Karlmaður sem setið hefur í gæsluvarðhaldi síðan 27. apríl síðastliðinn grunaður um að hafa banað Sofiu Sarmite Kolesnikova var leystur úr gæsluvarðhaldi í kvöld, en dæmdur í farbann.
Sofia fannst látin í heimahúsi á Selfossi fimmtudaginn 27. apríl síðastliðinn, en banamein hennar liggur enn ekki fyrir. Rannsókn málsins stendur enn yfir og beðið er endanlegrar niðurstöðu úr krufningu. RÚV greindi frá.
Maðurinn neitar sök í málinu og segir konuna hafa látist úr ofneyslu fíkniefna. Í samtali við DV þann 1. maí sagði eldri systir hennar það af og frá að andlát hennar tengdist neyslu. „Fólk er mikið farið að tala um og giska að hún hafi verið einhverskonar fíkill og það er eins fjarlægt sannleikanum og hægt er og við viljum að fólk viti það.“
Sjá einnig: Banamein Sofiu liggur enn ekki fyrir – Meintur gerandi hefur setið í varðhaldi í fjóra mánuði og neitar sök
„Það er búið að sleppa honum og þó fyrr hefði verið,“ segir Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, verjandi mannsins í samtali við Vísi .
Maðurinn sat í gæsluvarðhaldi í átján vikur, en samkvæmt lögum má halda einstaklingi í gæsluvarðhaldi í allt að tólf vikur nema mál hafi verið höfðað gegn honum eða brýnir rannsóknarhagsmunir krefjist þess.
„Ég er ánægður með það að lögreglustjórinn á Suðurlandi hafi fyrir rest áttað sig á því að það var ekki lagaskilyrði fyrir því að halda umbjóðanda mínum lengur.“