fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Fréttir

Ásmundur fær á baukinn vegna sameiningar – „Ótrúlega snautt, skammsýnt og vitlaust“

Kristinn H. Guðnason
Miðvikudaginn 6. september 2023 19:00

Áætlanir Ásmundar hafa vakið hörð viðbrögð. Meðal annars frá fyrrverandi stúdentum MA.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Áætlanir Ásmundar Einars Daðasonar, mennta- og barnamálaráðherra, um að sameina Menntaskólann á Akureyri og Verkmenntaskólann á Akureyri hafa víð fallið í grýttan jarðveg. Kennararar, þingmenn og fyrrverandi stúdentar gagnrýna áætlanirnar sem ráðgjafafyrirtækið PwC hefur reiknað út að spari ríkinu 400 milljónir króna á ári.

Áætlanirnar voru kynntar á fundi með nemendum og starfsfólki skólanna í gær. Skólameistarar MA og VMA lýstu báðir ánægju með fyrirhugaða sameiningu. Þessi sameiningarhugmynd var ein af fjórum sem til skoðunar hafa verið síðan í sumar. Hinar eru sameining Kvennaskólans og MS, Flensborgar og Tækniskólans í Hafnarfirði og Fjölbrautaskóla Suðurnesja og Keilis.

 

Námið og félagslífið fletjist út

„Ég tel í fljótu bragði að þessar áætlanir séu slæmar. Ef það á að gera tilraun, af hverju að gera hana á þessum tveim skólum fyrst?“ segir Logi Már Einarsson, Akureyringur og þingmaður Samfylkingarinnar í samtali við DV. En hann hefur átt börn í báðum skólum og segir þá hafa reynst þeim frábærlega.

„Þar voru ólíkar væntingar og þarfir sem þau börn þurftu. Ég óttast að þetta fletjist út. Að of mikil stærð og of mikil krafa um samræmingu leiði til þess að framboðið verði einsleitara,“ segir Logi. En um 1800 nemendur verða í hinum nýja skóla.

Logi bendir á að skólarnir séu mjög ólíkir. Annar sé hefðbundinn bóknámsskóli þar sem nemendur séu á svipuðum aldri og hafi sérstakan skólabrag. Hinn er sveigjanlegur og nemendurna á mjög ólíkum aldri.

Á höfuðborgarsvæðinu séu fjölmargir framhaldsskólar en aðeins tveir á Akureyri. Ef sameiningin heppnast illa sé búið að taka valkostinfgn af norðlenskum börnum.

Logi segir borðleggjandi að það geti falist tækifæri í meiri samvinnu skólanna en sameining sé óráð. Ekki aðeins vegna námsins heldur einnig félagslífsins, sem séu mikilvægur partur af því að vera unglingur. „Ég hef áhyggjur af því að félagslífið fletjist út því það er mjög ólíkt í hvorum skólanum fyrir sig,“ segir hann.

 

Skammsýni og einsleitni

Nemendafélag MA stóð fyrir mótmælum á Ráðhústorginu síðdegis í dag. Þar stóð stór hópur nemenda með skilti sem meðal annars stóð á „Ásmundur segðu af þér“ og „Ásmundur einræðisherra.“

Þá hefur verið stofnuð Facebook síða undir yfirskriftinni „Stöðvum áform um sameiningu MA og VMA.“ Þegar þetta er skrifað hafa um 900 manns skráð sig í hópinn.

Fjölmargir hafa skrifað á samfélagsmiðla og lýst vanþóknun sinni á sameiningunni. Meðal annars Guðfinnur Sigurvinsson, fyrrverandi fréttamaður og formaður Skólafélags MA.

„Sem stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri og fyrrverandi Inspector Scholae lýsi ég yfir afdráttarlausri og eindreginni andstöðu við að sameina MA og VMA með hagsmuni beggja skóla í huga,“ segir Guðfinnur. Vísar hann bæði til sögu skólanna og hversu ólíkir þeir séu.

„Ótrúlega snautt, skammsýnt og vitlaust að láta sér detta í hug að steypa skólunum saman undir einn hatt og einsleita stjórn. Lýsandi fyrir ráðherrann og stýrihópinn sem þarna standa að málum enda hef ég ekkert traust til þessa fólks né nokkurt álit á því,“ segir Guðfinnur.

Annar fyrrverandi stúdent frá MA, Aldís Hafsteinsdóttir sveitarstjóri í Hrunamannahreppi, tekur í sama streng.

