Í tilefni af því að Domino‘s opnaði þann 16. ágúst 1993 mun Domino‘s bjóða upprunalegan matseðil fyrirtækisins á upprunalegu verði í dag, miðvikudaginn 16. ágúst. Um er að ræða 8 pizzur sem í boði voru árið 1993. Hægt er að sjá matseðilinn og panta á dominos.is eða í Domino‘s appinu.
Upprunalegur matseðill var um margt frábrugðinn þeim sem landsmenn þekkja í dag. Á þeim tíma var til dæmis ekki mögulegt að fá rjómaost né piparost sem eru á meðal vinsælustu áleggja fyrirtækisins í dag. Þó eru fjórar pizzur enn á matseðlinum í dag en þær eru Domino‘s Extra, Domino‘s Deluxe, Hawaiian og Domino‘s Classic. Dæmi um pizzur sem ekki eru á matseðli í dag eru Fjögurra osta pizza og Hamborgarapizza sem var með hakki, lauk og papriku – samsetning sem er barn síns tíma.
„Domino‘s er fyrir löngu orðinn pizzastaður þjóðarinnar. Á 30 þeim árum sem við höfum starfað á Íslandi höfum við átt góðu gengi að fagna og vinsældirnar aukist með árunum. Í dag er Domino´s með 22 útibú hér á landi og erum með yfir 600 einstaklinga í vinnu. Í tilefni þessara tímamóta bjóðum við viðskiptavinum okkar upprunalegan matseðil okkar á upprunalegum verðum og þökkum þjóðinni fyrir samfylgdina síðustu 30 ár og hlökkum til næstu 30 ára,“ segir Magnús Hafliðason forstjóri Domino‘s á Íslandi.
Í tilefni af þessum tímamótum er von á Russell Weiner, forstjóra Domino‘s, til landsins og mun hann heimsækja útibú fyrirtækisins og kynna sér starfsemina hér á landi ásamt því að ferðast um Ísland næstu daga. Ísland, sem starfrækt er með sérleyfi, er meðal öflugustu markaða Domino‘s í heiminum og hefur verið nánast frá fyrsta degi.