fbpx
Fimmtudagur 01.ágúst 2024
Fréttir

Íslenska óperan sögð neyðast til að hætta starfsemi

Jakob Snævar Ólafsson
Þriðjudaginn 15. ágúst 2023 13:00

Steinunn Birna Ragnarsdóttir óperustjóri Íslensku óperunnar. Mynd: Gunnar V. Andrésson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Íslenska óperan birtir á Facebook síðu sinni í dag bréf sem Pétur J. Eiríksson, formaður stjórnar hennar, hefur sent til forsætisráðherra, menningar-og viðskiptaráðherra og fjármálaráðherra.

Í bréfinu kemur fram að Íslensku óperunni hafi verið tilkynnt að rekstrarframlögum ríkisins til stofnunarinnar verði hætt og að niðurskurðurinn sé svo róttækur að ekki verði annað séð en að hún verði að hætta starfsemi.

Í upphafi bréfsins er bent á að tilkynningin um að rekstarframlögum ríkisins til Íslensku óperunnar verði hætt hafi komið fram áður en búið sé að móta framtíð óperustarfsemi hér á landi sem skapi óhjákvæmilega mikla óvissu.

Í tilkynningu menningar- og viðskiptaráðuneytisins, frá 23. júní síðastliðnum, kemur fram að auglýst verði eftir verkefnisstjóra til að sjá um undirbúning að stofnun þjóðaróperu auk þess að sett verður á laggirnar ráðgjafaráð sem vera mun þessum verkefnisstjóra innan handar í ferlinu.

Væntanlega er þjóðaróperunni ætlað að taka við því hlutverki sem Íslenska óperan hefur sinnt.

Þjóðarópera ómótuð

Þórunn Sigurðardóttir verður formaður ráðsins og með henni verða tveir ráðsmenn tilnefndir af BÍL, Bandalagi íslenskra listamanna. Aðalmenn tilnefndir af BÍL eru Þóra Einarsdóttir og Þórunn Gréta Sigurðardóttir en varamenn eru Erling Jóhannesson og Páll Ragnar Pálsson.

Í tilkynningunni er haft eftir Lilju Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra að ljóst sé að fjölmörg sóknarfæri liggi í því að efla umgjörð um óperustarfsemi hér á landi.

Umfangsmikil grunnvinna hefur verið unnin um mögulega þjóðaróperu af hendi tveggja starfshópa sem báðir skiluðu tillögum, auk þess hafa fjórar sviðsmyndir verið mótaðar innan ráðuneytisins og kynntar fyrir óperusamfélaginu. Verkefnisstjóri mun geta undirbúið stofnunina ásamt undirbúnings- og ráðgjafanefndinni út frá þeim greiningum og skýrslum sem unnar hafa verið.

Í tilkynningunnni segir ennfremur að skoða þurfi nú nánar, í samstarfi við viðkomandi stofnanir og sérfræðinga í óperustarfsemi, hvaða sviðsmynd væri líklegust til árangurs í íslenskum aðstæðum og í hvernig útfærslu. Einnig þurfi að móta ítarlega verkefnaáætlun til að koma þeirri sviðsmynd sem fyrir valinu verði í framkvæmd.

Auglýst verður eftir verkefnisstjóra í lok sumars.

Fjögurra áratuga starfsemi að líða undir lok

Í bréfi Péturs J. Eiríkssonar, formanns stjórnar Íslensku óperunnar, til ráðherranna þriggja segir að í ljósi niðurskurðarins muni stofnunin neyðast til að hætta starfsemi en þó sé gert ráð fyrir að hún fái verkefnastyrk til þess að sviðsetja óperuna Agnesi eftir Daníel Bjarnason, haustið 2024, en ríkisstjórnin hafi styrkt pöntun verksins.

Pétur bendir í bréfinu á að Íslenska óperan hafi haldið uppi fjölbreyttri starfsemi í rúma fjóra áratugi, sem einkennst hafi af listrænum metnaði og að stofnunin hafi haft algjöra forystu á sviði óperuflutnings hér á landi.

Íslenska óperan er sjálfseignarstofnun og tók formlega til starfa árið 1980. Á heimasíðu hennar segir að síðan þá hafi um það bil 400.000 gestir sótt sýningar hennar og hundruðir listamanna tekið þátt í þeim.

Í bréfinu er fullyrt að stofnunin hafi nýtt það fjármagn sem hún hefur fengið úr ríkissjóði með hagnýtum hætti. Íslenska óperan sé í huga landsmanna þjóðarópera Íslendinga. Hún hafi starfað í þágu þjóðarinnar af miklum stórhug. Í niðurlagi bréfsins segir:

„Stjórn Íslensku óperunnar skorar á ríkisstjórnina að standa vörð um þá mikilvægu menningarstarfsemi sem Íslenska óperan hefur staðið fyrir og koma í veg fyrir það menningarslys sem af því hlytist að leggja stofnunina niður.“

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Hræðilegt ástand göngupalla við Leirhnjúk og Kröflu – „Mér finnst lítið vera gert í þessu“

Hræðilegt ástand göngupalla við Leirhnjúk og Kröflu – „Mér finnst lítið vera gert í þessu“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Veðurstofan segir auknar líkur á kvikuhlaupi og jafnvel eldgosi á næstu dögum

Veðurstofan segir auknar líkur á kvikuhlaupi og jafnvel eldgosi á næstu dögum