fbpx
Sunnudagur 17.nóvember 2024
Fréttir

Lækna-Tómas svarar orkubússtjóranum – „Virkjun í Vatnsdal tel ég hins vegar fáránlega hugmynd“

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 29. ágúst 2023 18:00

Tómas Guðbjartsson Mynd: Fréttablaðið

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þeir Tómas Guðbjartsson læknir og Elías Jónatansson, orkubússtjóri Vestfjarða, hafa skrifast á um vikjanahugmyndir á Vestfjörðum, í aðsendum greinum á Vísir.is.

Tómas svarar í dag síðustu grein Elíasar, sem mælti með virkjun í Vatnsdal til að leysa orkuvanda Vestfirðinga. Tómas segir að þeir tveir séu sammála um vandann en ósammála um lausnir:

„Við orkubússtjórinn erum sammála um þann orkuvanda sem Vestfirðingar hafa búið við alltof lengi, og að óásættanlegt sé að brenna þurfi díselolíu í vararafstöðum þegar röskun verður á afhendingu raforku vestur. Við erum hins vegar mjög ósammála þegar kemur að lausn vandans, en orkubússtjórinn hefur verið fremstur í flokki þeirra sem telja Vatnsdalsvirkjun nánast leysa raforkuvanda Vestfjarða. Virkjun í Vatnsdal tel ég hins vegar fáránlega hugmynd, en sem betur fer er ég ekki einn um þá skoðun að friðlandið upp af Vatnsfirði sé heilagt okkur Vestfirðingum, aðallega fyrir stórkostlega og einstaka náttúrufegurð, en einnig út frá sögulegu snjónarmiði sem rekja má aftur til landnáms Hrafna-Flóka þar. Vissulega eru það fossarnir og árgljúfrin innst í friðlandinu sem eru helstu gimsteinarnir, en með virkun yrði þeim fórnað og svæðið gjaldfellt.“

Tómas segir að umræðan um náttúruverðmæti virðist gleymast eða verið sé að fela hana. Hann segir þessa virkjunarhugmynd einfaldlega vera galna en mælir með tvöfaldri Vestfjarðalínu:

„Ég tel raunhæfustu hugmyndina til að styrkja raforkuöryggi á Vestfjörðum að tvöfalda Vestfjarðalínu, enda orðin 45 ára gömul og tréstaurarnir komnir til ára sinna. Ný lína er því hvort eð er nauðsynleg og einfaldari í framkvæmd hvað leyfi og vegagerð varðar en leggja línur yfir ný svæði. Einnig er sjálfsagt að hlúa að smávirkjunum sem hafa sannað mikilvægi sitt eins og sú í Fremri-Hvestu og framleiðir 1,4 MW inn á kerfi Orkubússins, og nægir fyrir orku til heimila á Tálknafirði og Bíldudal. Allt tal um 50-60 slíkar virkjanir þurfi til að mæta orkuþörf Vestfjarða stenst því ekki skoðun.“

Tómas undrast jafnframt þögn um fyrirhugaða Kvíslartunguvirkjun og veltir fyrir sér hvort verið sé að spila póker með náttúruperlur:

„Það er líka undarlegt að Orkubússtjóri minnist ekkert á Kvíslartunguvirkjun, en þar fara nú fram rannsóknir á umhverfisáhrifum. Eða er það viljandi gert og Orkubúið og bæjarstjórn Ísafjarðar að spila póker með Vatnsdalsvirkjun, og þannig lauma Kvíslartunguvirkjun auðveldar í gegnum Rammáætlun?“

Tómas fordæmir þau áform að fórna náttúruperlum fyrir orkufrekan iðnað en setja ætti í forgang orku til heimila og smáfyrirtækja:

„Nýlega skilaði nefnd á vegum umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra af sér skýrslu sem m.a. mat orkuþörf og orkuöflun á Vestfjörðum. Þar var hún metin 35 MW árið 2030, sem er 80% aukning frá því sem hún er í dag. Ekki kemur á óvart að í skýrslunni er vísað til Vatnsdalsvirkjunar sem álitlegs orkuöflunarkosts, enda sjást fingraför Orkuveitunnar og ráðherra á hverri blaðsíðu. Þarna er algjörlega skautað fram hjá náttúrverndarsjónarmiðum og augljóst hvernig hagsmunir stóraukins sjókvíaeldis og kalkþörungavinnslu ráða för. Í staðinn ætti að setja í forgang að tryggja orku til heimila og smáfyrirtækja. Orkuþörf sjókvíaeldis er fremur lítil og orkuskortur ekki vandamálið líkt og þandir innviðir Vestfjarða vegna veldisvaxtar greinarinnar. Síðan er full ástæða til að setja setja spurningamerki við frekari kalkþörungavinnslu á Vestfjörðum sem talin er þurfa 8-9 MW af orku, enda afar mengandi iðnaður eins og Bíldælingar reyna á eigin skinni daglega. Það er að minnsta kosti skoðun mín að fáránlegt sé að fórna náttúrperlum eins og þeim í Vatnsfirði fyrir orkusækinn iðnað, sem engan veginn getur talist grænn, og hagnaðinum þar að auki laumað úr landi til erlendra eiganda sinna.“

Sjá nánar á Vísir.is

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Dómur mildaður yfir Henry Fleischer fyrir að smygla gífurlegu magni af fíkniefnum með skútu

Dómur mildaður yfir Henry Fleischer fyrir að smygla gífurlegu magni af fíkniefnum með skútu
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sjá kjósendur af arabískum ættum eftir því að hafa kosið Trump?

Sjá kjósendur af arabískum ættum eftir því að hafa kosið Trump?