Í færslu á Facebook síðu lögreglunnar á Norðulandi Eystra nú fyrir stundu kemur fram að ekki sé talin þörf á frekari aðgerðum vegna stöðu mála við Öskju, eins og er.
Í færslunni er minnt á að óvissustig Almannavarna hafi verið í gildi vegna landriss í Öskju síðan í september 2021. Vísbendingar hafi verið að berast m.a. um aukin hita í Víti, sem er stærsti sprengigígurinn í Öskju, sem og mögulegra gufustróka upp úr Bátshrauni sem er skammt frá. Vegna aukinnar umræðu í fjölmiðlum um þessi atrði vill lögreglan taka sérstaklega fram að Veðurstofa íslands fylgist vel með þróun mála:
„Þegar staða sem þessi er uppi þá fylgist Veðurstofan sérstaklega vel með ástandinu og aðstæðum á svæðinu og hefur það verið gert síðan landris hófst. Hlutverk Veðurstofunnar er síðan að meta ástandið hverju sinni og upplýsa Almannavarnir og lögregluna. Telji Veðurstofan þörf á frekara samtali er það tekið og viðeigandi ráðstafanir gerðar. Slíkur fundur var m.a. tekinn sl. laugardagskvöld þegar upplýsingarnar um aukin vatnshita og strókinn bárust. Niðurstaða þess fundar var mjög skýr að ekki þótti tilefni til frekari aðgerða né breytinga á verklagi.“
Í morgun var síðan haldinn fundur Lögreglustjórans á Norðurlandi eystra með fulltrúum frá Almannavarnadeild RLS, Veðurstofunni, Vatnajökulsþjóðgarði, lögreglunni á Austurlandi, Þingeyjarsveit og aðgerðastjórnendum í umdæminu. Á fundinum kom fram að staða mála væri að mestu óbreytt:
„Á fundinum fór fulltrúi Veðurstofunnar vel yfir stöðu mála og er það mat þeirra að staðan sé lítið breytt frá því sem verið hefur, þ.e. landris hefur verið hægt og bítandi síðan haustið 2021 og nær nú um 70 cm. Aðrir þættir hafa ekki verið aukast , s.s. jarðskjálftar sem væri helsti fyrirboði frekari óvissu. Vísbendingar eru þó um mögulega aukin jarðhita og verður vel fylgst með því.“
Á vef Veðurstofunnar kemur fram að ekki séu vísbendingar um að kvika sé að færast nær yfirborðinu við Öskju.
Í Facebook færslunni hjá Lögreglunni á Norðurlandi eystra kemur fram að fulltrúar Veðurstofunnar séu nú í dag að sinna rannsóknum við Öskju og á næstunni verði sett upp fleiri mælitæki til að mæla jarðhita í Víti og jarðskjálfta vestan við Öskju og jafnframt verði sett upp vefmyndavél á svæðinu. Niðurstaða fundarins í morgun var á endanum sú sama og á fundinum á laugardagskvöld:
„Niðurstaða fundarins er því að sú að ekki er talin þörf á frekari aðgerðum né aðgangsstýringum að sinni en allir sem fara inn á hálendið á þessu svæði eru hvattir til að hafa í huga að það er óvissustig í gildi og að fylgja þeim leiðbeiningum sem þeir fá, s.s. frá landvörðum um að fara ekki ofan í Víti né niður að Öskjuvatni.“
Ferðaþjónustuaðilar eru hvattir til að upplýsa sína viðskiptavini um stöðuna og fylgjast vel með tilkynningum. Lögreglan á Norðurlandi eystra segir að hún muni koma öllum upplýsingum á framfæri hverju sinni sé talin þörf á því.