Tónlistarmaðurinn Bubbi Morthens spyr hvort við ætlum áfram að tala íslensku í þesus landi. Í grein í Morgunblaðinu lýsir hann þjóðfélagsbreytingum sem smám saman úthýsa móðurmálinu:
„Höfuðborgin Reykjavík er þakin skiltum á ensku. Allir veitingastaðir eru með ensku sem fyrsta mál, matseðlar þar með taldir, og það sem meira er: það talar enginn íslensku á þessum stöðum – sumir segja vegna þess að Íslendingar fáist ekki í störfin. Og dropinn holar steininn. Íslenskan sem tungumál er að verða hornreka í orðsins fyllstu merkingu. Það má vera að ráðafólki þjóðarinnar finnist þetta léttvægt og taki fagnandi bréfum skrifuðum á ensku frá Samtökum atvinnulífsins sem vilja undanþágu fyrir skipafélagið Eimskip. En þá er það vegna þess að við erum í auga stormsins þar sem lognið er.“
Bubbi segir að fellibylur fari yfir og nafn hans sé Enska. Hann segir okkur vera komin á þann stað að við þurfum að spyrja okkur hvor við viljum tala íslensku í framtíðinni:
„Viljum við tala íslensku? Viljum við lesa íslensku? Viljum við syngja íslensku lögin okkar með öllum orðunum sem við skiljum með hjartanu og sálinni? Ef svarið er já þá getum við ekki lengur setið hjá, við verðum að rísa upp. Sú stund er runnin upp að við verðum að berjast fyrir móðurmálinu. Þetta er engin dramatík, þetta er staðreynd.“
Hann brýnir stjórnmálamenn og ferðamannaiðnaðinn til að taka sig á og sakar hina síðarnefndu um hernað gegn tungumálinu. „Án tungumálsins erum við bara klettur norður í Dumbshafi með fallega náttúru. Ekki þjóð í eigin landi.“