fbpx
Þriðjudagur 16.júlí 2024
Fréttir

Átakafundur fyllti mælinn í hatrömmu ættardeilunum – Meinti hlutlausi fundarritarinn var nokkrum vikum síðar ráðinn aðstoðarmaður Ásmundar

Fókus
Mánudaginn 21. ágúst 2023 11:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hatrammar fjölskylduerjur hafa lengi átt sér stað í Dalabyggð, en málið tengist inn í stjórnarráðið þar sem um er að ræða fjölskyldu Ásmundar Einars Daðasonar, mennta- og barnamálaráðherra. Ljósi er varpað á eina hlið þessa erfiða deilumáls í hlaðvarpi sem þrjár systur, sem tengjast Ásmundi ættarböndum, hafa farið af stað með. Hlaðvarpið kallast Lömbin þagna ekki og þar segjast systurnar svipta hulunni af 15 ára ættardeilum ráðherra sem meðal annars feli í sér ofsóknir, skemmdarverk, innbrot og andlegt ofbeldi.

Þættirnir hafa vakið töluverða athygli, enda ekki á degi hverjum sem sitjandi ráðherra í ríkisstjórn er sakaður með beinum hætti um brot gegn hegningarlögum. Eins hafa systurnar harðlega gagnrýnt viðbrögð lögreglunnar við málinu eða öllu heldur aðgerðarleysi lögreglu sem hafi svarið málið af sér með vísan til þess að um fjölskyldudeilur sé að ræða sem gefi ekki tilefni til lögregluafskipta. Systurnar hafa bent á að það megi furðu sæta að lögbrot fái að viðgangast ef þau eigi sér stað innan harðvígra fjölskyldudeilna.

Forsaga málsins

Nýjasti þáttur hlaðvarpsins kom út í gær og er þar fjallað um átakafund eigenda jarðarinnar Dönustaða sem fór fram þann 28. febrúar á þessu ári. Rétt er að víkja aðeins að helstu leikendum áður en lengra er haldið.

Einar Ólafsson var bóndi á jörðinni Lambeyrum í Dalabyggð og átti hann átta börn. Hafði hann í seinni tíð stundað búskap ásamt einum syni sínum, Daða Einarssyni sem er faðir Ásmundar Einars ráðherra, og höfðu þeir stofnað félagsskap um reksturinn með skiptum eignarrétti. Þegar Einar féll frá erfðu börn hans hluta jarðarinnar og rekstursins. Svo segir að Daði hafi ekki verið lukkulegur með þessi skipti og taldi sig eiga tilkall til jarðarinnar allrar. Fór svo að Daða tókst að veðsetja jörðina töluvert, án samþykkis frá systkinum sínum, og var jörðin loks seld nauðungarsölu að ósk kröfuhafa. Þá tóku þrjú systkini Daða sig til, þeirra á meðal Skúli Einarsson, og keyptu jörðina til að halda henni í fjölskyldunni. Áður hafði Daði reist íbúðarhús á jörðinni fyrir son sinn, Ásmund Einar, og tók því óstinnt upp að fasteignin hafi fylgt jörðinni á nauðungarsölunni. Upp hófust því gífurlegar deilur og greina systurnar í hlaðvarpinu, dætur Skúla, frá því að Daði hafi ásamt öðrum bróður sínum, Valdimar Einarssyni, ítrekað brotist inn í híbýli á jörðinni, stundað skemmdarverk með gröfum, rifið upp girðingar, dreift skít við bæinn og svona mætti áfram telja.

Skammt frá Lambeyrum er jörðin Dönustaðir sem einnig tilheyrir fjölskyldunni og það var þar sem átakafundur var haldinn í febrúar. Fyrirsvarsmaður Dönustaða er frændi systranna, Böðvar Bjarki Pétursson sem er þekktur sem stofnandi Kvikmyndaskólans. Systurnar segja að á þessum fundi hafi þær endanlega fengið nóg af málinu og ákveðið að afhjúpa málið í hlaðvarpi.

Átakafundur var kornið sem fyllti mælinn

Það voru langamma og langafi systranna sem héldu bú á Dönustöðum og er jörðin nú í eigu afkomenda þeirra. Þarna í febrúar höfðu deilur bræðranna Daða og Skúla verið gífurlega hatrammar árið á undan og höfðu skemmdaverk jafnvel náð til Dönustaða. Varð það tilefni fundarins sem allir eigendur Dönustaða voru boðaðir á. Böðvar Bjarki er með umboð fyrir mikinn meirihluta eigenda, en systurnar segja að fólk virðist treysta honum fyrir einhverja óskiljanlega ástæðu.

