fbpx
Þriðjudagur 24.desember 2024
Fréttir

Byggingarfulltrúi Hafnarfjarðar fór ekki eftir settum reglum – Fjölskylda situr uppi með tuga milljóna króna tjón og þarf að búa í tjaldi

Jakob Snævar Ólafsson
Mánudaginn 31. júlí 2023 20:00

Ráðhús Hafnarfjarðar/Mynd: Ja.is

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sæmundur Jóhannsson, flugvirki og íbúi í Hafnarfirði, gagnrýnir, í nýlegri færslu á Facebook-síðu sinni, Hafnarfjarðarbæ harðlega fyrir að neita allri ábyrgð á algjörum skorti á byggingareftirliti við byggingu húss fjölskyldunnar að Burknavöllum, í bænum. Með færslunni birtir Sæmundur gögn og þar á meðal er bréf frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun þar sem komist er að þeirri niðurstöðu að bærinn hafi ekki farið eftir byggingarreglugerð í málinu.

Sæmundur hefur áður greint opinberlega frá rimmu sinni við bæjaryfirvöld í Hafnarfirði. Mannlíf fjallaði fyrr á þessu ári um mál Sæmundar og fjölskyldu hans. Í fréttum Mannlífs kom fram að Sæmundur og eiginkona hans, Ester Erlingsdóttir, hafi keypt nýbyggt hús við Burknavelli í Hafnarfirði árið 2008. Húsið var keypt í gegnum fasteignasöluna ÁS í Hafnarfirði sem full tilbúið hús.

Sæmundur segir að árið 2012 hafi komið í ljós að húsið væri ekki full tilbúið heldur enn á fokheldisstigi. Ekkert hafi staðið um það í kaupsamningi og því telur hann að seljandi hússins og fasteignasalan ÁS, sem annaðist söluna, hafi platað þau hjónin.

Árið 2012 hafi einnig komið upp galli á eigninni og við það hafi komið í ljós að húsið hafi ekki verið með svokallaða byggingarstjóraábyrgð.

Í núgildandi lögum um mannvirki segir m.a. í ákvæðum laganna um hlutverk byggingarstjóra við byggingarframkvæmdir:

„Við stjórn byggingarframkvæmda hvers leyfisskylds mannvirkis skal á hverjum tíma vera einn byggingarstjóri. Óheimilt er að veita byggingarleyfi fyrir framkvæmd nema ráðinn hafi verið byggingarstjóri sem uppfyllir hæfniskröfur 28. gr.“

Byggingarfulltrúi brást ekki við tilkynningu um niðurfellingu tryggingar byggingarstjórans

Í umfjöllun Mannlífs segir að á þessum tæpa áratug sem er liðinn síðan þetta allt kom upp á yfirborðið hafi Sæmundur leitast við að fá úrlausn sinna mála hjá bæjaryfirvöldum í Hafnarfirði en án árangurs. Hann segir að þáverandi byggingarfulltrúa bæjarins, Hrólfi S. Gunnlaugssyni, hafi verið gert kunnugt þegar árið 2005 að byggingarstjóri hússins, Arnór Friðþjófsson, hefði ekki lengur, gilda starfsábyrgðartryggingu byggingarstjóra.

Í umfjölluninni má lesa bréf tryggingafélagsins Sjóvá-Almennar til umhverfisráðuneytisins þar sem þetta er tilkynnt. Með Facebook-færslunni nýjustu birtir Sæmundur bréf ráðuneytisins til byggingarfulltrúans, frá árinu 2005, þar sem þessu er komið á framfæri.

Sæmundur bendir á að byggingarfulltrúanum hafi borið við slíkar aðstæður, samkvæmt lögum, að stöðva framkvæmdir við húsið en ekki gert það.

Hann og eiginkonan stóðu því uppi með hús sem var byggt án alls eftirlits. Hann segir að kostnaður við tjón á húsinu vegna galla við byggingu þess sé um 50 milljónir króna. Gallarnir hafi valdið því að mygla hafi myndast í húsinu og það hafi orsakað mikil veikindi hjá fjölskyldunni. Hún hafi neyðst til að leigja sér húsnæði í öðru bæjarfélagi og hafi glatað aleigunni.

Í umfjöllun Mannlífs kom fram að Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðar, hafi ekki svarað tölvupóstum frá Sæmundi og að Ívar Bragason, bæjarlögmaður, hafni því að bærinn sé bótaskyldur.

