fbpx
Mánudagur 04.nóvember 2024
Fréttir

Gallamálið í Hafnarfirði – Deilt um hvort að byggingarstig hússins hafi legið fyrir

Ritstjórn DV
Miðvikudaginn 2. ágúst 2023 20:00

Hafnarfjörður. Myndin tengist fréttinni ekki beint.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Eins og DV og fleiri fjölmiðlar hafa greint frá hafa hjónin Sæmundur Jóhannsson og Ester Erlingsdóttir þurft undanfarin ár að glíma við afleiðingar galla á fasteign þeirra að Burknavöllum í Hafnarfirði sem þau keyptu árið 2008. Gallarnir hafa valdið m.a. lekavandamálum í húsinu sem hefur stuðlað að myglumyndun. Húsið var tiltölulega nýlegt þegar hjónin keyptu það og höfðu fyrri eigendur, sem seldu Sæmundi og Ester húsið, keypt það árið 2004 og voru fyrstu eigendur þess.

Sæmundur og Ester töldu sig vera að kaupa tilbúið hús en ekki hús sem var enn skráð á fokheldisstig eins og raunin var með byggingarstig hússins. Þau hafa deilt við fyrri eigendur um hversu ljóst það var að húsið væri enn á fokheldisstigi þegar kaupin gengu í gegn. Héraðsdómur Reykjaness komst að þeirri niðurstöðu árið 2013 að þeim hefði átt að vera það ljóst að húsið væri á þessu byggingarstigi. Af orðum Sæmundar, og gögnum sem DV hefur undir höndum, að dæma virðist það hins vegar enn vera umdeilanlegt hversu ljóst það var.

Fyrir liggur að embætti byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar fór ekki eftir þágildandi byggingarreglugerð þegar kom að skipan byggingarstjóra sem hafa átti eftirlit með að framkvæmdir við byggingu hússins væru í lagi. Samkvæmt niðurstöðu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, frá því í mars á þessu ári, hefði þáverandi byggingarfulltrúi Hafnarfjarðarbæjar átt að stöðva framkvæmdir við byggingu hússins árið 2005 þegar lá fyrir að byggingarstjóri þess hafði ekki gilda starfsábyrgðartryggingu. Það var hins vegar ekki gert og enn þann dag í dag hefur lokaúttekt á húsinu af hálfu byggingarstjóra eða byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar enn ekki farið fram.

Sjá einnig: Byggingarfulltrúi Hafnarfjarðar fór ekki eftir settum reglum – Fjölskylda situr uppi með tuga milljóna króna tjón og þarf að búa í tjaldi

Bauð fram aðstoð en mætti ekki á boðaða fundi

Sæmundur og Ester keyptu húsið af Birni Þorfinnssyni og Þorgerði Hafsteinsdóttur. Samkvæmt tölvupóstsamskiptum Björns og Sæmundar frá árinu 2011, sem DV hefur undir höndum, spurði sá síðarnefndi þann fyrrnefnda hversu langan tíma það tæki að koma húsinu á það byggingarstig sem þau hjónin töldu að húsið væri á þegar þau keyptu það. Sæmundur segir í tölvupóstinum að byggingameistari hússins viðurkenni ábyrgð sína á því að leki sé frá þakkant inn í veggi hússins.

Hann bætir því við að henn telji Björn sem seljanda bera ábyrgð á því að húsið sé enn á fokheldisstigi og að það leki og að eins og rætt hafi verið um áður sé Birni velkomið að koma og laga frágang á loftklæðingu í bílskúr.

Björn svaraði þessum pósti degi síðar og hafnar þar ekki berum orðum ábyrgð sinni á ástandi hússins en viðurkennir hana ekki beinlínis heldur. Hann andmælir því heldur ekki að húsið hafi verið á fokheldisstigi þegar það var selt og enn fremur ekki því að Sæmundur og Ester hafi talið að bygging hússins hefði verið komin lengra en þetta þegar þau keyptu það. Í svarinu segir hann að staðan varðandi lokaúttekt sé þannig að byggingarstjórinn, Arnór Friðþjófsson, sé að safna saman gögnum frá þeim rafvirkjum og pípurum, sem önnuðust þær hliðar byggingar hússins, og muni síðan fara með þau gögn til byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar sem muni í kjölfarið koma eða senda fulltrúa í lokaúttekt hússins.

Árétta ber að þessi lokaúttekt hefur enn ekki farið fram og Sæmundur hefur tjáð DV að Arnór byggingarstjóri hafi alltaf afboðað fundi þar sem til hefur staðið að þessi úttekt fari fram.

Í tölvupóstinum frá 2011 bætir Björn því við að hann og Arnór muni koma og laga plastklæðningu í bílskúr hússins eins og hann og Sæmundur hafi verið búnir að tala um. Björn segist vona að það gerist fljótlega og um leið og Arnór kalli muni hann mæta. Út úr lokaúttektinni muni koma gátlisti með aðfinnslum sem hann og Sæmundur muni skoða í sameiningu.