Segir í úrdrætti þáttarins:

„Í lok nóvember 2022 er sendur póstur á Bjarka ásamt fundarefnum sem Lambeyrarsystur vilja að séu rædd. Þá svarar hann snemma í desember að hann hafi ekki kynnt sér málin og geti ómögulega haldið fund. En málið er að hann vill ekki halda fund sem lætur Daða og Valda líta illa út þannig að hann reynir að koma í veg fyrir eða fresta fundarhöldum. Hann styður Daða og Valda 100%. Lambeyrasystur svara að það sé allt í lagi að fyrirsvarsmaður sé ekki inn í öllum smáatriðum, niðurstaða fundarins geti verið að ræða þurfi málin betur. Þekkingarleysi sé ekki ástæða til þess að koma í veg fyrir að mál séu rædd.

Bjarki gefur sig og stingur upp á að rafrænn fundur verði haldinn í desember, en síðan kemur ekki fundarboð. Svo ekki er hægt að hafa fund því hann sendir ekki fundarboð. Þá leggjum við til að fundur sé í janúar, en við fáum ekkert svar. Að fá ekkert svar er þema sem hann notar mikið. Hann hummar þetta af sér, svarar ekki neinum tölvupóstum og er í raun að reyna að koma í veg fyrir að fundur sé haldinn því hann vill ekki ræða þessi óþægilegu mál. En lögin eru skýr.“

Í lögum segi að fyrirsvarsmanni sé skylt að boða til fundar sé þess krafist af fjórðungi eigenda eða fleiri. Slíkt hlutfall var til staðar í þessu tilviki en Böðvar Bjarki mun þó ekki hafa gefið sig, hætti hann að svara skilaboðum og ekkert bólaði á fundarboði. Telja systurnar að hann hafi þar vísvitandi verið að reyna að koma í veg fyrir að þær fengju að gera grein fyrir máli sínu. Þær sendu því fundarboð sjálfar, en mæting var lítil sem engin á þann fund þar sem Böðvar Bjarki hafði þá þegar sent sjálfur fundarboð með annarri tímasetningu. Fór svo að fundur var haldinn 28. febrúar og fóru tvær systranna með pabba sínum á fundinn til að sýna honum stuðning.

„Á dauða okkar áttum við von, en ekki þessu fundi.“

Hlutlausasti maður Íslands?

Fundurinn var haldinn í Kvikmyndaskólanum. Mættu systurnar og Skúli snemma til að missa ekki af neinu en Böðvar Bjarki hleypti þeim þó ekki inn, þó hann sæi þau. Strax í byrjun fundar hafi Skúla verið sýndur mikill dónaskapur. Velta systurnar fyrir sér hvort það tengist því að tveir menn á fundinum, annar þeirra Böðvar Bjarki, séu í störfum sem reiða sig á opinbert fé. Kom það svo systrunum á óvart að maður ótengdur þeim var þangað mættur.

„Og þær spyrja hver þetta sé og hann svarar „Ég er Teitur og er fenginn til að vera fundarritari“. Þá svarar Bjarki að hann hafi unnið fyrir hann í Kvikmyndaskólanum og segir að það sé mjög mikilvægt að hafa „hlutlausan“ fundarritara, enda hafi fyrri fundir verið erfiðir.“

Teitur þessi er Teitur Erlingsson sem á þessum tíma var starfandi sem framkvæmdastjóri Framsóknarflokksins, en í apríl var hann ráðinn sem aðstoðarmaður Ásmundar Einars Daðasonar, mennta- og barnamálaráðherra.

„Þvílík tilviljun, af hverju ætti framkvæmdastjóri Framsóknarflokksins að vera fundarritari á lítilli jörð fyrir vestan? Greinilega hlutlausasti maður Íslands. Teitur kom vel fram á fundinum þrátt fyrir að systurnar hafi spurningar varðandi hlutleysi hans. Eftir fundinn erum við að ræða þetta við föður okkar og undrum okkur á því að framkvæmdastjóri Framsóknarflokksins hafi tekið þetta að sér. Þá segir faðir okkar: „Ég skil alveg að hann hafi tekið við starfi sem fundarritari, en ég er viss um að hann sjái eftir því núna.“

Næstum hálft ár er liðið frá fundinum, en engin fundargerð hefur verið gefin út. Telja systurnar að þar komi Böðvar Bjarki og Valdimar Einarsson við sögu, en þeir kæri sig ekki um að bókanir og annað slíkt komi fyrir augu annarra. Teitur hafi þó sent frá sér fundargerð, en hún ekki enn verið samþykkt. Segja systurnar að í þeirri útgáfu megi þó finna lygar og auk þess hafi ýmsu verið sleppt.

