Ewa Kamińska, ekkja Jaroslaws Kaminski, mannsins sem myrtur var í Drangahrauni í Hafnarfirði þann 17. júní síðastliðinn, segir í viðtali við DV að lögregla hafi ekkert samband haft við sig vegna málsins. Einnig er hún ósátt við að uppkomin dóttir Jaroslaws hér á Íslandi hafi komið í veg fyrir að hún gæti verið viðstödd jarðarförina.
Jaroslaw, sem kallaður var Jarek, var á miðjum fimmtugsaldri. Hann lést aðfaranótt 17. júní er meðleigjandi hans í herbergi í iðnaðarhúsnæði í Drangahrauni í Hafnarfirði stakk hann til bana, hugsanlega í svefni. Engin ástæða fyrir morðinu hefur verið tilgreind og ekki er vitað til þess að mennirnir hafi átt í deilum.
Ewa segist ekki hafa hugmynd um morðástæðuna. „Ég veit ekki til þess að þessir menn hafi átt í deilum og Jarek þekkti þennan mann ekki,“ segir Ewa en mennirnir höfðu verið herbergisfélagar um stutt skeið.
Jarek hafði búið í nokkra mánuði í þessu leiguherbergi en þessi búseta var ekki í samræmi við lífsstíl hans hér á Íslandi megnið af tíma hans hér, en Jarek bjó á Íslandi í það minnsta frá árinu 2009.
Jarek var lengi í sambúð með pólskri konu hér á Íslandi og á með henni dóttur sem er 18 ára í dag. Lifði hann lengst af hefðbundnu fjölskyldulífi með konunni og dóttur hennar, eða allt þar til hann og konan slitu samvistum.
Jarowslaw var lærður kjötiðnaðarmaður og með mjög langa starfsreynslu í faginu. Hann hafði orð á sér fyrir að koma þekkingu sinni til skila til yngri kollega, studdi menn áfram og sagði þeim til. Veitingamenn í Hafnarfirði bera honum góða söguna sem vingjarnlegum og viðkunnanlegum viðskiptavini.
Ljóst er að hugur og hjarta Jareks voru ekki lengur á Íslandi þegar hann lést, hann stefndi til Póllands og hafði búið þar í haginn fyrir nýtt líf með ástinni sinni, Ewu, sem hann kynntist fyrir nokkrum árum, að sögn Ewu sjálfrar.
„Við giftumst fyrir þremur árum. Allir nánustu ættingjar Jareks voru viðstaddir brúðkaupið, þar á meðal móðir hans. Núna lifir aðeins minningin. Veröldin mín hrundi til grunna og hjartað mitt brotnaði í milljón mola,“ segir Ewa og skyldi engan undra að hlutskipti hennar núna er mjög þungt.
Ewa er ósátt við framgöngu dóttur Jareks hér á landi eftir lát hans. Í fyrsta lagi vegna þess að dóttirin hafði aldrei samband við hana til að upplýsa hana um stöðu mála og því gat hún ekki verið viðstödd jarðarför síns elskulega eiginmanns. Einnig segir Ewa að dóttir Jareks hafi ekki gert neinni íslenskri stjórnvaldsstofnun viðvart um að Jarek ætti eiginkonu í Póllandi. Ewa segir að haft hafi verið samband við hana úr pólska sendiráðinu á Íslandi og spurt hvort hún vildi gefa skriflegt leyfi fyrir því að jarðneskar leifar Jareks yrðu brenndar og askan flutt til Póllands. Ewa hafnaði því þar sem hún var tilbúin að fljúga sjálf til Íslands. En í millitíðinni lét dóttir Jareks jarða hann á Íslandi án þess að gera Ewu viðvart um það. „Það er sárt að fá ekki að taka þátt í síðustu ferð eiginmanns sínar hér á jörð,“ segir Ewa.
Sem fyrr segir er Ewa óánægð með að lögreglan hafi ekki haft samband við hana en hún telur sig hafa upplýsingar í málinu sem eru lögreglunni ef til vill alveg ókunnar. „Ég er komin með netfang hjá lögreglunni og ætla að skrifa henni,“ segir Ewa, en hún getur ekki veitt DV þessar upplýsingar þar sem þær eru viðkvæmar og það gæti spillt rannsókn málsins.
Ewa segist hafa komist að því að fulltrúi sýslumanns væri með lykla að herberginu sem Jarek leigði. Í kjölfar þess fóru lögmenn á vegum Ewu og annarra aðila sem tengjast málinu í herbergið og könnuðu aðstæður. Sendu lögmenn Ewu henni ljósmyndir úr herberginu. Hún staðhæfir að það hafi vantað marga hluti sem hún telur Jarek hafa átt, t.d. skartgripi, sjónvarpstæki, þurrkara, greiðslukort og fleira. Sýslumaður hafði ekki samband við Ewu vegna þessarar könnunarferðar en hún fékk upplýsingarnar í gegnum lögmenn sína.
Ewa segist vilja fá líkamsleifar Jareks til Póllands. „Þetta er hans staður, hans land. Því miður hefur dóttir hans þegar tilkynnt lögreglu að hún samþykki ekki að líkið verði grafið upp og sent til Póllands. Ég þarf að höfða mál til þess að fá því framgengt.“ Ewa segist hins vegar bæði þurfa á fjármunum og ráðgjöf að halda áður en hún fer í málaferli, enda fari lög í Póllandi og Íslandi ekki alltaf saman. Hún er að kanna þessi mál og velta fyrir sér hvernig hún getur borið sig að í þessari baráttu, jafnframt því sem hún tekst á við sorgina eftir fráfall síns heittelskaða Jareks.