Sæmundur hafði nefnt það í sínum pósti að hann yrði að höfða mál á hendur Birni en Björn svarar því þannig að samkvæmt athugun hans sé ekkert sæm mæli á móti því að Sæmundur höfði mál á hendur byggingaraðila hússins.

Tæplega tveimur vikum síðar sendi Sæmundur Birni annan tölvupóst og af þeim pósti að dæma virðist Björn hins vegar ekki hafa gert mikið  af því sem rætt var um til að koma til móts við Sæmund og ekki hafa mætt á boðaða fundi þeirra á milli. Sæmundur segir í póstinum að áhugi Björns á að koma húsinu á það byggingarstig sem þau hjónin töldu það vera á, þegar þau keyptu það, sé augljóslega ekki mikill. Björn hafi í tvígang ekki séð sér fært að mæta á boðaða fundi með Sæmundi og byggingarstjórum hússins. Sæmundur fullyrðir í póstinum að Björn hafi leynt þeim upplýsingum að húsið væri enn á fokheldisstigi.

Sæmundur og Ester höfðuðu í kjölfarið mál á hendur fyrri eigendum hússins, Birni og Þorgerði, og byggingarstjóranum Arnóri.

Fasteignasala og seljanda bar ekki saman

Dómur Héraðsdóms Reykjaness í málinu var kveðinn upp árið 2013.

Meðal vitna í málinu var Eiríkur Svanur Sigfússon fasteignasali en samkvæmt söluyfirliti eignarinnar, sem DV hefur undir höndum, frá fasteignasölunni Ás, sem sá um söluna, var hann skráður skoðunarmaður eignarinnar. Efni vitnisburðar Eiríks kemur ekki fram í dómi Héraðsdóms en samkvæmt heimildum DV sagði hann fyrir dómi að hann hafi talið að eignin væri tilbúin.

Í söluyfirliti eignarinnar kemur hvergi fram að fasteignin sé enn á fokheldisstigi og þar kemur einnig fram að starfsmanni fasteignasölunnar Ás, sem væntanlega var hinn skráði skoðunarmaður Eiríkur, hafi ekki verið bent á neina galla á eigninni.

Samkvæmt heimasíðu Neytendasamtakanna segir að samkvæmt lögum beri fasteignasali ríka ábyrgð á að upplýsingar í söluyfirliti séu réttar og þegar kemur að ástandi fasteignar beri honum að kynna sér það af eigin raun. Séu upplýsingar í söluyfirliti rangar eða ófullnægjandi geti það leitt til bótaábyrgðar fasteignasala.

DV hefur einnig kaupsamninginn milli aðila málsins undir höndum og þar kemur heldur hvergi fram að húsið sé enn á fokheldisstigi.

Í málflutningi lögmanns Björns og Þorgerðar, samkvæmt dómnum, kom fram að eftir að nýju eigendurnir, Sæmundur og Ester, höfðu samband við þau árið 2011 og greindu þeim frá göllum og tilheyrandi leka í eigninni hafi Björn haft samband við Arnþór byggingarstjóra, en að það hafi verið umfram hans skyldur sem seljandi og að í því hafi ekki falist nein viðurkenning. Arnór hafi tjáð Birni að hann hygðist safna saman gögnum til þess að byggingarfulltrúi Hafnarfjarðar gæti gert lokaúttekt. Einhverjar viðræður hafi átt sér stað milli Björns og Sæmundar um „hina meintu galla“ og mögulegar lagfæringar á þeim án þess þó að það fæli í sér viðurkenningu á ábyrgð á göllunum eða skyldu til að lagfæra þá.

Þetta er í nokkru samræmi við tölvupóstsamskiptin milli Björns og Sæmundar en þar koma þó ekki fram neinar yfirlýsingar um skyldur þess fyrrnefnda. Í málflutningi lögmanns Björns, samkvæmt dómi Héraðsdóms Reykjaness, er ekki tekið fram að lítið hafi orðið úr þessu en í dómnum er þess þó getið að fram hafi komið í málflutningi lögmanns Sæmundar og Esterar að eftirfylgnin hvað þetta varðar hafi verið lítil af hálfu fyrri eigenda hússins.

Í dómnum kemur fram að Björn segist hafa við skoðun eignarinnar, áður en kaupin voru frágengin, upplýst kaupendur, Sæmund og Ester, um að úttektarferli væri ekki lokið m.a. vegna þess að í bílskúr hússins væri ósamþykkt og ófrágengið herbergi.

