Bandarískir fjölmiðlar hafa flutt stöðugar fréttir í dag af gríðarlegum skógareldum sem geysa á mörgum svæðum á eyjunni Maui og Hawaii-eyju sem er oft kölluð Stóra eyjan. Báðar eyjarnar tilheyra Hawaii-eyjaklasanum í Kyrrahafi. Síðarnefnda eyjan er sú stærsta í eyjaklasanum sem er eitt af 50 ríkjum Bandaríkjanna. Á eyjunum tveimur búa samtals svipað margir og á Íslandi en fjölmennasta eyjan í Hawaii-eyjaklasanum er Oahu en þar býr um það bil 1,1 milljón manna.
Í umfjöllun CNN kemur fram að neyðarástandi hafi verið lýst yfir á eyjunum tveimur.
Miklir vindar frá fellibylnum Dora höfðu breytt eldana enn frekar út með þeim afleiðingu að hús brunnu. Þegar neyðarástandinu var lýst yfir fyrirskipuðu yfirvöld að víðtækur brottflutningur fólks á eyjunum tveimur skyldi hafinn með aðstoð þjóðvarðsliðs ríkisins. Það gerði þó erfitt fyrir að rafmagnslaust var víða á svæðinu sem gerði fjarskipti enn erfiðari.
Þegar leið á morguninn fór ástandið versnandi og á svæðunum á Maui, þar sem ástandið er verra, sem verst urðu úti réðu slökkviliðsmenn ekkert við ástandið. Hinir miklu vindar breiddu eldana út hraðar en þeir náðu að slökkva þá.
Á einum stað þurftu 12 manns að stökkva út í sjó til að forðast eldana en þeim var öllum bjargað af bandarísku strandgæslunni.
Á Maui var ástandið einna verst á vesturhluta eyjunnar. Eldarnir og vindarinir frá fellibylnum Dora náðu þar til farsímamastra með þeim afleiðingum að þau féllu til jarðar og fólk getur því ekki náð sambandi við neyðarlínuna. Landlínur eru víðast hvar óvirkar líka. Á þessum hluta eyjunnar eru einkum hótel og önnur fyrirtæki en einnig einkaheimili.
Eina leiðin fyrir viðbragðsaðila til að ná sambandi við þennan hluta eyjunnar hefur verið að nota gervihnattasíma en þeir eru ekki eins útbreiddir og hefbundir farsímar.
Eftir því sem leið á morguninn stækkaði það svæði þar sem þótti nauðsynlegt að flytja fólk burt. Færa þurfti neyðarskýli fjær eldunum.
Sylvia Luke, vararíkisstjóri Hawaii en Josh Green ríkisstjóri var ekki staddur á eyjunum þegar eldarnir komu upp, sagði í viðtali við CNN að eldarnir væru fordæmalausir. Aldrei áður í sögu eyjanna hefði fellibylur valdið því að skógareldar geisuðu á mörgum svæðum í einu. Hún kallaði eftir því að alríkisstjórnin í Washington lýsti yfir neyðarástandi á Hawaii og kæmi eyjaskeggjum til aðstoðar.
Spítalar á Maui yfirfylltust fljótt af fólki með brunasár og reykeitranir. Erfitt var að flytja fólk sem fyrir var á spítulunum burt, vegna veðursins og eldanna, til að rýma fyrir nýju sjúklingunum. Raunar ráða spítalar á Maui heldur ekki við að meðhöndla mjög alvarleg brunasár.
Flestum skólum á svæðunum þar sem eldarnir geysa var lokað og þó nokkur fyrirtæki hafa orðið eldunum að bráð.
CNN ræddi við íbúa á Maui sem taldi öruggt að heimili hans væri brunnið til grunna. Hann sagði að vindarnir sem breytt hafa eldinn út hefðu byrjað að geysa í nótt (að staðartíma), engin viðvörun hefði verið gefin út og þessar hörmungar því komið fólki algjörlega í opna skjöldu. Hann var fluttur á brott í neyðarskýli en flytja þurfti hann einnig burt úr því af því eldarnir voru komnir of nálægt.
Á Maui-eyju geysuðu eldar á fjórum svæðum, einu á vesturhluta eyjunnar en þremur um miðbik hennar, en á einu svæði á Hawaii-eyju – Stóru eyjunni.
Á Maui var lokað fyrir umferð á öllum svæðunum þar sem eldarnir geysuðu
Því var spáð að draga myndi úr vindi eftir því sem liði á daginn.
Hvíta húsið sagði að Joe Biden forseti Bandaríkjanna fylgdist vel með ástandinu en ekkert kom fram um hvort hann ætlaði að beina aðstoð frá alríkinu til Hawaii.
Um 1800 manns hafa neyðst til að gista á stærsta flugvelli Maui þar sem flugum þeirra hefur verið aflýst eða um hefur verið að ræða farþega sem nýkomnir eru til eyjunnar en komast ekki af flugvellinum. Yfirvöld hvetja fólk til að ferðast ekki til Maui nema brýna nayðsyn beri til.
Yfirvöld hafa hvatt íbúa sem búa á þeim svæðum eyjunnar sem ekki hafa verið rýmd til að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að verja heimili sín fyrir eldunum meðal annars með því að hreinsa allan gróður af þaki og úr þakrennum. Íbúar eru einnig hvattir til að vera við öllu búnir og vera tilbúnir að yfirgefa heimili sín með litlum fyrirvara.
Það sem gerir ástandið enn verra eru miklir þurrkar á eyjunni en veðurfræðingar segja að þurrkar hafi farið vaxandi á Hawaii síðustu ár vegna hækkandi meðalhita.
Fyrir stundu lýsti Josh Green, ríkisstjóri Hawaii, því yfir að það mætti búast við dauðsföllum vegna eldanna en fyrir þrekvirki viðbragðsaðila hefði tekist að koma í veg fyrir það enn sem komið er. Green var fjarri eyjunum í fríi en er nú á leið aftur heim. Hann segir stóran hluta bæjarins Lāhainā á Maui hafa eyðilagst og að hundruðir fjölskyldna hafi þurft að flýja heimili sín. Hann reiknar með að óska formlega eftir aðstoð alríkisins innan tíðar.
Íbúar Lāhainā, sem á sér ríka sögu, þurftu margir að flýja með litlum fyrirvara og segja eldana hafa breiðst afar hratt út. Um hálftíma gat tekið fyrir heilu húsagöturnar að verða alelda. Vegna þess að farsímasambandið lá niðri þurfti fólk að kalla á hvert annað að öll ættu að flýja.
Íbúi, kona, sem CNN ræddi við sagði að þegar hún sá elda loga sitt hvoru meginn götunnar sem hún stóð á hafi hún hugsað með sér að hún væri stödd í miðri hryllingsmynd.
Nokkrir fjölmiðlar hafa greint frá því að fyrir stuttu hafi verið staðfest að sex manns hafi látist af völdum eldanna.