„Sumt gerir maður bara ekki! Sem stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri lýsi ég yfir ákafri og eindreginni andstöðu við fyrirhugaða sameiningu MA og VMA,“ segir Aldís. Ótrúlega skammsýnt að láta sér detta í hug að sameina þessa skóla. Menntaskólinn á Akureyri á betra skilið – Akureyri á betra skilið!“ segir Aldís.

 

Fækkað á landsbyggð en fjölgað í Reykjavík

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra, segist í færslu ekkert lítast á sameininguna.

„Um leið og ráðherrann tilkynnti um sameiningu skólanna var sagt frá því að strax yrði farið í að skoða kosti og galla sameiningar. Hefði ekki verið betra að klára það fyrst?“ spyr Sigmundur.

Sigmundur segist óttast um afdrif verknámsins í sameiningunni. Einnig spyr hann ef þessi tveir skólar teljist ekki nógu stórir til að vera sjálfstæðir hvað þá um aðra minni skóla á landsbyggðinni.

„Er ekki bara best að leyfa þessum góðu skólum að halda sjálfstæði sínu og kostum þess og efla þá hvorn um sig en auka um leið samstarf? Fremur en að gera þá að fórnarlömbum hins endalausa áhuga kerfisins á að sameina og fækka á landsbyggðinni á sama tíma og umfang kerfisins vex stöðugt í Reykjavík,“ segir Sigmundur að lokum.

 

Metnaðarleysi ráðherra

Þá hafa einnig verið skrifaðar greinar í blöð um málið. Ein af þeim birtist í Vikudegi fyrir norðan, skrifuð af Ástu F. Flosadóttur, verkefnastjóra fjölskyldumála hjá Þingeyjarsveit. En hún hefur kennt í báðum skólum og hefur átt barn í báðum skólum.

„Ég á barn sem stundaði nám í MA og naut þess. Barn sem þurfti á bekkjarkerfinu og hefðunum að halda. Svo á ég barn sem stundar nú nám í VMA og nýtur þess í botn. Í báðum tilfellum var auðvelt að beina þeim í rétta skólann. Bæði fengu það sem þau þurftu og það án þess að þurfa að flytjast úr landshlutanum. Mér finnst það ferleg tilhugsun að sá yngsti muni ekki hafa sama val. Stórkostleg afturför,“ segir Ásta í greininni.

„Og nemendur MA hafa greinilega séð í gegnum ráðabrugg ráðherra; þetta snýst nefnilega bara um að spara. Það lýsir skammsýni og metnaðarleysi sem ég hélt satt að segja að þessi ráðherra væri ekki hrjáður af.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Hvar er Svanberg? – Telur elskhuga eiginkonu Geirfinns hafa lykilupplýsingar í málinu – Hefur farið huldu höfði í Þýskalandi

Hvar er Svanberg? – Telur elskhuga eiginkonu Geirfinns hafa lykilupplýsingar í málinu – Hefur farið huldu höfði í Þýskalandi
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Lögfræðingur segir lögregluna á Suðurnesjum hafa gert ólöglega húsleit á heimili hans – „Ég er reiður“

Lögfræðingur segir lögregluna á Suðurnesjum hafa gert ólöglega húsleit á heimili hans – „Ég er reiður“
Fréttir
Í gær

Ákærður fyrir kynferðisbrot gegn systur sinni á árunum 2003 til 2007

Ákærður fyrir kynferðisbrot gegn systur sinni á árunum 2003 til 2007
Fréttir
Í gær

Vilhjálmur bendir á hvað vaxtahækkun Íslandsbanka þýðir fyrir 45 milljóna króna lán

Vilhjálmur bendir á hvað vaxtahækkun Íslandsbanka þýðir fyrir 45 milljóna króna lán
Fréttir
Í gær

Er þriðja heimsstyrjöldin í uppsiglingu? Hvað segja sérfræðingar?

Er þriðja heimsstyrjöldin í uppsiglingu? Hvað segja sérfræðingar?
Fréttir
Í gær

Segir að Kim Jong-un hafi Pútín að fífli

Segir að Kim Jong-un hafi Pútín að fífli
Fréttir
Í gær

Ákærð fyrir stórfellda líkamsárás á starfsmann Vinakots

Ákærð fyrir stórfellda líkamsárás á starfsmann Vinakots
Fréttir
Í gær

Salka Sól sendir borgarstjóra væna pillu – „Þú situr bara víst við þetta samningsborð Einar!“

Salka Sól sendir borgarstjóra væna pillu – „Þú situr bara víst við þetta samningsborð Einar!“