Sæmundur fullyrðir hins vegar að ef þáverandi byggingarfulltrúi Hafnarfjarðar, hefði stöðvað framkvæmdir við byggingu hússins, árið 2005 þegar tilkynnt var að byggingarstjórinn yfir framkvæmdunum væri ekki lengur með gilda starfsábyrgðartryggingu, sem hann og eiginkona hans keyptu síðar, væru hann og fjölskylda hans ekki í jafn slæmri stöðu og þau eru nú.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun tekur undir með Sæmundi

Í færslunni á Facebook-síðu sinni endurtekur Sæmundur að Hafnarfjarðarbær hafi algjörlega vanrækt lögbundnar skyldur sínar við eftirlit með byggingu hússins við Burknavelli, með þeim afleiðingum að miklir gallar séu á húsinu sem hafi ýtt undir mygla tók sér bólfestu þar.

Sæmundur sendi kvörtun til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar og með færslunni birtir hann bréf frá stofnuninni sem dagsett er 2. mars síðastliðinn og stílað á Hildi Bjarnadóttur, núverandi byggingarfulltrúa.

Í bréfi stofnunarinnar til byggingarfulltrúans kemur fram að samkvæmt svörum hans finnist ekki afrit af bréfi frá þáverandi byggingarfulltrúa, á árinu 2005, til þáverandi eiganda fasteignarinnar við Burknavelli og byggingarstjórans um að sá síðarnefndi skyldi skrá sig af verkinu og framkvæmdir stöðvaðar, í ljósi þess að starfsábyrgðartrygging hins síðarnefnda væri ekki lengur í gildi. Byggingarstjórinn hafi ekki skráð sig af verkinu með formlegum hætti. Þar af leiðandi hafi stöðuskoðun ekki farið fram eins og venjan er þegar skipt sé um byggingarstjóra við byggingarframkvæmdir.

Í ljósi svara byggingarfulltrúans og annarra gagna sem bárust frá honum auk gagna sem bárust frá Sæmundi er það niðurstaða Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar að afgreiðsla byggingarfulltrúans, þegar afturköllun starfsábyrgðartryggingar byggingarstjórans var staðreynd, hafi ekki verið í samræmi við ákvæði byggingareglugerðar nr. 441/1998 sem gilti á þeim tíma sem afturköllunin kom upp.

Í reglugerðinni kom skýrt fram að starfandi byggingarstjórar mættu ekki starfa án starfsábyrgðartryggingar og félli hún úr gildi yrðu þeir að útvega sér nýja tryggingu ella segja sig frá öllum byggingarframkvæmdum án tafar.

Í reglugerðinni kom einnig fram að byggingarfulltrúa bæri að stöðva framkvæmdir þar til nýr byggingarstjóri hefði verið ráðinn.

Stofnunin segir í bréfinu að af gögnum málsins sé ljóst að nýr byggingarstjóri hafi ekki verið skipaður og framkvæmdir heldur ekki stöðvaðar. Byggingarfulltrúi hafi einnig ekki getað sýnt fram á að eiganda hússins við Burknavelli hafi verið send tilkynning um að starfsábyrgðartrygging byggingarstjórans hafi verið afturkölluð. Mikilvægt sé að koma slíkum upplýsingum á framfæri annars geti eigandi viðkomandi mannvirkis ekki gætt þeirra hagsmuna sinna sem fólgnir eru í því að byggingarstjóri hafi gilda starfsábyrgðartryggingu.

Í niðurlagi bréfs Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar til byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar er lögð rík áhersla á að afgreiðsla mála af þessu tagi tryggi eins og kostur er að starfandi byggingarstjórar séu ekki án gildrar starfsábyrgðartryggingar. Að teknu tilliti til niðurstöðu stofnunarinnar sé lagt fyrir byggingarfulltrúann að gera úrbætur í máli þessu í samræmi við verklag sem byggingarfulltrúinn segist viðhafa í sambærilegum málum.

Bréfið hefur engu breytt – Búa í tjaldi

Í samtali við fréttamann DV segir Sæmundur að niðurstaða Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar hafi engu breytt í samskiptum hans og fjölskyldunnar við Hafnarfjarðarbæ. Bærinn neiti að aðstoða við að útvega henni bráðabirgðahúsnæði og hafni enn allri bótaskyldu. Eins og staðan er í dag getur fjölskyldan ekki búið í húsinu vegna myglunnar og þar sem hún hefur ekki í önnur hús að venda þarf hún að búa í tjaldi í garðinum við húsið. Bæði Ester, eiginkona Sæmundar, og sonur hjónanna hafa glímt við veikindi vegna myglunnar.

Sæmundur segir að bærinn hafi boðið að fasteignagjöld yrðu felld niður og að þau hjónin myndu fá greiðslu sem næmi 1,3 milljónum króna. Þessu tilboði höfnuðu þau enda er sú upphæð bara lítið brot af þeim kostnaði sem gallarnir á húsinu hafa valdið.

