Karlmaður sem slasaðist í Eyjafirði í gær var látinn þegar björgunarsveitarmenn komst til hans hátt í hlíðum Hagárdals að norðanverðu. Mjög erfiðlega gekk að komast til mannsins og þá var ekki hægt að notast við þyrlu Landhelgisgæslunnar vegna misvinda í dalnum og mikils uppstreymis.
Þegar viðbragðsaðilar komust til mannsins tók við flókin fjallabjörgunaraðgerð þar sem færa þurfti manninn niður eina 500 metra í mjög brattri hlíð og bera hann síðan tæplega þrjá km niður dalinn að flutningstæki sem þar var.
Í tilkynningu frá Lögreglunni á Norðurlandi eystra segir að aðgerðum hafi lokið upp úr klukkan ellefu í gærkvöldi. Útkallið barst upprunalega klukkan þrjú. Rannsókn atviksins er í höndum lögreglu.