fbpx
Sunnudagur 24.nóvember 2024
Fréttir

Ása stuggar við blaðamönnum á meðan tortryggnir nágrannar kvarta – „Ég vona að þið brennið í helvíti“

Ritstjórn DV
Sunnudaginn 27. ágúst 2023 14:03

Rex og Ása.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ása Guðbjörg Ellerup, eiginkona meinta Gilgo-raðmorðingjans, vinnur nú fullum höndum að því að koma lífinu aftur á kjölinn eftir að því var kollvarpað er eiginmaður hennar, Rex Heuermann, var handtekinn þann 13. júlí.

Ása, og fullorðin börn hennar sem enn bjuggu heima, þurftu að yfirgefa heimili sitt í tæpar tvær vikur á meðan lögregla leitaði sönnunargagna um meint ódæði Rex. Reyndi Ása að leita skjóls hjá öldruðum föður sínum en gat þó ekki hugsað sér að draga hann inn í þann gífurlega fjölmiðlastorm sem fjölskyldan var kominn í miðjuna á. Gistu Ása og börnin því í bílaleigubíl þar til þeim var leyft að snúa aftur á heimili sitt.

Heimilið allt sem þau þekkja

Um er að ræða frekar lítið og slappt einbýlishús á eftirsóttum stað á Long Island. Margir gætu velt fyrir sér hvernig fjölskyldan hafi haft efni á að koma sér upp heimili í einni dýrustu borg heimsins, en svarið við því er nokkuð einfalt – húsið er æskuheimili Rex sem hann keypti af foreldrum sínum á tíunda áratug síðustu aldar og hefur haldið þar heimili síðan. Ása flutti inn fyrir tæpum 30 árum síðan.

New York Times greinir frá því að skiptar skoðanir séu á fjölskyldunni í hverfinu. Margir nágrannar hafi lengi haft horn í síðum þeirra fyrir að eyðileggja heildarsvip hverfisins með niðurníddu húsi sínu. Nú eftir að þetta skelfilega mál hafi komið upp þá þætti mörgum eðlilegast að húsið yrði jafnað við jörðu og fjölskyldan kæmi sér þaðan burt.

Rakið er að fram að handtöku Rex hafi lítið farið fyrir fjölskyldunni. Þau hafi verið einræn, lítið látið á sér bera og átt í litlum sem engum samskiptum við nágranna sína. Nú er raunin þó sögð önnur. Dag eftir dag berist reykur frá lóð Ásu, þar sem fjölskyldan stendur í garðinum og grillar, nokkuð sem aldrei hafði áður gerst. Fjölskyldan sé meira og minna úti í garðinum þessa daganna, nágrönnum til töluverðrar furðu.

„Hver með réttu ráði myndi koma aftur í hús sem hefur órjúfanlega verið tengt við hræðilegustu atburði sem hafa gerst í þessum bæ,“ sagði einn nágranni.

Varla byrjuð að melta ákæruna

Þegar Ása sneri aftur beið hennar þyrping blaðamanna sem allir vildu fá viðtal við konuna sem er gift meintum raðmorðingja. Ása reyndi að leiða þá hjá sér, en þegar það gekk ekki greip hún til þess að senda þeim fingurinn og hækkaði róminn. Ekki gekk það betur svo síðan þá hefur hún hreinlega reynt að umbera þennan ágang, eftir að ítrekar óskir hennar um frið voru að engu virtar.

Lögmaður Ásu, Robert Macedonio, segir að Ása sé enn að einbeita sér að því að púsla lífinu saman á ný.

„Hún er varla byrjuð að melta það sem hann hefur verið ákærður um. Hún er bara enn að púsla lífinu aftur saman.“

New York Times greinir frá því að það hafi komið illa við marga að sjá Ásu brosandi að grilla sér mat í garðinum undanfarið. Það sé tiltekin óvirðing við þá alvarlegu glæpi sem maður hennar er grunaður um.

„Þau sitja þarna úti og brosa. Hún virðist ekki haga sér í neinu samræmi við aðstæður,“ sagði lögmaður tveggja kvenna sem talið er að Rex hafi mögulega banað. Rétt er að ítreka það sem áður hefur komið fram að Ása hefur farið fram á skilnað, en slíkt mun hún hafa gert einkum til að vernda hagsmuni sína gagnvart mögulegum skaðabótakröfum frá aðstandendum þeirra kvenna sem Rex er grunaður um að hafa banað. Hún mun eins vera að íhuga að stefna yfirvöldum vegna þess tjóns sem lögregla vann á heimili hennar.

Lögmaður Ásu segir að það sé einmitt þess vegna sem fjölskyldan eyði nú svona miklum tíma úti í garði – það sé hreinlega ekki búanlegt innandyra eftir framgöngu lögreglunnar þó svo að Ása hafi varið miklum tíma í að reyna að taka þar til.

Brenna í helvíti

New York Post segir að nágrannar séu tortyggnir í garð Ásu og eigi erfitt með að trúa því að hún hafi ekkert vitað um meint brot eiginmanns síns.

„Við fáum helling af pósti frá fólki sem vill hjálpa og sömuleiðis helling frá fólki sem segir – Ég vona að þið brennið í helvíti,“ sagði lögmaður barna Ásu.

„Sumir hafa samkennd og sumir segja – hvenær getum við losnað við þetta lið – en þau komast hvergi þar sem þau eiga ekki í önnur hús að vernda. Þau ætla að endurreisa líf sitt, þau ætla að gera húsið upp.“

Nágrannar óttast margir að hús Heuermann eigi eftir að verða einkennismerki nágrennisins. Yfirvöld hafa komið fyrir skiltum þar sem fólki er meinað að leggja bifreiðum eða stöðva bifreiðar í nágrenni hússins, en nágrannar segja að skiltin hafi lítið að segja eftir að Ása sneri aftur heim.

„Ég held í alvörunni að það besta fyrir alla sé að þau komi sér héðan og að húsið verði rifið niður í eitt skiptið fyrir öll,“ sagði einn nágranninn.

Hvað Ásu varðar reyndu blaðamenn að nálgast hana fyrir helgi þar sem hún var að bera hluti út í bílskúr. Hún gaf blaðamanni ekki færi á að bera upp spurningu heldur rak hann í burtu líkt og hún myndi reka hund frá sér.

„Burt, burt, við höfum of mikið að gera núna.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Stríðið milli Sjálfstæðis- og Framsóknarmanna heldur áfram

Stríðið milli Sjálfstæðis- og Framsóknarmanna heldur áfram
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sigmundur Davíð tjáir sig harkalega um VMA-málið – „Allt einhver fullkomin þvæla frá einstaklingi sem var ekki á staðnum“

Sigmundur Davíð tjáir sig harkalega um VMA-málið – „Allt einhver fullkomin þvæla frá einstaklingi sem var ekki á staðnum“