Fasteignasalanum, Eiríki, og seljandanum, Birni, virðist því ekki hafa borið fyllilega saman um hvort að eignin hafi í raun verið enn á fokheldisstigi þegar gengið var frá kaupunum. Fyrir liggur að Eiríkur og Björn eru vinir en fyrr á þessu ári birti sá fyrrnefndi mynd á Facebook-síðu sinni af þeim saman í skíðaferð ásamt fleirum. Það er hins vegar ekki ljóst hvort að sú vinátta hófst áður en salan á fasteigninni, til Sæmundar og Esterar, fór fram og því ekki hægt að fullyrða um hvort að þessi vinátta hafði áhrif á söluna.

Sæmundur og Ester fullyrða að þeim hafi aldrei verið tjáð, áður en kaupin gengu í gegn, að eignin væri enn á fokheldisstigi og að þau hafi talið sig vera að kaupa hús sem væri fullbúið.

Deilt um hversu skýrt lykilgagn í málinu er

Meðal fylgigagna við kaupin var vottorð frá Fasteignamati ríkisins en í dag er fasteignamat meðal verkefna Húsnæðis-og mannvirkjastofnunar.

Í dómi Héraðsdóms segir að í vottorðinu komi fram að húsið sé á byggingarstigi 4. Hús á því byggingarstigi eru fokheld.

DV hefur vottorðið undir höndum og í því stendur að „Bstig“ sé 4 og neðst á vottorðinu undir orðinu „skýringar“ stendur að Bstig sé „samþykkt byggingarstig frá byggingarfulltrúa“. Það kemur hins vegar ekki fram á vottorðinu hvað byggingarstig 4 felur í sér. Niðurstaða Héraðsdóms er sú að vottorðið sýni fram á að það sé óumdeilt að fasteignin hafi verið á fokheldisstigi við kaupin. Í dómnum segir að í kauptilboðinu komi fram að kaupendur hafi kynnt sér öll gögn sem skoðast sem hluti af kaupsamningi, þar á meðal sé þetta vottorð.

Í dómnum segir að upplýst og óumdeilt sé að það hafi ekki komið til tals við kaupin að húsið væri enn á fokheldisstigi, hvorki milli seljenda og kaupenda né af hálfu fasteignasala en að aðilum málsins greini á hvort að kaupendunum, Sæmundi og Ester, hafi mátt eða átt að vera þetta ljóst. Að áliti dómsins hefði Sæmundi og Ester átt að vera það ljóst að húsið væri enn á fokheldisstigi þegar þau keyptu það fyrst að húsið hafi verið skráð í vottorðinu, frá Fasteignamati ríkisins, á þessu byggingarstigi og einnig vegna þess að seljendurnir, Björn og Þorgerður, hafi gert breytingar á innréttingum sem ekki hafi verið í samræmi við byggingarnefndarteikningar.

Dómurinn taldi það ekki óeðlilegt að fasteignin hafi verið seld þótt að lokaúttekt hafi ekki farið fram.

Í tölvupósti til DV segir Sæmundur að þau hjónin hafi ekki vitað hvað „Bstig 4“ þýddi og bendir á að letrið á vottorðinu hafi verið frekar smátt.

Megnið af letrinu á vottorðinu er í smærra lagi en líklega er hægt að halda því fram að það sé einstaklingsbundið hversu smátt letur á tilteknum skjölum þykir vera.

Hann spyr einnig hvers vegna fasteignasalinn hafi ekki vitað það heldur að þetta þýddi að húsið væri enn á fokheldisstigi sem hann hafi greinilega ekki vitað fyrst hann hafi sagt að húsið væri tilbúið.

Málinu er ekki lokið en eins og kom fram í fyrri frétt DV, sem tengill er á hér fyrir ofan, hafa Sæmundur og Ester höfðað nýtt mál á hendur Birni og Þorgerði á grundvelli nýrrar matsgerðar á ástandi hússins og verður það tekið fyrir síðar á þessu ári.

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 15 klukkutímum

Viðbragð Veðurstofunnar virkjað í nótt: Töldu að kvikuhlaup gæti verið að hefjast

Viðbragð Veðurstofunnar virkjað í nótt: Töldu að kvikuhlaup gæti verið að hefjast
Fréttir
Fyrir 15 klukkutímum

Gat ekki tjáð sig öðruvísi en með öskrum og svívirðingum

Gat ekki tjáð sig öðruvísi en með öskrum og svívirðingum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Netárás tók endurritun internetsins úr sambandi

Netárás tók endurritun internetsins úr sambandi
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Þessi töluðu minnst á Alþingi á kjörtímabilinu

Þessi töluðu minnst á Alþingi á kjörtímabilinu
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Flýja til Íslands á meðan forsetakosningarnar standa yfir – „Það verður svo mikill hávaði og svo mikil ringulreið“

Flýja til Íslands á meðan forsetakosningarnar standa yfir – „Það verður svo mikill hávaði og svo mikil ringulreið“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Ný könnun: Viðreisn nartar í hælana á Samfylkingunni – Píratar og VG í klandri

Ný könnun: Viðreisn nartar í hælana á Samfylkingunni – Píratar og VG í klandri