Samkvæmt tölvupósti Rósu Guðbjartsdóttur, bæjarstjóra í Hafnarfirði, til Sæmundar er bótaskyldu hafnað m.a. á þeim grunni að fyrrum eigandi hússins og byggingarstjórinn hafi verið dæmdir til að greiða Sæmundi og Ester bætur vegna galla á eigninni. Það mál höfðuðu hjónin 2012.

Þau hafa höfðað nýtt mál á hendur fyrri eiganda hússins á grundvelli nýrrar matsgerðar vegna gallanna og segir Rósa að það ýti einnig undir þá niðurstöðu bæjarins að hafna bótaskyldu. Rósa heldur því einnig fram í tölvupóstinum að ekki sé ljóst hvort að gallarnir á húsinu hafi komið til eftir að starfsábyrgðartrygging byggingarstjórans rann út.

Bæjarstjórinn minnist í tölvupóstinum til Sæmundar ekkert á þá niðurstöðu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar að þáverandi byggingarfulltrúi Hafnarfjarðar hafi ekki farið eftir gildandi reglugerð þegar kom að skipan byggingarstjóra við byggingu hússins að Burknavöllum.

Sæmundur segir að ef bæjaryfirvöld í Hafnarfirði hefðu staðið við skyldur sínar og sinnt byggingareftirliti með fullnægjandi hætti væri fjölskyldan ekki í þessari stöðu en hún hefur neyðst til að taka lán upp á rúmlega 30 milljónir króna til að fjármagna nauðsynlegar lagfæringar á húsinu. Hafa ber einnig í huga að þar sem byggingarstjórinn var ekki með gilda starfsábyrgðartryggingu hafa þau ekki fengið neinar bætur frá tryggingafélögum.

Hann segir að eins og fjárhagsstaða þeirra hjóna sé núna hafi þau ekki efni á að fara í mál við Hafnarfjarðarbæ en lögmaður hans hafi farið fram á gjafsókn og beðið sé niðurstöðu um þá umsókn. Þau hjónin hafa eins og áður sagði höfðað nýtt mál á hendur fyrri eiganda hússins, sem verður tekið fyrir í október næstkomandi, og Sæmundur segir að þau hafi ekki efni á að fara í mál gegn bæði honum og Hafnarfjarðarbæ eins og staðan sé núna.

Sæmundur segir Hafnarfjarðarbæ neita alfarið að gangast við ábyrgð sinni í málinu. Hann segir að bæjarfélög eigi að bera ábyrgð á tjóni sem aðgerðir eða aðgerðaleysi þeirra valda. Vegna aðgerða Hafnarfjarðarbæjar í þessu máli sé aleiga þeirra hjóna einfaldlega farin.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Egill Þór er látinn

Egill Þór er látinn
Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Óveður á aðfangadagskvöld: „Líklegt að veðrið muni hafa áhrif á jólin á stórum hluta landsins þetta árið“

Óveður á aðfangadagskvöld: „Líklegt að veðrið muni hafa áhrif á jólin á stórum hluta landsins þetta árið“
Fréttir
Í gær

Sigríður segir Helga ekki geta verið vararíkissaksóknari þrátt fyrir úrskurð ráðherra – „Ber meiri keim af einelti en lögfræði“

Sigríður segir Helga ekki geta verið vararíkissaksóknari þrátt fyrir úrskurð ráðherra – „Ber meiri keim af einelti en lögfræði“
Fréttir
Í gær

Kvikmyndagerðarmaður auglýsir eftir uppljóstrara – „Ef þú býrð yfir upplýsingum sem snerta okkur öll…“

Kvikmyndagerðarmaður auglýsir eftir uppljóstrara – „Ef þú býrð yfir upplýsingum sem snerta okkur öll…“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ný ríkisstjórn kynnt við vetrarsólstöður

Ný ríkisstjórn kynnt við vetrarsólstöður
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Egill Helgason fékk heldur betur „rausnarlega“ gjöf frá Íslandsbanka

Egill Helgason fékk heldur betur „rausnarlega“ gjöf frá Íslandsbanka
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Allt brjálað í fjölbýlishúsi í Hafnarfirði – Byggðu íbúð í geymslunum

Allt brjálað í fjölbýlishúsi í Hafnarfirði – Byggðu íbúð í geymslunum
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Íslenskur skurðlæknir vinnur við að bjarga slösuðum eftir árásina í Magdeburg

Íslenskur skurðlæknir vinnur við að bjarga slösuðum eftir árásina í Magdeburg