Töldu sig geta breytt opinberum skráningum með einum fundi

Systurnar segja ýmislegt hafa verið rætt á þessum fundi, sem var vel sóttur. Þar hafi til dæmis verið rætt um að breyta skráningu í fasteignaskrá, ákveða hvar landamerki væru og annað slíkt sem fundurinn hafi í raun ekki haft neinar valdheimildir til að ákvarða, enda um opinberar skráningar að ræða sem lúta tilteknum ferlum. Eins hafi komið til umræðu að framlengja 50 ára ábúendasamning við Daða Einarsson, sem hafi þó aldrei verið skráður ábúandi á Dönustöðum. Loks var svo vikið að skemmdarverkunum. Greindu systurnar þá frá því að eiga upptöku af Valdimar Einarssyni að játa á sig skemmdarverk og vísa til þess að hafa haft heimild frá Böðvari Bjarka til að fremja þau. Böðvar Bjarki mun hafa svarað þessari ásökun með „no comment“.

Systurnar segja að eftir fundinn hafi þær hágrátið og síðan ekki náð að festa svefn næstu þrjár vikurnar. Þær hafi misst trúnna á mannkynið eftir að hafa séð ættingja sína og eigendur Dönustaða taka afstöðu með Daða Einarssyni, þrátt fyrir framkomu hans í garð bróður síns.

„Eina leiðin fyrir systurnar þrjár að halda geðheilsunni er að afskrifa þetta fólk. Við erum búnar að bjóða þeim sannleikann en þau vilja hann ekki. Þau vilja ekki vita. Þeim er skítsama um okkur, að það sé verið að kúga okkur, hrella okkur, ofsækja okkur, fremja skemmdarverk, beita okkur ofbeldi. Þeim er alveg sama um okkur. Þegar maður áttar sig á því þá er það minna sárt. Nógu mikil vanlíðan sem fylgir þessu máli og maður þarf að gera það sem er rétt fyrir sína andlegu heilsu.

Á þessari stundu dó vonin. Systurnar þrjár áttuðu sig á því að stórfjölskyldan myndi aldrei hlusta á sannleikann. Þess vegna ákváðu þær að finna bara annað fólk sem er tilbúið að hlusta og það er það sem við erum að gera með þessu réttlætishlaðvarpi.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Ákæran í stóra fíkniefnamálinu: Afi og amma geymdu efnin heima hjá sér og seðlabúnt voru flutt á bifreiðaverkstæði í Auðbrekku

Ákæran í stóra fíkniefnamálinu: Afi og amma geymdu efnin heima hjá sér og seðlabúnt voru flutt á bifreiðaverkstæði í Auðbrekku
Fréttir
Í gær

Hafa borið kennsl á líkin í ferðatöskunum – 34 ára gamall maður ákærður fyrir ódæðið

Hafa borið kennsl á líkin í ferðatöskunum – 34 ára gamall maður ákærður fyrir ódæðið
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Íslendingur dæmdur í þriggja mánaða fangelsi í Danmörku fyrir að kýla unnustu sína margsinnis á bílastæði

Íslendingur dæmdur í þriggja mánaða fangelsi í Danmörku fyrir að kýla unnustu sína margsinnis á bílastæði
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Gangandi fólk kemst ekki lengur eftir gangstéttum í Norðurmýri – Bílastæðavandinn mikill

Gangandi fólk kemst ekki lengur eftir gangstéttum í Norðurmýri – Bílastæðavandinn mikill
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Líkamsleifar tveggja manna í ferðatöskum vekja óhug í Bretlandi – Scotland Yard stýrir leit að hinum grunuðu

Líkamsleifar tveggja manna í ferðatöskum vekja óhug í Bretlandi – Scotland Yard stýrir leit að hinum grunuðu
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Hlaut lífstíðarfangelsi fyrir ráðabrugg um að nauðga og drepa eina skærustu sjónvarpsstjörnu Breta

Hlaut lífstíðarfangelsi fyrir ráðabrugg um að nauðga og drepa eina skærustu sjónvarpsstjörnu Breta