Í tilefni 30 ára afmælis Domino´s á Íslandi bauð fyrirtækið upp á sama matseðil og sömu verð og þegar starfsemin hófst árið 1993.
Eftirspurnin var slík að starfsfólk lenti í vandræðum með að afgreiða allar pantanir og fyrirtækið neyddist til að loka fyrir allar pantanir kl. 18:30 í gærkvöldi.
Í tilkynningu frá Domino´s á Íslandi segir að eftirspurnin hafi verið slík að aldrei í 30 ára sögu félagsins hafi annað eins sést. Þrátt fyrir mikinn undirbúning hafi verið nauðsynlegt að loka fyrir pantanir frá kl. 18:30 og reyna að tryggja að þeir sem pantað höfðu á þeim tíma myndu fá sínar pantanir afhentar. Segir ennfremur að reikna megi með því að um það bil fjórði hver landsmaður hafi gætt sér á Domino’s Pizzu í gær.
„Gærdagurinn var okkar stærsti dagur frá upphafi, jafnt í fjölda pantana sem og fjölda pizza. Við reiknuðum með verulega sterkum degi sem yrði í takt við okkar sterkustu föstudaga í Megaviku og rúmlega það. Salan var langt umfram þær væntingar og magn pantana á einum degi einsdæmi á okkar 30 árum. Við hörmum langa bið og að allir hafi ekki náð að panta en á endanum urðum við einfaldlega uppiskroppa með pizzadeig. Starfsfólk okkar á hrós skilið fyrir að standa sig einstaklega vel í erfiðum aðstæðum en við búum að einhverjum öflugasta hópi starfsfólks innan Domino’s kerfisins á heimsvísu.“ segir Magnús Hafliðason forstjóri Domino‘s á Íslandi.
Að lokum segir í tilkynningunni að vegna mikillar eftirspurnar megi reikna með að einhverjar vörur verði ekki fáanlegar í dag, fimmtudag. Í næstu viku mun Domino’s halda áfram að fagna 30 ára afmælinu með sérstakri afmælis Megaviku þar sem bryddað verður upp á ýmsu óhefðbundnu, segir í tilkynningunni að lokum.