Margir íbúar í miðbæ Hafnarfjarðar lýsa minni vatnsþrýstingi á hitaveituvatninu eftir stóra framkvæmd Veitna í ágúst. Veitur greina eðlilegan þrýsting.
Ný heitavatnslögn var tengd dagana 21. til 23. ágúst síðastliðinn. Var heitavatnslaust í öllum Hafnarfirði og hluta Garðabæjar í um einn og hálfan sólarhring á meðan framkvæmdunum stóð.
Þetta er hluti af miklum framkvæmdum sem hafa staðið yfir við göturnar Álfaskeið og Sólvangsveg í Hafnarfirði síðan í nóvember á síðasta ári. Stefnt er að því að þeim ljúki í haust. Verið er að endurnýja stofnlagnir vegna fjölgunar íbúa og markmiðið að tryggja öllum íbúum í Hafnarfirði heitt vatn til áratuga.
Ekki allir eru sáttir því samkvæmt óformlegri könnun á samfélagsmiðlum finna 57 prósent svarenda í miðbæ Hafnarfjarðar fyrir minna flæði á heita vatninu eftir framkvæmdina. 40 prósent segjast hafa sama flæði en aðeins 3 prósent segjast hafa meira. Þegar þetta er skrifað hafa rúmlega 80 manns svarað.
„Tengingin á nýrri heitavatnslögn í Hafnarfirði gekk vel og stjórnkerfi Veitna sýnir eðlilegan þrýsting á heita vatninu í bænum,“ segir Rún Ingvarsdóttir, samskiptastýra Veitna.
Rún segir að nokkrir lekar hafi orðið í kjölfar tengingarinnar og hefur verið gert við þá. Í gær var unnið að viðgerð við Lækjargötu.
„Ef fólk upplifir minni þrýsting á heita vatninu bendum við því á að hafa samband við Veitur,“ segir hún að lokum.