Íslenska líftæknifyrirtækið Alvotech, sem sérhæfir sig í þróun og framleiðslu líftæknihliðstæðulyfja, hefur sent frá sér fréttatilkynningu. Í henni kemur fram að fyrirtækið ásamt Bioventure, dótturfyrirtæki GlobalOne Healthcare Holding LLC, hafi verið veitt leyfi af lyfjaeftirliti Egyptalands (EDA) til framleiðslu og sölu á AVT02, líftæknilyfjahliðstæðu Alvotech við Humira (adalimumab), sem notað er til meðferðar við liðagigt og öðrum bólgusjúkdómum. Líftæknilyfjahliðstæðan verður markaðssett undir heitinu Adalimumab-EVA í Egyptalandi.
Í tilkynningunni segir að líftæknilyfjahliðstæða sé lyf með sömu virkni og upprunalegt líftæknilyf. Þróun líftæknilyfja hafi á undanförnum árum leitt til framboðs af nýjum áhrifaríkum úrræðum til meðferðar ýmissa þrálátra sjúkdóma. Þegar líftæknilyfjahliðstæða komi á markað leiði það oftast til þess að kostnaður lækki og sjúklingar eigi greiðari aðgang að lyfinu.
Haft er eftir Róbert Wessman, stjórnarformanni og forstjóra Alvotech:
„Það er okkur mikil ánægja að fá markaðsleyfi fyrir AVT02 í Egyptalandi. Markmið Alvotech er að auka aðgengi sjúklinga um allan heim að hagkvæmum líftæknilyfjum og þetta er mikilvægt skref í samstarfi okkar í Miðausturlöndum og Norður-Afríku.“
Ashraf Radwan, forstjóri GlobalOne Healthcare Holding, segir:
„Við leggjum áherslu á að bæta aðgengi að heilbrigðisþjónustu og auka velferð sjúklinga. Um leið og við fögnum markaðsleyfinu fyrir AVT02 í Egyptalandi er þetta jafnframt mikilvægur áfangi í samstarfi Bioventure og Alvotech. Bioventure einbeitir sér að því að þróa vörur og þjónustu til að bæta lífsgæði sjúklinga, og við viljum stuðla að því að sem flestir njóti ávinningsins af notkun líftæknilyfja.“
Í tilkynningunni segir enn fremur að Alvotech hafi veitt Bioventure einkaleyfi til markaðssetningar AVT02 (adalimumab) í Miðausturlöndum og Norður-Afríku, auk fleiri líftæknilyfjahliðstæða sem Alvotech sé að þróa. Leyfi til markaðssetningar og sölu hafi þegar verið veitt fyrir AVT02 í Sádi Arabíu, þar sem lyfið verður selt undir vöruheitinu Simlandi.
Um AVT02 segir í tilkynningunni að það sé einstofna mótefni og hafi þegar hlotið markaðsleyfi sem líftæknilyfjahliðstæða við Humira (adalimumab) í 27 aðildarríkjum Evrópusambandsins, á Íslandi, í Noregi, Liechtenstein, Bretlandi, Sviss, Kanada, Ástralíu, Egyptalandi og Sádi-Arabíu. Lyfið sé komið á markað í mörgum Evrópuríkjum og í Kanada. Umsóknir um markaðsleyfi eru sagðar til umsagnar í mörgum löndum.