Tónlistarmaðurinn Jimmy Buffett er látinn, 76 ára að aldri. Hann lést í gær, föstudaginn 1. september, en í tilkynningu á Instagram-síðu hans er hann sagður hafa verið umkringdur ástvinum sínum þegar hann gaf upp öndina. Ekki var þó minnst á dánarorsök en í maí var greint frá því að Buffett hefði verið lagður inn á spítala vegna veikinda. Hann var þó útskrifaður stuttu síðar og sagði þá við fjölmiðla: „Það er ekki fyrir neina aumingja að eldast“.
Buffett fæddist í Mississippi-ríki í Bandaríkjunum á jóladag árið 1946 og gaf út fyrstu plötu sína þegar hann var 24 ára gamall. Það tók Buffett nokkurn tíma að slá í gegn en það var sjötta plata hans. Changes in Latitudes, Changes in Attitudes, sem kom honum á kortið árið 1977. Var það ekki síst að þakka smellinum Margaritaville.
Nýlega var greint frá því að Buffett væri formlega orðinn „billionaire“, það er að segja að hann ætti meira en einn milljarð bandaríkja dala. Var hann því einn af ríkustu tónlistarmönnum heims. Það var ekki síst að þakka tekjum af lögum hans og tónleikahaldi en Buffett var einnig slyngur viðskiptamaður. Þannig stofnaði hann veitingakeðju sem hét einfaldlega Margaritaville en hlutur hans í keðjunni er metinn á um 200 milljón dali.