fbpx
Laugardagur 11.janúar 2025
Fréttir

Bandarískir sjóliðar ákærðir fyrir njósnir

Jakob Snævar Ólafsson
Föstudaginn 4. ágúst 2023 11:00

Bandaríska herskipið USS Essex/Wikimedia

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

CNN greinir frá því að tveir liðsmenn bandaríska sjóhersins hafi verið handteknir og í kjölfarið ákærðir fyrir að senda viðkvæmar hernaðarupplýsingar til kínverskra leyniþjónustumanna.

Annar þeirra, Jinchao Wei, var handtekinn síðasta miðvikudag þegar hann mætti til starfa á flotastöðinni í San Diego í Kaliforníu en stöðin er ein sú stærsta sem sjóherinn hefur yfir að ráða á Kyrrahafsströnd Bandaríkjanna.

Hinn heitir Wenheng Zhao en hann starfaði á flotastöð í Port Hueneme sem er einnig í Kaliforníu.

Fyrir dómi lýsti Wei sig saklausan af ákærunum. Saksóknarar segja að á meðan hann var í áhöfn herskipsins USS Essex hafi Wei byrjað í febrúar 2022 að veita Kínverjum upplýsingar. Wei starfaði í þeirri deild skipsins sem hafði umsjón með búnaði þess og viðhaldi á honum.

Wei er sagður hafa sent kínversku leyniþjónustunni myndir og myndbönd sem tekin voru innan úr Essex og öðrum skipum bandaríska sjóhersins ásamt skriflegum upplýsingum um tækni- og vélbúnað og vopnakerfi skipanna.

Um það leyti sem á þessum meintu sendingum stóð hlaut Wei bandarískan ríkisborgararétt en ekki kemur fram frá hvaða landi hann er upprunalega.

Upplýsingarnar sem Wei er sakaður um að hafa sent kínversku leyniþjónustunni voru geymdar í tölvu sem aðeins aðilar með viðeigandi öryggisheimild höfðu aðgang að en Wei hafði slíka heimild.

Wenheng Zhao er hins vegar ákærður fyrir að hafa á tímabilinu frá ágúst 2021 til maí 2023 útvegað manni, sem þóttist vera fræðimaður en var í raun fulltrúi í kínversku leyniþjónustunni, ýmsar hernaðarlegar upplýsingar meðal annars um viðamikla heræfingu Bandaríkjanna í Kyrrahafi.

Starf Zhao í bandaríska sjóhernum fólst einkum í að koma fyrir, gera við og sjá um viðhald á rafbúnaði. Eins og Wei hafði Zhao öryggisheimild en hann er sakaður um að hafa tekið myndir af tölvuskjám þar sem sjá mátti upplýsingar sem vörðuðu skipulag heræfingarinnar og sent þær til kínverska leyniþjónustumannsins.

Hann er einnig sakaður um að hafa sent myndir af teikningum af radarkerfi í herstöð Bandaríkjanna í Japan. Formleg leynd hvíldi ekki yfir þeim en saksóknarar segja að Zhao hafi samt sem áður borið skylda til að gæta þess að þær kæmust ekki í hendur óviðkomandi aðila.

Zhao er sagður hafa þegið 15.000 dollara (rúmar 2 milljónir íslenskra króna) frá kínverska leyniþjónustumanninum fyrir þessar sendingar.

Kínverjar sagðir róa öllum árum að því að komast yfir hernaðarleyndarmál Bandaríkjanna

Einn saksóknara sem hafa komið að málinu segir það enn eitt dæmi um viðleitni Kína við að komast yfir hernaðarleyndarmál Bandaríkjanna.

Þetta er í þriðja sinn á þessu ári sem bandarískir hermenn eru handteknir og ákærðir fyrir njósnir.

Bandaríski herinn hefur vaxandi áhyggjur af því að Kína sé að vaxa ásmeginn í þeirri stöðubaráttu sem átt hefur sér stað milli landanna undanfarin misseri. Áhyggjurnar snúa ekki síst að kínverska sjóhernum sem nú er orðinn stærri en sá bandaríski.

Annar saksóknari sem kom að málinu sagði að öryggi bandarísku þjóðarinnar væri í höndum liðsmanna hersins og það væri varla til meiri sviksemi en þegar einhverjir þeirra velji peninga fram yfir landið og afhendi erlendu ríki hernaðarupplýsingar.

Hershöfðinginn Patrick Ryder var spurður um málið á fréttamannafundi. Hann vildi ekki tjá sig um það beint en segist telja að bandaríski herinn búi yfir skýrum ferlum og áætlunum þegar komi að því gæta þess að viðkvæmar upplýsingar séu öruggar.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt