Gæsluvarðhald yfir Ástríði Kristínu Bjarnadóttur, sem grunuð er um fjársvik gagnvart fjölmörgum karlmönnum, rennur út næstkomandi föstudag, þann 25. ágúst.
Ástríður hefur setið í gæsluvarðhaldi frá 2. júní og má heita einsdæmi að sakborningur í fjársvikamáli sitji svo lengi í varðhaldi. Það eykur enn á sérstöðu málsins að gæsluvarðhald Ástríðar snýst ekki um rannsóknarhagsmuni heldur er byggt á c-lið 95. greinar laga um meðferð sakamála. Samkvæmt þessum lið má halda sakborningi í gæsluvarðhaldi ef ætla má að hann muni halda áfram brotum á meðan máli hans er ekki lokið.
Til rannsóknar eru meint svik Ástríðar gagnvart 11 karlmönnum og nema upphæðirnar samtals 25 milljónum króna. Flest bendir til að fjársvik Ástríðar séu miklu umfangsmeiri og nái a.m.k. aftur til ársins 2015. Rannsókn lögreglu hefur leitt í ljós að á undanförnum árum hafa hátt í 400 karlmenn lagt inn hjá henni samtals yfir 200 milljónir króna. Talið er að Ástríður hafi tapað öllum peningunum við fjárhættuspil.
Á föstudaginn verða liðnar 12 vikur frá því Ástríður var fyrst úrskurðuð í gæsluvarðhald. Ekki má halda sakborningi lengur en þann tíma í varðhaldi án þess að birta honum ákæru.
„Almenna reglan er sú að ef það er ekki gefin út ákæra að liðnum tólf vikum þá er viðkomandi sleppt, en við verðum bara að sjá það núna hvort gefin verði út ákæra innan þessara tímamarka, sem eru tólf vikurnar. Þegar og ef það verður gefin út ákæra þá er hægt að krefjast áframhaldandi gæsluvarðhalds á grundvelli almannahagsmuna,“ segir Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn á miðlægri rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við DV.
Nýlega var gæsluvarðhald yfir manni sem grunaður er um að hafa banað konu á Selfossi framlengt fram yfir 12 vikur þó að ákæra hafi ekki verið birt honum. Beðið er niðurstöðu krufningar og var gæsluvarðhald framlengt á grundvelli brýnna rannsóknarhagsmuna.
„Ég get svarað því strax að brýnir rannsóknarhagsmunir eiga ekki við í þessu tilviki,“ segir Grímur. „Það er bara þetta eina mál á Selfossi þar sem hefur reynt á það. Ég man ekki í fljótu bragði eftir öðrum málum þar sem hefur reynt á það.“
En er ekki fyrirsjáanlegt að Ástríður verði látin laus á föstudag? „Ég svara því hvorki já né nei, hvort það getur orðið,“ segir Grímur.
Samkvæmt heimildum DV var staða rannsóknar sú í síðustu viku að hún var langt komin en verið var að klára frágang á nokkrum málum sem senda átti saksóknara innan tíðar. Stefnt var að því að gefa út ákærur sem fyrst. Ekkert liggur fyrir um að af því verði fyrir næsta föstudag.
DV ítrekaði spurningu sína til Gríms, til að taka af öll tvímæli:
Ef það verður ekki komin ákæra fyrir föstudag þá verður hún látin laus?
„Já,“