Þótt stærsta ferðahelgi ársins standi nú yfir var eins og flestar helgar nóg um að vera á höfuðborgarsvæðinu og mikið af verkefnum komu inn á borð lögreglunnar í gærkvöldi og nótt.
Í dagbók lögreglunnar kemur fram að tilkynnt var um eld í grilli í vesturborginni. Húsráðandi hafði slökkt eldinn með slökkvitæki áður en viðbragðsaðilar komu á vettvang.
Stjórnandi rafhlaupahjóls datt af hjólinu í austurborginni. Hann meiddist í lófum og komu sjúkraflutningamenn á vettvang og gerðu að sárum hans.
Þá var eins og oftast áður eitthvað um ofbeldi.
Maður var handtekinn grunaður um líkamsárás í miðborginni. Hann var sakaður um að hafa ráðist á dyraverði skemmtistaðar. Maðurinn var óviðræðuhæfur vegna æsings og annarlegs ástands og var vistaður í fangageymslu þangað til hægt verður að taka af honum skýrslu.
Annar maður var handtekinn grunaður um líkamsárás gegn dyraverði skemmtistaðar. Hann var færður á lögreglustöðina við Hverfisgötu og sleppt eftir skýrslutöku.
Þá varð ökumaður húsbíls fyrir því óláni að aka utan í spegil bifreiðar fyrir framan lögreglustöðina við Hverfisgötu. Umferðardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu hafði samband við tjónþola og ritaði skýrslu vegna óhappsins.
Annar ökumaður var handtekinn vegna gruns um ölvun við akstur í austurborginni. Hann var látinn laus eftir blóðsýnatöku.
Þriðji ökumaðurinn var handtekinn í austurborginni vegna gruns um akstur undir áhrifum fíkniefna. Hann var einnig kærður fyrir að aka sviptur ökuréttindum og fyrir vopnalagabrot. Hann var látinn laus eftir blóðsýnatöku.
Í Hafnarfirði var ökumaður hópbifreiðar stöðvaður við eftirlit. Ökumaðurinn var m.a. kærður fyrir að aka án gildra ökuréttinda, fyrir að nota ekki ökuritaskífu eða ökuritakort, óheimila notkun nagladekkja og brot á lögum um atvinnuréttindi útlendinga.
Í Hafnarfirði voru sömuleiðis sex menn handteknirvegna gruns um ólöglega dvöl á Schengen svæðinu. Þeir voru vistaðir í þágu rannsóknar málsins.
Ökumaður var handtekinn í Kópavogi grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna. Hann var látinn laus eftir blóðsýnatöku.
Í umdæmi lögreglustöðvar 4 sem sér um löggæslu í Árbæ, Grafarholti, Grafarvogi, Norðlingaholti, Mosfellsbæ, Kjósarhreppi og á Kjalarnesi var ökumaður kærður fyrir of hraðan akstur, en mældur hraði var 103 km/klst þar sem leyfilegur hámarkshraði er 70 km/klst. Hann var einnig kærður fyrir að gefa ekki stefnumerki.
Annar ökumaður var handtekinn í Árbænum grunaður um akstur undir áhrifum áfengis. Hann var látinn laus eftir blóðsýnatöku.