fullri dagatölu gæsluvarðhaldsvist sem ákærði hefur sætt óslitið frá 25. febrúar 2023.

Dóminn sem er ítarlegur og langur má lesa hér, en varað er við lýsingum í dóminum.

Lokað er fyrir athugasemdir
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 15 klukkutímum

Mannskæður hernaður Rússa í Úkraínu – „Við nálgumst tölur eins og voru í síðari heimsstyrjöldinni“

Mannskæður hernaður Rússa í Úkraínu – „Við nálgumst tölur eins og voru í síðari heimsstyrjöldinni“
Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Sýknaður að hluta eftir bílaeltingaleik í Kjós – Þótti ekki líklegur til stórræða á 19 ára gömlum bíl

Sýknaður að hluta eftir bílaeltingaleik í Kjós – Þótti ekki líklegur til stórræða á 19 ára gömlum bíl
Fréttir
Í gær

Vilhjálmur bendir á hvað vaxtahækkun Íslandsbanka þýðir fyrir 45 milljóna króna lán

Vilhjálmur bendir á hvað vaxtahækkun Íslandsbanka þýðir fyrir 45 milljóna króna lán
Fréttir
Í gær

Kröfur í bú veitingastaðarins Héðins reyndust mun meiri en áður var talið

Kröfur í bú veitingastaðarins Héðins reyndust mun meiri en áður var talið
Fréttir
Í gær

Gosið fór yfir Grindavíkurveg í nótt – Fer 300 metra á klukkustund

Gosið fór yfir Grindavíkurveg í nótt – Fer 300 metra á klukkustund
Fréttir
Í gær

Er þriðja heimsstyrjöldin í uppsiglingu? Hvað segja sérfræðingar?

Er þriðja heimsstyrjöldin í uppsiglingu? Hvað segja sérfræðingar?