Rannsókn lögreglu á morðinu á Jaroslaw Kaminski, sem stunginn var til bana á heimili sínu í leiguherbergi að Drangahrauni í Hafnarfirði, aðfaranótt 17. júní, er lokið og málið er farið til ákærusviðs lögreglu. Vísir.is greindi frá þessu í morgun. Sá sem grunaður er um morðið var pólskur herbergisfélagi Jaroslaws.
Búast má við að málið fari frá ákærusviði til héraðssaksóknara fyrir lok mánaðarins, samkvæmt upplýsingum sem DV fékk hjá Eiríki Valberg, fulltrúa á miðlægri rannóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
„Hann situr inn áfram vegna þess að hann er talinn hættulegur,“ segir Eiríkur við þeirri spurningu á hvaða forsendum krafist verði gæsluvarðhalds yfir manninum áfram. Gæsluvarðhaldið rennur út 15. ágúst en Eiríkur segir að krafist verði áframhaldandi gæsluvarðhalds á grundvelli almannahagsmuna. „Almannahagsmunahagsmunagæslu er beitt þegar viðkomandi er talinn hættulegur eða það geti valdið hneykslun í samfélaginu ef hann gengur laus,“ segir Eiríkur. Ekki er hægt að krefjast gæsluvarðhalds til lengri tíma en fjögurra vikna í senn en hægt er að endurnýja það eins lengi og til þarf, ef dómstólar samþykkja það. Ekki er hægt að halda sakborningum lengur í gæsluvarðhaldi en 12 vikur án þess að birta þeim ákæru. Má því búast við að ákæra sé á næsta leiti en hinn grunaði hefur setið í gæsluvarðhaldi í um 9 vikur.
Eiríkur segist ekki getað tjáð sig um það hvort maðurinn hafi játað morðið í yfirheyrslum. Spurður út í mögulega morðástæðu og hvort lögregla hafi yfirleitt greint morðástæðu, segir Eiríkur. „Ég get ekki farið út í það á þessari stundu.“
DV ræddi við ekkju Jaroslaws, Ewu Kamińska, í byrjum mánaðarins. Sagðist hún ekki hafa hugmynd um morðástæðuna. „Ég veit ekki til þess að þessir menn hafi átt í deilum og Jarek þekkti þennan mann ekki,“ sagði Ewa, en mennirnir höfðu verið herbergisfélagar um stutt skeið er voðaverkið var framið.
Margt ef því á huldu varðandi málið fyrir almenningssjónum en lögregla telur sig hafa dregið upp skýra mynd af því og búast má við ákæru á næstu vikum.