Birna Baldursdóttir, íþróttafræðingur og framhaldsskólakennari, er heppin að vera á lífi eftir að hafa lent í alvarlegu slysi á Hopphjóli aðfaranótt sunnudagsins 6. ágúst síðastliðinn. Hún segist upplifa mikla skömm yfir því að hafa ákveðið að leigja rafskútuna þegar hún var undir áhrifum áfengis á heimleið úr gleðskap en hafi ákveðið að opna sig um málið svo aðrir geti lært af hennar reynslu.
Í einlægri Facebook-færslu þar sem Birna þakkar vinum sínum og aðstandendum fyrir hlýhug sinn fer hún yfir síðustu daga.
„Ég man auðvitað ekkert eftir byrjuninni á atburðarásinni en eins og þið hafið hugsanlega heyrt þá tók ég þá fáránlegu ákvörðun og leigði hopphjól ein á heimleið úr partýi þrátt fyrir að vera í glasi.
Það versta sem gerist er að ég finnst rotuð og meðvitundarlaus á gangstétt eftir að hafa dottið. Það er bláókunnugt, yndislegt fólk sem kallar eftir hjálp,“ skrifar Birna.
Hún var flutt með sjúkrabíl á Sjúkrahúsið á Akureyri en þar fékk hún flogakast á gjörgæslunni vegna heilablæðingar. Færir læknar sjúkrahússins björguðu hins vegar lífi hennar og en Birna var höfuðkúpu-, kinnbeins- og kjálkabrotin eftir slysið.
Birna segist afar þakklát starfsfólki spítalans fyrir lífsbjörgina og segist vera staðráðinn í því að læra af reynslunni.
„Ég finn ennþá stinginn í hjartanu sem ég fékk þegar læknirinn er að tilkynna mér þessi meiðsli dagana á eftir þegar ég vakna af og til en ég hélt í alvörunni að hann væri að grínast í hvert skipti,“ skrifar Birna.
Hún segist skammast sín mikið enda „framhaldskólakennari, íþróttakona, móðir, dóttir og vinkona sem ætti að vita betur sem ákveðin fyrirmynd.“
„En þessi fortíðarákvörðun er búin og þótt ég skilji satt og segja ekki ennþá afhverju ég tók Hopphjólið þá vona ég svo sannarlega að ENGINN geri slíkt hið sama þar sem ég mun aldrei gera það aftur,“ skrifar Birna.
Hún er útskrifuð af spítalanum eftir slysið en þó sé langt í land með að hún nái fullum bata. „Ég er mikið sofandi útaf verkjum en finn alltaf betri dagamun á mér dag frá degi,“ segir Birna í samtali við DV og segist vona að frásögn hennar verði öðrum víti til varnaðar. Helst vilji hún brýna fyrir fólki að nota hjálma á rafskútum og alls ekki stíga á slíka farskjóta þegar áfengi er haft um hönd.