Haraldur Ingi Þorleifsson, stofnandi Ueno og fyrrum starfsmaður Twitter, var tekjuhæsti Íslendingurinn í fyrra með 46 milljónir króna í mánaðartekjur árið 2022. Þetta er niðurstaða úttektar Frjálsar verslunar en Tekjublaðið er nú aðgengilegt á vef vb.is og kemur í verslanir á morgun.
Rétt er að geta þess að um útsvarsskyldar tekjur eru að ræða og þurfa ekki að endurspegla föst laun viðkomandi.
Þetta er annað árið í röð sem Haraldur Ingi er í hæstu hæðum á tekjulistanum en árið 2021 var hann með 102 milljónir króna á mánuði. Það skýrðist af sölu hans á Ueno til Twitter en eins og frægt og samdi Haraldur Ingi við tæknirisann um að stærstur hluti kaupverðsins yrði greiddur með launagreiðslum.
Sjá einnig: Haraldur bjóst við gullinu en tekur glaður við silfrinu í Skattakóngskeppninni
Þannig borgaði hann hæstu mögulegu skattprósentu til Íslands af söluverðinu en ljóst er að Haraldur Ingi hefði getað sparað sér hundruði milljóna með því að greiða sér kaupverðið út í arð. Hann borgar um 450 milljónir króna í heildarskatt en hefði getað nánast helmingað þá upphæð með því að taka peninginn út sem arðgreiðslu og greiða af henni fjármagnstekjuskatt.
Haraldur Ingi varð í kjölfar sölunnar starfsmaður hjá Twitter en óhætt er að fullyrða að hann hafi ekki verið hrifinn af innreið Elon Musk, ríkasta manns heims, inn í fyrirtækið og tilkynnti hann um að hann hefði látið af störfum hjá fyrirtækinu í apríl á þessu ári.
Samkvæmt úttekt Heimildarinnar var Pétur Hafsteinn Pálsson, sem var stærsti hluthafi í útgerðarfyrirtækinu Vísi í Grindavík er það var selt Síldarvinnslunni á 31 milljarð króna í fyrra, skattakóngur ársins 2022. Heildarárstekjur hans námu tæplega 4,1 milljörðum króna og greiddi hann samanlagt tæpar 903 milljónir í skatt.