Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur sent frá sér nýja tilkynningu með frekari upplýsingum um verkefni síðastliðinnar nætur.
Allir fangaklefar á lögreglustöðinni við Hverfisgötu voru fullir eftir nóttina og fangaklefar í Hafnarfirði voru því virkjaðir.
110 mál voru skráð frá klukkan 17:00 í gær til klukkan 10 í morgun í kerfi lögreglu.
Töluvert var af hefðbundnum helgarverkefnum svo sem partýhávaði, ölvuðum hjálpað á fætur, hraðakstur, akstur undir áhrifum fíkniefna o.fl.
Meðal annarra helstu verkefna voru að tilkynnt var um farsímaþjófnað úr starfsmannarými á veitingastað í miðborginni. Gerandi fannst seinna eftir ábendingu góðborgara. Hann var handtekinn og á lögreglustöð fannst einnig hnífur á aðilanum. Málið var klárað eftir hefðbundnu ferli.
Tilkynnt var um aðila með hugsanlegt skotvopn við Alþingishúsið. Sérsveit ríkislögreglustjóra og lögreglan fóru á staðinn og fundu aðilann. Reyndist hann vera með kveikjara sem var eftirlíking af skammbyssu. Aðilinn var handtekinn og fluttur á lögreglustöð. Fram kemur í tilkynningunni að hann glími við andleg veikindi.
Aðili var handtekinn og vistaður eftir líkamsáras og eignaspjöll í heimahúsi. Málið er í rannsókn.
Í Kópavogi var tilkynnt um þjófnað úr verslun í Smáralind en málið var afgreitt með vettvangsformi.
Í umdæmi lögreglustöðvar 4 sem sér um löggæslu í Árbæ, Grafarholti, Grafarvogi, Norðlingaholti, Mosfellsbæ, Kjósarhreppi og á Kjalarnesi var tilkynnt um vinnuslys þar sem aðili klemmdist á fótum eftir að lyftari rann til. Ekki er vitað um alvarleika áverka viðkomandi einstaklings.
Í öðru máli í umdæmi stöðvarinnar var aðili handtekinn og vistaður eftir líkamsáras í heimahúsi. Málið er í rannsókn.